Varnir og viðbúnaður
Við sem þjóð höfum lifað ansi undarlega tíma á undanförnum árum. Allt almannavarna og forvarnarstarf með tilheyrandi æfingum er því nauðsynlegur hluti af okkar samfélagi, og því þarf að sinna í vaxandi mæli frá því sem nú er. Það hafa dæmin sýnt.
Eftir sem áður verður mönnum ætíð að vera ljóst að ekki verður séð við öllu og því mun hið óvænta ávallt koma upp þegar síst skyldi. Seint að kvöldi síðastliðins föstudag hafði Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekið ákvörðun, í samráði við Almannavarnir, að rýma Grindavíkurbæ og Almannavarnir lýstu samhliða yfir neyðarstigi. Íbúum var þarna á örskammri stundu gert skylt að rýma híbýli sín og yfirgefa bæinn og samfélagið allt tók á móti þeim og var reiðubúið að veita hjálparhönd. Bændasamtökin hafa átt í góðu samstarfi við Almannavarnir, nærliggjandi sveitarfélög og félagsmenn vegna dýra í þeirra umsjá sem hefur þurft að flytja og koma í öruggt skjól. Við viljum þakka Almannavörnum fyrir þeirra aðkomu að þessum verkefnum sem flest hafa fengið farsæla lausn og unnið er áfram að öðrum með tilliti til áhættumats á svæðinu.
Hugur okkar er með Grindvíkingum og viðbragðsaðilum okkar sem standa vaktina, og er þar enginn undanskilinn, hvort sem um ræðir sjálfboðaliða eða fólk sem starfar á þeim vettvangi.
Hinn 8. nóvember síðastliðinn sótti ég aðalfund dönsku bændasamtakanna, nærri 600 manna samkomu bænda hvaðanæva af í Danmörku. Það sem vakti sérstaka athygli mína var bágt hlutfall kvenna á fundinum en þær voru innan við 2% fundarmanna. Til samanburðar voru konur 43% búnaðarþingsfulltrúa á síðasta Búnaðarþingi Bændasamtakanna sem fór fram á vordögum. Betur má ef duga skal og við þurfum að halda áfram að tryggja það að konur verði sýnilegri innan atvinnugreinarinnar og út á við, fyrir hönd atvinnugreinarinnar. Við það má síðan bæta að á aðalfundi dönsku bændasamtakanna mættu fimm ráðherrar úr þeirra ríkisstjórn og fjöldinn allur af þingmönnum.
Málefnin sem frændur okkar Danir eru að burðast einna helst með þessa dagana og komu fram á fundinum, eru ansi keimlík þeim málefnum sem við erum að kljást við í íslenskum landbúnaði. Þar fór hæst útfærsla á væntanlegum kolefnisskatti á landbúnaðarafurðir, en teikn eru á lofti um útfærslur á þeirri skattlagningu á Folketinget næsta vor. Þá var mikið rætt um einföldun regluverks og blýhúðun á innleiðingu tilskipana frá Evrópusambandinu, sem er athyglisvert þar sem Danir eru jú aðilar að Evrópusambandinu. Og líkt og íslenskir bændur hafa kollegar þeirra í Danmörku miklar áhyggjur af ásókn í landbúnaðarjarðir, þar sem ekki stendur til að hefja, eða viðhalda landbúnaðarframleiðslu, heldur sem á að nýta undir sólarsellur, vindmyllur og skógrækt. Danir standa því andspænis sveitarfélögum, líkt og við, sem ekki hafa flokkað land samkvæmt skipulagi þrátt fyrir að verkefnið sé aðkallandi og þjóðhagslega mikilvægt fyrir fæðusjálfstæði þjóðar. Þá var mikið rætt um nýliðun í greininni án þess að fundarmenn höfðu fram að færa einhverjar lausnir í þeim efnum en líkt og hérlendis lýstu fundarmenn yfir miklum áhyggjum af framtíð landbúnaðarins.
Í lok þessa leiðara, vil ég, sem fyrrum björgunarsveitarmaður, nefna mikilvægi þess að hvert og eitt okkar undirbúum viðbragð heimilisins ef hætta steðjar að og hvaða úrræði eru til staðar og hvað skuli gera til að vera viðbúin. Því þrátt fyrir að neyðarstig Almannavarna sé afmarkað við ákveðinn hluta landsins, þá munum við öll sem eitt þurfa að leggja okkar af mörkum ef hætta steðjar að. Gefum okkur því tíma til þess að athuga hvernig við getum undirbúið okkur, heimili og atvinnurekstur til að takast á við áföll. Einnig þurfum við sem bændur, að huga að sérráðstöfunum fyrir búfénað og rafmagnsleysi.