Þingmannagæla
Í upphafi þessa leiðara vil ég nota tækifærið og óska íslenskum hestamönnum til hamingju með stórgóðan árangur á liðnu Heimsmeistaramóti sem haldið var í Hollandi í upphafi mánaðar.
Heimsmeistaramótið er einn stærsti vettvangur íslenska hestsins þar sem nítján þjóðir taka þátt, en íslenski hesturinn er eitt hreinræktaðasta hrossakyn heims og stolt okkar þjóðar.
Má þess geta hér að útflutningsverðmæti íslenska hestsins var um 1,6 milljarðar króna árið 2022. Íslenski hesturinn og afurðir hans eru á heimsmælikvarða en knaparnir okkar eru þar engin undantekning, og öll náðu þau í úrslit á Heimsmeistaramótinu.
Börn og aðrir minna þroskaðir menn fóru að gramsa í mínum einkamálum
Þegar þessi leiðari er ritaður er hafin árleg hringferð stjórnar og starfsfólks Bændasamtakanna. Fundirnir hafa verið vel sóttir og í ár verður fundað með bændum um starfsemi samtakanna, málefni sveitanna og komandi tíð. Það sem einna helst hefur brunnið á bændum eru starfsskilyrði atvinnugreinarinnar og endurskoðun búvörusamninga.
Stjórnvöld eiga að skapa bændum fjárhagslegt og stjórnsýslulegt svigrúm til að nýta tækifærin í landbúnaði, en eftir sem áður er endalaust þrengt að bændum þessa lands og fyrirtækjum sem starfa í greininni.
Síðasta árið hafa komið mýmörg mál frá Alþingi eða hinum ýmsum stofnunum um auknar kröfur, auknar álögur og aukið flækjustig. Minna hefur hins vegar verið um einföldun regluverks, raunverulegar aðgerðir og greiningu á starfsskilyrðum og stöðu íslensks landbúnaðar á þessum óvissutímum þar sem hækkanir síðasta árs hafa ekki gengið til baka nema að mjög litlu leyti.
„Er nokkuð skárra að lifa úti á landi eða er lömunin betri hér? Er það praktískt að sjúga mjólk úr sandi, er hægt að synda í frjósandi hver?“ sagði í Þingmannagælu Bubba Morthens. Á sama tíma og framlög samkvæmt búvörusamningnum hafa dregist saman að raunvirði hafa verið boðaðar auknar álögur á íslenskan landbúnað sem samanlagt ná hið minnsta 1.000 milljónum króna á ársgrundvelli.
Telur þar einna mest auknar álögur með breytingum á gjaldskrá MAST sem metnar hafa verið á 500 milljónir á ársgrundvelli, hið minnsta. Þetta þykir okkur hjá Bændasamtökunum afar sérstakt, sér í lagi í ljósi þess að fullkomið ósamræmi var í greinargerð með þingskjalinu og síðan í greinargerð með drögum að gjaldskrá MAST sem fór í samráðsgátt stjórnvalda.
Þannig gerði greinargerðin í þingskjalinu ráð fyrir að lögbundnar rekstrartekjur MAST myndu hækka um 300–400 milljónir króna frá því sem var, á meðan að í greinargerð með drögum að nýrri gjaldskrá kom fram að upphæðin myndi nema rúmlega 482 milljónum króna. Felst hækkunin m.a. í því að gjald fyrir daglegt eftirlit í sláturhúsum mun hækka úr 131 millj. kr. í 348 millj. kr., eða um 166% á sama tíma og sláturhúsum er meinað að ná fram nauðsynlegri hagræðingu.
Þingmaður og svarið er: Ne, e, e, ei, ne, ei.
Til upprifjunar má nefna að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að við endurskoðun búvörusamninga verði lögð áhersla á að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu.
Samkvæmt markmiðum búvörulaga skal innlend framleiðsla vera í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar á hverjum tíma og að kjör bænda séu í takti við kjör annarra stétta.
Eftir sem áður hafa skilaboðin verið þau að ekkert nýtt fjármagn verði sett í búvörusamninga til þess að bændur geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt búvöru- lögum, þ.e. að framleiða landbúnaðar- afurðir. Bændasamtökin kynntu fyrir atvinnuvega- og fjárlaganefnd þingsins að flestar búgreinar standa frammi fyrir miklum áskorunum í sínum rekstri. staðan er ekkert frábrugðin því sem var árið 2022, þar sem hækkanir á aðföngum hafa ekki gengið til baka.
Þar að auki hefur fjármagns- og launakostnaður hækkað verulega milli ára. Bændasamtökin gera ráð fyrir því að það vanti um 9.400–12.200 milljónir króna til að landbúnaðurinn geti staðið undir rekstrarlegum skuldbindingum og eðlilegri launagreiðslugetu árið 2023.
Þá má nefna að í dag stöndum við frammi fyrir áskorun um hvernig við látum nýliðun í íslenskum landbúnaði raungerast. Talsvert vantar upp á hagstæð lánakjör til íslensks landbúnaðar þar sem fjármagnskostnaður er verulega íþyngjandi þáttur. Við þurfum á nýliðun og framþróun að halda í greininni.
Umhverfið þarf því að vera aðlaðandi fyrir okkar unga fólk sem brennur fyrir verkefnið. Ef þú gefur ungu fólki ekki fyrirheit um framtíðina, landið og virði þess að stunda þessa grein, þá mun það ekki taka þá ákvörðun að gera landbúnaðarstörf að framtíðarstarfi, og þá er illa komið fyrir okkur sem þjóð.
Íslenskur landbúnaður er beinlínis þjóðhagslega mikilvægt verk og þingmaðurinn getur því ekki sagt „Nei, e, e, ei, ne, ei.“