Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Að vera eða vera ekki ...
Af vettvangi Bændasamtakana 20. febrúar 2025

Að vera eða vera ekki ...

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

... jurtaostur er af illskiljanlegum ástæðum orðin áleitin spurning þessa dagana. Reyndar ekki í einu frægasta leikhúsverki listasögunnar heldur að því er virðist öllu heldur í leikhúsi fáránleikans. Ég viðurkenni að vangavelturnar eru mér framandi. Og ég vona að í þessum efnum og öðrum álíka mundu línur skýrast þannig að arftakar mínir í formennsku fyrir Bændasamtök Íslands þurfi ekki að verja drjúgum tíma í deilur af þessu tagi. Til þess er tími þeirra alltof dýrmætur. Það lítur hins vegar því miður út fyrir að ég geti ekki vikið mér undan því að taka slaginn enda þótt seinþreyttur sé til vandræða.

Trausti Hjálmarsson.

Fyrir samtök atvinnurekenda og skjólstæðinga þeirra virðist engu breyta að á öllum dómstigum íslenska réttarríkisins hafi verið úrskurðað að mjólk sé mjólk en ekki jurtir. Nú síðast kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp þann úrskurð sinn í þessari viku eftir að þráhyggju íslenskra heildsala hafði tekist að koma málatilbúnaði sínum aftur á byrjunarreit íslenska dómskerfisins.

Það lyktar af upplýsingaóreiðu og flokkast jafnvel undir falsfréttir þegar talað er um að bændur séu að vernda sérhagsmuni sína þegar þeir leggist gegn því að ostum sé nánast smyglað inn í landið fram hjá íslenskri tollalöggjöf. Það er að minnsta kosti auðvelt að styðja það rökum að framtíð íslenska landbúnaðarins snúist ekki um sérhagsmuni bænda heldur almannahag.

Vel kann að vera að fréttir af þessu tagi geti slegið ryki í augu einhverra á alþingi götunnar. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að blekkingarnar nái ekki inn í dómsalina né sali Alþingis Íslendinga. Þar þurfa menn að standa í lappirnar, þekkja rétt frá röngu og skilja hismið frá kjarnanum. Til þess eru þeir skipaðir og kjörnir.

Í mínum huga er einhver illskiljanleg íslensk minnimáttarkennd í því fólgin að samþykkja það að 85% mjólkurostur geti flokkast sem jurtaostur af þeirri ástæðu einni að um slíkt hafi tekist einhvers konar samningar innan Evrópusambandsins, við samningaborð sem við eigum reyndar ekki beina aðild að. Og það er líka einhver óskiljanleg minnimáttarkennd fólgin í afneitun þess að íslenskur landbúnaður sé svo agnarsmár í alþjóðlegri samkeppni sinni að hann þurfi að nýta hvert einasta tækifæri sitt til hagræðingar.

Við keppum nefnilega ekki bara við alls kyns innflutning á augljósum landbúnaðarvörum. Við keppum líka við gríðarlegt magn „falinna landbúnaðarvara“ í t.d. frosnum pitsum og öðrum tilbúnum réttum. Og svo keppir landbúnaðurinn við stöðugt fjölbreyttara framboð á alls kyns matvöru alls staðar að úr heiminum og um leið neyslumynstur heimilanna sem hefur tekið svo hröðum breytingum á undanförnum áratugum að líkja má við stökkbreytingar. Sú „nútímavæðing“ er að sjálfsögðu af hinu góða en hún má sín hins vegar lítils þegar komið er að áhyggjuefnum á borð við fæðuöryggi þjóðarinnar ef hún einangrast frá umheiminum af einhverjum ástæðum.

Kannski væri ákveðin „upplýsingaóreiða“ jafnvel betri en þögnin sem mér finnst ríkja um þetta mikilvæga mál. Það er eins og enginn nenni almennilega að tala um hvar við stöndum ef reyna mun á sjálfbærni þjóðarinnar til fæðuöflunar til lengri eða skemmri tíma. Engum getur samt dulist að við erum eyþjóð sem einungis getur reitt sig annars vegar á eigin framleiðslu matvæla og hins vegar sjóflutning aðfanga um langan veg.

