Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Framleiðsla eftir hverja kind hefur aukist um 20% á síðustu árum.
Framleiðsla eftir hverja kind hefur aukist um 20% á síðustu árum.
Mynd / Jón Eiríksson
Af vettvangi Bændasamtakana 14. nóvember 2024

Amma þín var sauðfjárbóndi

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður deildar sauðfjárbænda við BÍ

Ertu enn að hugsa? Allavega hefur einhver nákominn þér verið sauðfjárbóndi, átt kind eða tekið þátt í því fjölbreytta starfi sem tengist sauðfjárrækt. Atvinnugrein sem hefur átt talsvert undir högg að sækja síðustu ár en á ótrúlega margt inni.

Skv. mannfjöldaspá Hagstofunnar verða íbúar á Íslandi milli 550 og 600 þúsund eftir 30 ár. En hver á að gefa öllu þessu fólki að borða og hvaðan á maturinn að koma? Um allan heim er bændastéttin að eldast og nýliðun er mikilvæg forsenda þess að viðhalda fæðuöryggi og forsenda þess að til sé matur handa okkur öllum eftir 30 ár.

Vissir þú að framleiðsla eftir hverja kind hefur aukist um 20% á síðustu árum? Sá árangur er afrakstur af skilvirku fagstarfi greinarinnar þar sem undirstaðan er þátttaka bændanna sjálfra og áhugi þeirra á að ná árangri. Þarna eigum við talsverð tækifæri á komandi árum sem eru einnig mikilvægur þáttur í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, þ.e. að losun á hverja framleidda einingu fari minnkandi.

Fyrr í sumar var samþykkt landsáætlun um útrýmingu riðuveiki í sauðfé. Markmiðið er að riðuveiki verði útrýmt á Íslandi árið 2044 með því að rækta markvisst inn þolnar arfgerðir. Riðan er vágestur sem hefur í alltof langan tíma hvílt eins og mara yfir sauðfjárrækt á vissum svæðum landsins. Þarna gengur vel og bændur eru virkilega áhugasamir að taka þátt og líklega verða þolnar arfgerðir orðnar ráðandi í sauðfjárstofninum áður en árið 2044 rennur upp. Á komandi vetri verða nærri 90% hrúta á sæðingastöð með ýmist verndandi eða mögulega verndandi arfgerð.

Langar þig að skipta um starfsvettvang og flytja í sveit? Sauðfjárrækt er líklega sú grein landbúnaðar sem er hvað einfaldast að byrja og stunda með annarri vinnu. Vissulega eru sumir vinnudagar lengri en aðrir og það felst ákveðin binding í því að halda skepnur en á móti koma margar ánægjustundir. Ánægjustundir sem margir borga háar fjárhæðir fyrir til að upplifa á öðrum vettvangi. Í sauðfjárræktinni er líka mikill fjársjóður fólginn í hinu fjölbreytta félagsstarfi sem fylgir atvinnugreininni og það er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann tekur þátt. Í löndunum í kringum okkur er sauðfjárrækt vinsæl hjá þeim sem kjósa að halda fátt fé og stunda aðra vinnu samhliða og slíkt er styrkleikamerki fyrir greinina til framtíðar.

Á næstu árum tekur Landbúnaðarháskóli Íslands þátt í spennandi samevrópsku verkefni um stafræna nýsköpun og gagnatækni fyrir búfjárrækt sem byggir á úthagabeit. Það verður fróðlegt að fylgjast með afrakstrinum af því verkefni. Mögulega finnum við þarna lausnir sem geta einfaldað vinnu á svæðum þar sem byggð er orðin brothætt í dag. Ekki síður en við getum eflaust einhverju miðlað til annarra landa af því sem við erum að gera. En nýrri tækni fylgja oft áskoranir og þá þurfum við að hafa aðlögunarhæfni til að tileinka okkur nýja tækni.

Þegar flutt er í sveit skiptir líka máli að taka þátt í því samfélagi sem er fyrir – það er ótal margt jákvætt sem samfélag sveitanna hefur upp á að bjóða og þess vegna bjóðum við alla sem vilja taka þátt í okkar menningu og hefðum velkomna til liðs við okkur.

Það vantar fleiri bændur til að framleiða mat fyrir alla þá munna sem þarf að metta eftir 30 ár. Þú munt ekki sjá á eftir því að flytja í sveit og gerast sauðfjárbóndi því sauðfjárrækt er partur af nútíðinni sem og framtíðinni.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...