Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Vökustaurar notaðir til að halda fólki að vinnu
Á faglegum nótum 23. desember 2015

Vökustaurar notaðir til að halda fólki að vinnu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ef marka má þjóðháttalýsingu Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili var aldrei keppst eins mikið við vinnu eins og fyrir jólin. Einkum var lagt kapp á að ljúka við ullarvinnu og prjónaskap á jólaföstunni.

Síðasta vikan fyrir jól var kölluð staurvika vegna þess að þá notaði fólk vökustaura til að halda sér vakandi. Staurarnir eða augnteprurnar voru gerðar úr smáprikum ámóta stórum og eldspýtur en stundum var notað svokallað baulubein úr þorskhöfði eða eyruggabein úr fiski. Skorið var inn í beinið til hálfs en það haft heilt hinum megin og á það gerð lítil brotalöm og skinninu á augnlokinu smeygt inn í hana. Stóðu þá endarnir í skinnið og mjög sárt að loka augunum.

Jónas segir að húsbændur hafi stundum sett vökustaura á þá sem áttu erfitt með að halda sér vakandi við vinnu síðustu vikuna fyrir jól.

Fátækraþerri

Víða þótti til siðs að þrífa allt hátt og lágt fyrir jólin. Menn skiptu um nærföt og stundum var meira að segja skipt á rúmunum og mestu sóðar brutu jafnvel venjur sínar og voru hreinir og vel til hafðir um jólin.
Samkvæmt gamalli þjóðtrú lét guð alltaf vera þíðviðri rétt fyrir jólin, til þess að fólk gæti þurrkað plöggin sín fyrir hátíðina og var þessi þurrkur kallaður fátækraþerri.

Til siðs var á mörgum býlum að fara í kaupstað fyrir jólin. Sumir fóru eingöngu til að sækja jólabrennivínskútinn til að eiga til hressingar.

Stundum var lagt út í mikla óvissu til að ná í jólaölið og kom fyrir að menn urðu úti í slíkum nauðsynjaferðum.

Jólaærin

Á flestum bæjum var til siðs að slátra kind fyrir jólin til að eiga nýtt kjöt yfir jólin og mun kindin sú hafa verið kölluð jólaærin. Jónas segir að siðurinn hafi að mestu verið aflagður á Norðurlandi í sinni tíð en í fullu gildi á Vestfjörðum langt fram á hans daga.

Tröll á ferð

Að sögn Jónasar voru jólin helgust og mest allra hátíða enda má rekja þau aftur til hinnar elstu og römmustu heiðni á Norðurlöndum og til Germanna.

Um jólaleyti eru allar ófreskjur og illþýði á ferð og gera allt illt sem þau geta. Tröll og óvættir gengu um og voru Grýla gamla og jólasveinarnir hennar þar fremstir í flokki.

Ekki mátti leika sér á jólanóttina, hvorki spila né dansa. Til er saga sem segir að einu sinni hafi tvö börn farið að spila spil á jólanótt. Kom þá til þeirra ókunnugur maður og fór að spila við þau, hann hvatti þau til að spila við sig fram eftir nóttu eða þar til eitt barnið fór að raula sálmavers en þá hvarf maðurinn. Þar mun andskotinn sjálfur hafa verið á ferð.

Komi þeir sem koma vilja

Víða mun hafa verið til siðs að kveikja ljós um allan bæinn á jólanótt svo að hvergi bæri á skugga.
Þegar búið var að sópa húsið gekk húsfreyjan í kringum það og bauð áfunum heim með orðunum: „Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, fari þeir sem fara vilja mér og mínum að meinalausu.“

Hátíð barnanna

Jólin hafa alltaf verið hátíð barnanna og var til siðs að þau fengju að borða fylli sína um hátíðina. Einnig þótti sjálfsagt að gefa þeim nýja flík svo þau færu ekki í jólaköttinn. Mörg börn fengu kerti og þótti það dýrðarstund að kveikja á kertunum og horfa á logann brenna út.

Skylt efni: Jól | vökustaurar

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...