Aðalatriðin verða nefnilega oft undir í umræðu líðandi stundar. Stóra myndin er auðvitað sú að íslenskur landbúnaður er þjóðinni lífsnauðsyn. Hún er líka sú að án eðlilegrar nýliðunar í bændastéttinni er starfinu sjálfhætt. Það vill enginn. Ekki heldur félagsmenn í Samtökum atvinnurekenda. Þeir þrífast nefnilega á því að íslenskt samfélag sé í jafnvægi og fólki líði vel með eðlilega afkomu sína og kaupgetu. Til þess þurfum við okkar öfluga sjávarútveg, landbúnað og ferðaiðnað, framleiðslu grænnar raforku og aðra sjálfbæra nýtingu náttúruauðlindanna sem okkur hefur verið treyst fyrir.

Þess vegna er holur tónn í umræðunni um hvort mjólkurostur geti orðið að jurtaosti svona eiginlega „aþþíbara“. Hann er það líka í umræðunni um íslensku „risana“ í afurðastöðvum landbúnaðarframleiðslunnar sem í raun eru svo dvergvaxnir að þeir ná ekki mælingu á alþjóðlegum mælistikum.

Enda þótt raddirnar séu ekki margar sem vilja ráðast að rótum íslensks landbúnaðar virðast þær eiga greiða leið að kastljósi fjölmiðla. Við því er erfitt að bregðast enda klingja upphrópanir oftast hærra en staðreyndir mála. Bændasamtök Íslands þurfa að sjálfsögðu að hafa styrk til þess að leggja orð í belg í allri þessari umræðu. Það munum við áfram gera á vönduðum og málefnalegum nótum. Samtímis leyfi ég mér að heita á íslensk stjórnvöld að láta ekki glepjast.

Landbúnaður er almannahagsmunir og það er undir þeim formerkjum sem við ætlum að sameinast um það að halda merkjum landbúnaðarins hátt á lofti. Bændasamtök Íslands, Samtök ungra bænda, Samtök smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli, Samtök afurðastöðva í mjólkurframleiðslu og Samtök fyrirtækja í landbúnaði boða til fundar á Hótel Hilton Nordica miðvikudaginn 26. febrúar frá kl.13–15:30. Þar verður án efa tæpt á fjölmörgum efnisþáttum sem eru raunverulegir og skipta vöxt og viðgang landbúnaðarins miklu máli.

Fram undan eru einnig afar spennandi fundir sem matvælaráðherra og Bændasamtökin hafa skipulagt víðs vegar um landið til þess að ráðherra geti kynnst af eigin raun þeim málum sem helst brenna á bændum um þessar mundir. Ég er viss um að þau beinu tengsl ráðherrans við íslenska bændur munu verða heilladrjúg í þeirri vinnu sem fram undan er við gerð nýrra búvörusamninga og um leið smíði nýrra undirstaðna fyrir íslenskan landbúnað til langrar framtíðar.

Tilhæfulaus fyrirgangur
Lesendarýni 27. mars 2025

Tilhæfulaus fyrirgangur

Að undanförnu hefur mikill fyrirgangur verið vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjór...

Vandi bænda í ESB
Lesendarýni 25. mars 2025

Vandi bænda í ESB

Landbúnaður í Evrópusambandinu stendur frammi fyrir miklum áskorunum sem ógna bæ...

Myglufaraldur í húsum
Lesendarýni 19. mars 2025

Myglufaraldur í húsum

Fréttir berast reglulega um myglu í húsum, jafnvel svo útbreidda, að rífa þurfi ...

Hvað er Gvendardagur?
Lesendarýni 14. mars 2025

Hvað er Gvendardagur?

Á liðnum árum og áratugum hafa slæðst inn í dagatal okkar dagar sem bera hin ýms...

Tækifæri í kolefnisjöfnun
Lesendarýni 13. mars 2025

Tækifæri í kolefnisjöfnun

Undanfarin ár hefur verið nokkur umræða um kolefnisjöfnun sem loftslagsaðgerð. B...

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar
Lesendarýni 13. mars 2025

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar

Á Íslandi eru nú plön um að reisa um 30 vindmyllugarða víðs vegar um landið í na...

Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?
Lesendarýni 12. mars 2025

Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?

Í þessari grein er fjallað um blöndun á eldislaxi við villtan lax sem gerist þeg...

Kýrlaus varla bjargast bær
Lesendarýni 12. mars 2025

Kýrlaus varla bjargast bær

Í síðasta Bændablaði birtu Baldur Helgi Benjamínsson og Jón Viðar Jónmundsson ág...