Vaxtaverkir
Undanfarna mánuði hafa stýrivextir hækkað umtalsvert samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands.
Þetta hefur raungerst undanfarna mánuði og er staðan sú að stýrivextir standa í 9,25% sem gerir það að verkum að það er nánast ómögulegt að stunda allan almennan atvinnurekstur í slíku umhverfi.
Landbúnaður er þar undir og bændur eiga ekki kristalskúlu frekar en áður og þurfa því að reiða sig á að allar ákvarðanir gangi upp til skemmri og lengri tíma. Í sömu andrá eru það skilaboðin að þrátt fyrir að svo árar, megi fyrir enga muni velta slíkum hækkunum út í verðlagið þar sem það geti haft verðbólguaukandi áhrif. Hvernig má það vera að hægt sé að ætlast til þess að frumframleiðslugreinarnar taki á sig höggið af þessum hækkunum án þess möguleika að verðleggja afurðirnar í samræmi við framleiðslukostnað og hvort sem um er að ræða vexti eða annan aðfangakostnað? Þetta eru „vaxtaverkir“ í mínum huga og leiðir af sér að frumframleiðsla á landbúnaðarvörum mun dragast enn frekar saman. Þurfum við að finna upp á nýju hagstjórnartæki sem gefur ekki af sér þessi höfrungahlaup til framtíðar, því eitt leiðir af öðru og allir tapa.
Í síðustu viku var haldin ráðstefna á Selfossi í tilefni tíu ára afmælis Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins með fjölmörgum áhugaverðum fyrirlestrum á mjög breiðum grunni; allt frá gervigreind til frásagna nýliða í landbúnaði. Á þessum tímamótum vil ég koma á framfæri þökkum til starfsfólks fyrirtækisins, fyrir frábært og faglegt innlegg í umræðu um landbúnað um þau tækifæri sem við eigum í greininni.
Einnig vil ég af þessu tilefni óska starfsfólki og stjórn fyrirtækisins til hamingju í tilefni afmælisins, megi áframhaldandi metnaður sem einkennir starf Ráðgjafarmiðstöðvarinnar vera bændum og atvinnugreininni til hagsbóta. Það er mjög mikilvægt að staðið verði vörð um starfsemina sem er allri framþróun í frumframleiðslunni mikilvæg. Þá ekki einungis í framleiðslulegu tilliti heldur líka í þeim verkefnum til að draga úr loftslagslegum áhrifum landbúnaðarins til framtíðar og þar skipta framlög sem stafa frá hinu opinbera miklu, þar sem þeim er ætlað að standa undir ráðgjöf og leiðbeiningarþjónustu íslensks landbúnaðar.
Á dögunum birtist frétt á RÚV um að vísbendingar væru um að andleg vanlíðan meðal bænda hefði aukist síðustu misseri en rannsókn stendur nú yfir á geðheilbrigði bænda á Íslandi.
Fjórtán ár eru liðin frá því samsvarandi könnun var gerð og áttu Bændasamtökin frumkvæði að rannsókninni en Rannsókna- miðstöð Háskólans á Akureyri sér um fram- kvæmd hennar.
Ég hvet alla félagsmenn Bændasamtakanna að taka þátt. Að því sögðu, þá skulum við í aðdraganda aðventunnar hugsa vel um hvert annað og sinna nágrannavaktinni þannig að allir njóti, og horfa björt fram á veginn.