Landbúnaður á krossgötum
Dagur landbúnaðarins var haldinn nú öðru sinni, dagana 13. og 14. október sl., í samstarfi við Samtök fyrirtækja í landbúnaði og Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Á föstudeginum var blásið til málþings í Hofi á Akureyri undir yfirskriftinni Landbúnaður á krossgötum, þar sem farið var yfir tækifæri og áskoranir í landbúnaði. Á laugardeginum héldu skógarbændur málþing og bændur í Eyjafirði og á Suðurlandi buðu heim á hlað og kynntu gestum og gangandi starfsemi sína. Málþingin voru afar vel sótt og vil ég þakka öllum sem gáfu sér tíma frá bústörfunum og mættu á staðinn og eins þeim sem fylgdust með í beinu streymi á Facebook síðu Bændasamtakanna. Sérstakar þakkir fara til þeirra sem skipulögðu málþingið, héldu erindi og til bændanna á Þórustöðum og Sölvastöðum í Eyjafjarðarsveit, á Garðshorni og Syðri-Bægisá í Hörgársveit og á Vesturholti í Þykkvabæ og Espiflöt í Reykholti. Það er í mínum huga eftir þessa reynslu að við munum festa þennan viðburð í sessi í samstarfi við bændur og hagaðila í landbúnaði.
Á málþinginu í Hofi kom ítrekað fram, bæði í kynningu starfsmanns BÍ og hjá þátttakendum í pallborðsumræðum, um mikilvægi þess að merkja íslenska framleiðslu þannig að neytendur hafi skýrt val um hvað er innlend framleiðsla og hvað eru innfluttar afurðir. Þess vegna hafa Bændasamtökin talað fyrir því að tekið verði í notkun upprunamerkið Íslenskt staðfest, sem staðfest er í úttekt af vottunarstofu og er ætlað að tryggja neytendum skýlausan rétt á upplýsingum um uppruna og innihald matvæla. Á Norðurlöndunum hefur landbúnaðarframleiðsla rækilega náð að festa sig í undirmeðvitund frændþjóða okkar. Í Svíþjóð hefur verið notast við upprunamerkið Från Sverige í yfir tuttugu ár, sem notuð er á nánast alla matvöru sem búin er til úr sænskum hráefnum. Þannig er það greypt í vitund sænskra neytenda að með því að velja sænska framleiðslu eru þeir ekki eingöngu að leitast eftir vörum frá sænskum bændum heldur einnig heilnæmum og öruggum mat. Hljómar kunnuglega? Í Noregi nota framleiðendur matvæla þar upprunamerkið Nyt Norge sem á það sammerkt með sænska upprunamerkinu að vera vel greypt í undirmeðvitund og kauphegðun norskra neytenda og það sem er merkilegt við norska upprunamerkið er að verslunin í Noregi hefur alfarið tekið það upp á sína arma, enda hefur neysla á kjöti og osti sem framleitt er í Noregi nærri því tvöfaldast frá því verslunin tók upprunamerkið í sínar hendur. Það væri virkilega til eftirbreytni og öllum neytendum til mikilla hagsbóta ef meðvitund og áhugi forsvarsmanna fyrirtækja í landbúnaði og verslunarinnar til að taka upp Íslenskt staðfest væri meiri. Því neytendur eiga ekki að þurfa að sætta sig við hvað sem er og verða að geta treyst því að uppruni þess sem þeir kaupa sé staðfestur. Það styrkir okkur í þessu verkefni að ákallið er frá neytendum enda eru íslenskar landbúnaðarvörur í beinni samkeppni við innfluttar vörur.
Á málþinginu var einnig rætt mikið um afkomu bænda og starfsskilyrði landbúnaðarins. Staðan er grafalvarleg og framleiðslan er að dragast saman í þessum rituðu orðum. Þetta er olíuskip sem verður afar erfitt að snúa því þeir fáu bændur sem eftir verða munu ekki svo glatt auka við framleiðsluna sína um það sem markaðurinn kallar eftir. Stjórn Bændasamtakanna hefur því óskað eftir neyðarfundi með ráðherrum fjármála annars vegar og matvæla hins vegar til að fara yfir mögulega aðkomu ríkisins og kalla eftir afstöðu þeirra til að bregðast við alvarlegri stöðu frumframleiðenda vegna versnandi stöðu í rekstrarumhverfi bænda. Það er sama hvar við berum niður í frumframleiðslunni, og þar eru ungir bændur ekki undanskildir þar sem vandi þeirra er gríðarlegur. Ef við stöndum ekki vörð um frumframleiðsluna þá er okkur vandi á höndum, þar sem við endurreisum ekki landbúnað frá grunni ef við glötum niður framleiðslunni á þessum örlagatímum hárra vaxta og hækkana á aðfangakeðjunni til framleiðslunnar. Lögum samkvæmt skulu bændur njóta sambærilegra kjara og aðrar stéttir. Hvað ætla stjórnvöld að gera í því?