Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Mynd / Úr safni Bændablaðsins
Mynd / Úr safni Bændablaðsins
Mynd / Úr safni Bændablaðsins
Af vettvangi Bændasamtakana 14. desember 2023

Er ég ekki bóndi?

Höfundur: Ingvi Stefánsson, formaður búgreinadeildar svínabænda.

Þessi orð rifjuðust upp fyrir mér þegar ég las greinargerð hóps ráðuneytisstjóra um fjárhagsvanda landbúnaðar.

Ingvi Stefánsson.

Aðdragandinn er sá að árið 2016 strunsaði ég af Búnaðarþingi eftir að hafa flutt mína ræðu og m.a. spurt þingsal „Er ég ekki bóndi?“

Í þeirri ræðu gagnrýndi ég harðlega þau hrossakaup sem þáverandi forysta BÍ gerði í aðdraganda búvörusamninga 2016. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur má nálgast þá ræðu á bbl. is undir fyrirsögninni „Fulltrúi svínabænda gekk út af fundi Búnaðarþings.“ Fyrir þá sem ekki hafa tíma til að lesa ræðuna kemur m.a. fram í henni að þáverandi forysta BÍ gaf eftir tollasamning við ESB til að fá 10 ára búvörusaming.

En aftur að greinargerð starfshópsins. Mér dettur helst í hug orðið rörsýn þegar ég er búinn að kynna mér innihaldið. Hvernig hægt er að fjalla um stöðu íslensks landbúnaðar út frá svona þröngu sjónarhorni er mér algjörlega óskiljanlegt. Það er nú einu sinni þannig að hvíti geirinn (kjúklingur og svín) er með um 57% markaðshlutdeild á seldu kjöti innanlands síðustu 12 mánuði skv. mælaborði landbúnaðarins. Hvað með eggjabændur? Orðið egg kemur einu sinni fyrir í skýrslunni sem telur þó alls 5.124 orð. Hver er svo niðurstaðan, jú, enn einn plásturinn á opið beinbrot. Það er þó vissulega tilefni til að gleðjast yfir því að stjórnvöld og skýrsluhöfundar virðast vera að gera sér grein fyrir að núverandi umgjörð um starfsskilyrði landbúnaðarins gengur hreinlega ekki upp og nauðsynlegt er að ráðast í kerfisbreytingar.

Ég veit að maður á ekki að vera neikvæður, sérstaklega ekki á aðventunni sem er tími ljóss og friðar. Ég spyr mig samt oft að því hversu illa þarf að vera komið fyrir íslenskum landbúnaði til að ráðist verði að rót vandans? Vissulega kemur margt til sem hefur skert afkomu bænda síðustu misserin eins og hækkandi vaxtastig, miklar fjárfestingar vegna bætts aðbúnaðar, heimsfaraldur, stríðsrekstur í Úkraínu o.s.frv. Stóra kýlið sem enginn virðist samt þora að stinga á er tollverndin og hvernig hún hefur verið að þróast. Samningar sem voru gerðir við ESB 2007 og 2015 (tók gildi 2018) ásamt því að magntollar hafi verið festir í sömu krónutölu allt frá árinu 1995 hafa orðið til þess að tollverndin virkar í besta falli mjög illa og er stöðugt að rýrna að verðgildi. Hvaða afleiðingar hefur þetta haft í för með sér síðasta áratuginn eða svo? Jú, innflutningur á kjöti var nánast enginn fyrir 12-13 árum en nú er innflutt svína-, kjúklinga- og nautakjöt komið með um fjórðungs markaðshlutdeild innanlands.

Til að bregðast við harðnandi samkeppni við innflutning hefur búum fækkað og einingar stækkað. Þar með erum við í hvíta geiranum að mati sjálfskipaðra sérfræðinga ekki bændur lengur heldur verksmiðjuframleiðendur. Því finnst sumum í lagi að tollverndin haldi áfram að þróast eins og verið hefur síðustu misserin. Hverjar eru svo afleiðingarnar? Enn frekari fækkun búa og neytendur velja meira af innfluttu kjöti sem aftur minnkar eftirspurn á ÖLLU innlendu kjöti. Allt er þetta gert í þágu neytenda til að auka „frelsi“ á markaði. Er mögulegt að frelsið verði svo mikið að innlenda framleiðslan hopi alfarið fyrir innfluttu kjöti? Hverju myndi sú staða skila í pyngju neytenda til lengri tíma litið?

Ég ætla að lokum að gera tilraun til að lýsa íslensku landbúnaðarkerfi í fáum setningum eins og ég upplifi það. Stjórnvöld vilja styðja við „hefðbundinn“ landbúnað – lesist ær og kýr–en er nokk sama um hvíta geirann. Þannig eru gerðir búvörusamningar sem ganga út á að styrkja „hefðbundnu“ greinarnar. Á sama tíma er slakað á tollverndinni af því hvíti geirinn má missa sín. Við hagræðum í hvíta geiranum til að bregðast við aukinni samkeppni. Neytendur velja innflutt kjöt í síauknum mæli sem bitnar á ÖLLUM bændum, líka sauðfjár- og kúabændum. Til að redda bráðavandanum eru skipaðar nefndir og í framhaldinu greiddar sprettgreiðslur og annað slíkt með nokkuð reglulegu millibili.

Er ekki orðið tímabært að ráðast að rót vandans?

Fyrir ykkur sem starfið fyrir hönd bænda við endurskoðun á búvörusamningum. Ekki láta segja ykkur hvað má fjalla um og hvað má EKKI fjalla um. Búvörusamningar án skýrrar stefnu og framtíðarsýnar í tollvernd eru álíka nytsamlegir og salerni án skeinipappírs.

Góðar stundir.

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...