Starfsskilyrði kornræktar
Með nýlegri skýrslu matvælaráðherra um aukna innlenda kornrækt sem bar yfirskriftina Bleikir akrar er boðuð stóraukin innlend kornrækt.
Slíkt er enda forsenda bæði sjálfbærni og fæðuöryggis þjóðarinnar. Mikill áhugi er meðal bænda fyrir þessu verkefni enda kveður við nokkuð annan tón í skýrslunni en áður hefur heyrst varðandi möguleika í kornrækt á Íslandi. Hafa verður þó í huga að í skýrslunni eru líka ýmsir fyrirvarar settir og athygli vakin á því hvað þarf að gera og hvað þarf að vera til staðar til að ná árangri.
Rannsóknir og þróun
Kynbætur á yrkjum og fjölbreyttari yrki til að geta ræktað verðmætustu korntegundir hverju sinni eru ein af grunnforsendunum. Í þeirri vinnu þarf að horfa til ýmissa eiginleika svo sem afurðasemi plantnanna, styttri vaxtartíma og styrkleika gagnvart veðurálagi. Fyrirsjáanlega er um að ræða vinnu sem getur fyrst farið að skila árangri eftir um 5 ár, og líklega ekki verulegum ávinningi fyrr en eftir 15-20 ár miðað við fullfjármögnuð verkefni. Samhliða þessari vinnu þarf að ráðast í langtíma jarðvegsrannsóknir og tilraunir með yrkin til að geta hámarkað nýtingu næringarefna, en slíkt er einnig ein af grunnforsendum þess að kornrækt geti verið arðbær.
Tryggingavernd
Eins og staðan er í dag er engin tryggingavernd í boði fyrir kornrækt en slík vernd er forsenda fyrir kornrækt í þeim mæli sem boðuð er í skýrslunni. Bændasamtökin hafa átt samtöl við tryggingafélögin um þetta gat sem er á tryggingamarkaði en eins og gefur að skilja er lítil þekking enn sem komið er hjá félögunum á þessum málaflokki. Samtökin hafa hvatt tryggingafélögin til að fá upplýsingar hjá samstarfsfélögum til dæmis í Skotlandi eða Noregi þar sem aðstæður eru einna líkastar Íslandi.
Fyrstu viðbrögð tryggingafélaganna hafa þó verið í þá átt að ólíklegt sé að hægt verði að bjóða tryggingavernd fyrir kornrækt á Íslandi án aðkomu eða baktryggingar frá íslenska ríkinu vegna umfangsmeiri tjóna. Slíkt fyrirkomulag þekkist nokkuð víða en sem dæmi má nefna þá niðurgreiðir bandaríska ríkið tryggingar í kornrækt um allt að 90%.
Afurðaverð í kornrækt, það er kornverð, flöktir verulega og langt umfram það sem teldist hefðbundið í landbúnaði sem byggir á búfjárhaldi. Afkomuvernd, með vísan til fæðuöryggis og sjálfbærni, með aðkomu ríkisins er því einnig nauðsynleg grunnforsenda eigi kornrækt að vera stunduð í þeim mæli á Íslandi sem boðað er í skýrslunni.
Í þeirri afkomuvernd þarf þannig til að mynda að vera tryggt að bændur geti selt afurðir sínar á fyrirfram ákveðnu lágmarksverði sem nær hið minnsta kostnaðarverði framleiðslunnar. Horfa mætti til Noregs sem fordæmi um slíkt kerfi afkomuverndar.
Kornrækt er nákvæmnisgrein
Í allri umræðu um aukna kornrækt þarf að halda því til haga að um er að ræða nákvæmnisgrein sem kallar á mikla þekkingu hjá bændum, landbúnaðarskólum, ráðunautum, birgjum og vinnsluaðilum til að hægt sé að ná árangri. Þetta helgast af því að arðsemi næst eingöngu með mjög nákvæmri nýtingu á næringarefnum, varnarefnum sem og allri meðhöndlun.
Meðhöndlun er jafnframt enn mikilvægari þegar kornrækt er hugsuð til manneldis, sér í lagi til að korn geti flokkast í 1. flokk. Þá eru síauknar kröfur þegar kemur að korni til manneldis um hreinleika uppskerunnar, það er að hún sé ekki menguð af öðrum korntegundum eða öðrum aðskotategundum. Slíkt kallar á aukna notkun kemískra efna sem jafnframt getur kallað á skiptiræktun þar sem yfirfærsla slíkra efna er áhrifaþáttur í kornræktun.
Kornrækt og loftslagsmál
Fleira getur hangið á spýtunni varðandi kornrækt, en uppi eru vangaveltur um að kornrækt, hið minnsta í rýru landi,
bindi verulegt magn kolefnis. Sé það raunin mætti bæði nýta rýrt land og á sama tíma skrifa fleiri grænar tölur í loftslagsbókhald landbúnaðarins.
Slíkt þarf þó að rannsaka betur auk þess sem engin vissa er um notkun þessa lands til landbúnaðarnota eins og skipulagsmálum er háttað. Þegar talað er um að Ísland verði að sýna ábyrgð í loftslagsmálum þá er eðlilegt að horfa til þess að nýta land á skynsamlegan hátt til landbúnaðarnota enda einungis um 100.000 af 600.000 hekturum ræktanlegs lands á Íslandi í notkun í dag.
Sporin hræða
Eins og gefur að skilja eru það núverandi bændur sem eru í bestri aðstöðu til að byggja upp kornrækt og þróa samhliða núverandi rekstri. Margir bændur hafa nú þegar náð góðum árangri í kornrækt en margir hafa einnig lent í miklum áföllum í tilraunum með kornrækt með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni. Kornrækt þarf því að byggjast upp á réttum forsendum og við eðlileg starfsskilyrði. Þar telur einna mest full tryggingavernd og afkomuvernd.
Þá þurfa eins og áður segir rannsóknir að vera fullfjármagnaðar með langtíma sjónarmið að leiðar- ljósi, samhliða því að þekkingin er byggð upp hjá öllum sem koma að ferlinu. Uppbyggingin er þannig langhlaup sem hefja þarf að vel athugðu máli.