Af jurtaostum, rjómalíki og gervikjöti
Í síðasta Bændablaði var fjallað um jurtaost sem hefur til skamms tíma verið fluttur inn til landsins án allra tolla þótt hann innihaldi að uppistöðu til hefðbundinn ost sem unninn er úr mjólk. Fulltrúar bænda hafa rekið þetta mál á síðustu vikum og barist fyrir því að stjórnvöld skilgreini vörur sem þessar með réttum hætti í tollskrám. Skilgreiningin er nú orðin skýr og er það áfangasigur fyrir okkur bændur.
Það sem hefur komið verulega á óvart í allri þeirri vinnu er hvað mikið magn af mjólkurvörum er með íblöndun af aukaefnum af ýmsum toga og flutt inn til landsins án tolla. Sem dæmi þá var fluttur inn jurtarjómi á tímabilinu 1. janúar 2018 til apríl 2020, um 400 tonn. Öll þessi vara var án tolla.
Hvaða matur er á boðstólum?
En málið á sér margar hliðar. Það er ekki bara höfuðverkur fyrir tollverði að raða matvörum í rétta tollflokka eftir eðli og efnainnihaldi. Við viljum líka vita frá hvaða löndum viðkomandi vörur eru, hvort þær séu framleiddar við góðar aðstæður og séu heilnæmar. Er skordýraeitur notað í stórum stíl í framleiðslunni eða eru sýklalyf gefin skepnum til að auka vaxtarhraðann? Neytendur eru ekki alltaf öfundsverðir að átta sig á hvað kaupmaðurinn er að selja þeim hverju sinni. Í gamla daga voru færri vörutegundir í boði og það var ekki um margt að velja í kjörbúðinni. Núna selja menn kjötlausa hamborgara og stærsti kjúklingastaðurinn hér á landi auglýsir „original ekki-kjúkling“ sem sé kominn til að vera. Þá vaknar svo sannarlega spurningin; hvaða mat er ég að borða?
Köllum vörurnar réttum nöfnum
Talsverð umræða hefur verið um skilgreiningar á þessum vöruflokkum hér á Íslandi en innan Evrópu er ekki síður rætt um gervikjöt, jurtaosta og rjómalíki. Það eru nýir tímar, neysluvenjur breytast hratt og tækninni fleygir fram. En oft þegar hraðinn er mikill er hætta á að menn fari fram úr sér. Gæti það ekki átt við um þá þróun sem við sjáum nú að matvörur sem sannarlega eiga uppruna sinn úr jurtaríkinu eru skilgreindar sem „kjöt“ eða „rjómi“?
Landbúnaðarnefnd Evrópuþingsins samþykkti með meirihluta þann 1. apríl 2019 tillögu um bann á notkun heita sem þegar eru notuð á kjöt- og mjólkurafurðir fyrir staðgengla hefðbundinna kjöt- og mjólkurafurða. Um þetta er fjallað í reglugerð nr. 1169/2011 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda sem gildir hér á landi. ESB er þannig að fylgja fordæmi Frakklands, sem þegar hefur samþykkt breytingu á löggjöf sinni sem felur í sér bann við að vörur sem eru að meginuppistöðu úr afurðum sem eru ekki úr dýraríkinu séu merktar á sama hátt og hefðbundnar kjötafurðir. Tillagan, sem felur í sér umfangsmikið bann, á eftir að fara fyrir þingið til samþykktar.
Sýnum gott fordæmi
Við könnumst við skilgreiningar á afurðum sem vísa til uppruna eða landsvæðis. Þar höfum við íslenskir framleiðendur ekki alltaf verið barnanna bestir. Fyrir skömmu fór framkvæmdastjórn ESB fram á það að íslensk stjórnvöld sæju til þess að MS hætti að nota heitið „feta“ í sinni ostaframleiðslu. Grikkland hafi einkarétt á því þar sem heitið vísi í grískan fetaost sem búinn er til úr þarlendum ám og geitum og ekki megi kalla sambærilega osta þessu nafni. MS brást fljótt við og hefur nú tilkynnt að hún muni gera breytingar á vörumerkjum umræddra vara og umbúðum til samræmis. Þannig verður notkun á orðunum „Feti“ og „Feta“ hætt, og þess í stað notast við orðin salatostur, veisluostur og ostakubbur. Af umhverfissjónarmiðum mun MS þó óska eftir því að nota eldri umbúðir eins og kostur er þar til þær klárast.
Upplýsandi merkingar skapa okkur sérstöðu
Allt þetta sem hér er rakið hvetur okkur til að skerpa á reglum og framfylgd þeirra um merkingu og skilgreiningu matvæla. Neytandinn þarf að hafa raunverulegt val og vita um uppruna og eðli þeirra afurða sem hann neytir. Merkingar eiga að vera vel sýnilegar, upplýsandi og ekki villa um fyrir kaupendum. Auðvitað ætti Ísland, sem matvælaland, að hafa metnað til þess að vera í fararbroddi í þessum efnum. Það er sjálfsögð upplýsingagjöf til neytenda og stuðlar að auknum gæðum og samkeppni milli framleiðenda, innlendra jafnt sem erlendra. Hagsmunir neytenda verða að vera í forgangi þannig að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir um vörukaup. Það er allra hagur að þessi atriði séu í lagi.