Vinnu lokið við nýjan verðlagsgrundvöll
Bændur hafa lengi kallað eftir uppfærslu á verðlagsgrundvelli mjólkur, en sá grundvöllur sem hefur verið til viðmiðunar er frá árinu 2001.
Allt aftur til ársins 2008 má finna í fundargerðum verðlagsnefndar að brýnt sé að uppfæra grundvöllinn og ítrekað hafa bændur og einnig fulltrúar vinnumarkaðarins kallað eftir nýjum grundvelli til að vinna með.
Tímalína verkefnisins
Í nóvember 2022 var loks samþykkt í verðlagsnefnd búvara að ráðast í endurskoðun á grundvellinum. Gerðist það í kjölfar þess að ný verðlagsnefnd hafði verið skipuð í ágúst það ár, með nýjum formanni, auk þess sem ASÍ og BSRB skipuðu loks fulltrúa í nefndina.
Aðeins annar hljómur var í nýrri nefnd miðað við þá sem var á undan. Allir voru sammála um mikilvægi þess að ráðast í endurskoðun á gamla grundvellinum og í framhaldinu var unnin kostnaðaráætlun sem lögð var fyrir þáverandi matvælaráðherra. Fjárveiting í verkefnið fékkst og vinnan gat farið af stað.
Í mars 2023 funduðu formaður verðlagsnefndar, fulltrúar matvælaráðuneytis og Hagstofu Íslands um verkefnið. Ráðuneytið gerði kröfu um að fá óháðan aðila í verkið og í apríl 2023 var samþykkt að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands myndi sjá um endurskoðunina. Óskað var þó eftir því að verðlagsnefndinni yrði haldið upplýstri um framvindu málsins.
Í lok árs var staða endurskoðunar kynnt fyrir verðlagsnefnd. Vinnan var stutt á veg komin, verið var að safna gögnum.
Í mars 2024 kynnti Hagfræðistofnun HÍ stöðuna á verkefninu og gafst fulltrúum nefndarinnar tækifæri til að leggja fram athugasemdir, sem Bændasamtökin gerðu. Mánuði seinna fundaði nefndin aftur og fór yfir ýmsar forsendur grundvallarins. Í framhaldinu skilaði Hagfræðistofnun HÍ af sér verkefninu.
Vinnunni var þó ekki lokið þar sem ákveðnir liðir, þá einkum launaliður og fjármagnsliðir, voru ekki nægilega lýsandi fyrir hið nýja verðlagsbú. Vann því nefndin grunninn áfram sjálf og var ný útgáfa birt í byrjun október. Í kjölfarið af því var nýr verðlagsgrundvöllur staðfestur af verðlagsnefnd þann
29. október, sl.
Forsendur og niðurstöður
Í Búvörulögum frá 1993 eru markmið verðlagsgrundvallar mjólkur skilgreind með eftirfarandi hætti: „Ákvörðun um lágmarksverð mjólkur skal byggjast á gerð verðlagsgrundvallar fyrir bú af hagkvæmri stærð, með framleiðsluaðstöðu þar sem tekið er mið af opinberum heilbrigðis- og aðbúnaðarkröfum og hagkvæmum framleiðsluháttum. Áætlað vinnuframlag skili endurgjaldi hliðstæðu og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni.“
Stærð viðmiðunarbús var ein af fyrstu þurfti að ákveða. Lagt var til að viðmiðunarbúið yrði með einn mjaltaþjón og samdi Hagfræðistofnun HÍ við RML að taka saman upplýsingar um bú af þeirri stærð. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var ekki ófrábrugðin meðaltalstölum rekstrarverkefnis RML fyrir árið 2022 og var því ákveðið að styðjast við þær tölur. Stærð nýs viðmiðunarbús var því ákveðið; 61 árskýr og 377.991 lítra ársframleiðsla. Eldra bú miðaði við 40 árskýr og 188.000 lítra framleiðslu.
Niðurstöðutölur í hinum nýja verðlagsgrundvelli byggja allar á rekstrargreiningarverkefni RML að undanskildum launalið og fjárbindingu. Við mat á launalið lagði Hagfræðistofnun HÍ til að stuðst yrði við launaflokk 1222 „Yfirmenn framleiðslu- og rekstradeilda í iðnaði“ (20%) og launaflokk 7 „Störf iðnaðarmanna og sérhæfðs iðnverkafólks“ (80%). Verðlagsnefnd ákvað að miðað yrði við 2,4 ársverk á viðmiðunarbúinu en til grundvallar ákvörðuninni var stuðst við norsk og evrópsk gögn um vinnuframlag.
Verðlagsnefnd taldi að fjárbindinguna þyrfti að skoða betur og lagðist í töluverða vinnu til að meta hana. Aflað var gagna hjá söluaðilum tækja og búnaðar og gögn fengin frá RML, MAR (fjárfestingastuðningur) og frá verkfræðistofu til að meta byggingakostnað. Ákveðið var að notast við viðurkennda landbúnaðarhagfræði til að meta vexti og afskriftir.
Framreikningur á grunninum leiðir í ljós að í september 2024 er breytilegur kostnaður metinn á 89,7 kr./ltr. Fastur kostnaður er 26,7 kr./ltr. og laun og launatengd gjöld 114,8 kr./ltr. Afskriftir og vextir 74,9 kr./ltr. Niðurstaðan er því sú að framleiðslukostnaður á hvern lítra mjólkur á viðmiðunarbúinu er 306 krónur, í september 2024.
Næstu skref
Bændur hafa lengi kallað eftir nýjum verðlagsgrundvelli mjólkur. Það hafa aðilar vinnumarkaðsins (ASÍ og BSRB) einnig gert en þeir hafa stundum ekki tilnefnt fulltrúa í verðlagsnefnd með þeim rökum að gögnin sem unnið er með séu gömul og úrelt. Nú er nýr verðlagsgrundvöllur tilbúinn og því hægt að koma fram með trúverðug gögn, sem munu eflaust verða lykiltæki í hagsmunabaráttu bænda næstu misserin.