Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Verndandi arfgerðir í sókn
Á faglegum nótum 29. febrúar 2024

Verndandi arfgerðir í sókn

Höfundur: Eyþór Einarsson, ráðunautur

Bændur voru duglegir við sýnatökur á síðasta ári. Alls fengust greiningarniðurstöður fyrir 35.287 sýni sem var í raun vonum framar. Greinilegt er að áhugi bænda er mikill fyrir þessu verkefni.

Eyþór Einarsson

Þá munaði mikið um aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar og þau hagstæðu kjör sem þar bjóðast en það hefur klárlega örvað þátttökuna. Þar að auki styrkti matvælaráðuneytið og Þróunarsjóður sauðfjárræktarinnar sýnatökurnar og varð því á endanum kostnaður bænda við þennan lið mun minni en útlit var fyrir í ársbyrjun 2023.

Samsetning stofnsins

Í þessari samantekt eru arfgerðir gripa flokkaðar í 5 flokka. Það er V eða verndandi (dökkgrænt flagg). Það eru arfgerðir sem innihalda ARR en mega þó ekki vera arfblendnar á móti VRQ.

Þá er það MV eða mögulega verndandi (ljósgrænt flagg), en það eru arfgerðir sem innihalda breytileikana T137, C151 og H154 (AHQ) en þessar arfgerðir mega heldur ekki innihalda VRQ. Þriðji flokkurinn kallast lítið næmar arfgerðir (blátt flagg) en það eru bara arfgerðir sem innihalda N138, arfhreint eða á móti villigerðinni ARQ. Síðan er það villigerðin, ARQ/ ARQ sem einnig er þekkt sem hlutlaus (gult flagg) og að lokum áhættuarfgerðir (rautt flagg), en það eru allar arfgerðir sem innihalda VRQ.

Í skýrsluhaldsforritinu Fjárvís er nú að finna 53.860 lifandi gripi sem hafa greiningu. Ekki hefur þó verið tekið sýni úr þeim öllum, en Fjárvís getur búið til greiningar á gripi ef báðir foreldrar eru greindir og hægt að spá með 100% vissu hvað afkvæmið fær. Hlutfall ásetningsfjár sem er með greiningu hækkar því úr 8% í 15% á milli ára.

Á mynd 1 má sjá samsetningu stofnsins út frá niðurstöðum greininga. Flestir gripir bera villigerðina (hlutlausir). Hlutfall hlutlausra kinda lækkar aðeins um 2% milli ára. Hugsanlega hefði þetta hlutfall mælst hærra á síðasta ári ef jafnmargir gripir hefðu verið með greiningu og nú.

Mynd 1.
Samsetning stofnsins (ær og hrútar) út frá arfgerðum lifandi kinda í Fjárvís í ársbyrjun 2024.

Kindur sem bera ARR og eru ekki með VRQ (áhættu samsætuna) reynast nú vera 3% af stofninum og eru því gripir sem bera verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir 19% en voru á síðasta ári 15%. Hæst hlutfall af lifandi kindum með greiningar er að finna í Vestur-Húnavatnssýslu en þar eru 32% ásettra kinda með greiningu líkt og fram kemur í töflu 1. Næsthæst er greiningarhlutfallið í Skagafirði en ekki kemur á óvart að mest sé greint í þeim héruðum þar sem riðan hefur mest látið á sér kræla að undanförnu.

Þó hér sé ekki tekin saman sundurliðun eftir varnarhólfum, má ætla að af hreinu hólfunum (söluhólfunum) séu Strandamenn lengst komnir en Strandasýslan er með 24% ásetningsfjár greint og koma Strandamenn næstir á eftir Skagfirðingum. Minnst hefur verið greint í Mýrarsýslu, eða 4%.

Tafla 1. Yfirlit yfir fjölda lifandi kinda í Fjárvís (hrútar og ær) sem hafa verið arfgerðargreindar flokkað eftir sýslum. Þá er hér sett fram hvernig þessar kindur flokkast eftir verndargildi arfgerðanna.

Hrútar

Mikilvægast er að greina hrútana og er markmiðið að allir ásetningshrútar landsins séu með arfgerðargreiningu. Ekki er búið að ná þessu marki, en margir eru þó vel á veg komnir. Á 1.020 búum, samkvæmt Fjárvís, eru hrútar með arfgerðargreiningu en það er u.þ.b. 60% búa í skýrsluhaldi. Af þessum rúmlega þúsund búum eru þó aðeins 143 sem eru með greiningu á öllum sínum hrútum.

Hugsanlega eru þessi bú talsvert fleiri í raun, en búast má við að eitthvað af þeim hrútum sem skráðir eru lifandi í skýrsluhaldinu séu það ekki og eins er eitthvað af þessum hrútum ekki nýttir til kynbóta. Ef skoðað er hlutfall hrúta með greiningu eftir sýslum (mynd 2) þá er greiningarhlutfallið að jafnaði 37%, en samkvæmt Fjárvís eru 7.555 hrútar á lífi, arfgerðargreindir. Hæst er hlutfallið í Vestur-Húnavatnssýslu, þar er 65% hrútanna með greiningu.

Mynd 2. Hlutfall arfgerðargreindra hrúta, sem skráðir eru lifandi í Fjárvís, eftir sýslum. Raðað eftir greiningarhlutfalli.

Ef skoðað er hvernig samsetning hrútakostsins í landinu er m.t.t. næmis gegn riðu þá eru 9% hrúta með verndandi arfgerð og 17% með MV arfgerðir. Þetta hlutfall er þó mun hærra í yngsta aldursflokknum, en af hrútlömbum sem sett voru á sl. haust eru 19% með verndandi arfgerðir og 20% með mögulega verndandi arfgerðir. Gera má ráð fyrir að þessir hrútar hafi verið vel nýttir á síðustu fengitíð og má því ætla að yfir 100.000 lömb fæðist í vor sem eiga möguleika á því að bera V eða MV. Ef réttu lömbin verða valin til ásetnings verður tekið stórt skref í innleiðingu verndandi arfgerða og ætti því hlutfall hlutlausra- eða áhættuarfgerða að geta lækkað býsna hratt á næstu árum.

Á mynd 3 má sjá hvernig þessir arfgerðagreindu hrútar skiptast eftir stöðu arfgerðanna innan sýslna. Gera má ráð fyrir að hlutfall hrúta með V eða MV arfgerðir sé í raun lægra, en ætla má að þeir sem hafa verið duglegastir að velja fyrir V eða MV séu líka duglegastir við að arfgerðargreina. Athygli vekur að í öllum sýslum er eitthvað sett á af hrútum sem fyrir liggur að séu með áhættuarfgerð (VRQ/x).

Mynd 3. Samsetning arfgerða með tilliti til riðumótstöðu eftir sýslum. Gögnin byggja á lifandi hrútum skráðum í Fjárvís í febrúar 2024.

Slíka hrúta ætti helst ekki að nota. Í sumum tilfellum er skýringin þó sú að þessir hrútar hafa V eða MV genasamsætu á móti VRQ og með því að beita arfgerðargreiningum er þá hægt að velja eingöngu afkvæmin sem hafa góðu genin.

Þeir bændur sem ekki hafa látið greina hrútana sína enn þá eru hvattir til að taka sýni úr þeim í vetur. Gott er að stefna á að vera búin að greina hrútana fyrir vorið áður en lömbin koma í heiminn og fyrstu drög lögð að ásetningi næsta árs, m.a. með sýnatökum.

Að lokum eru Þórdísi Þórarinsdóttur færðar þakkir fyrir aðstoð við gagnaöflun.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...