Ekkert grín
Skilvirkar flutningsleiðir eru forsendur þess að nútímaþjóðfélag geti þrifist. Það varðar samgöngukerfi á sjó, landi og í lofti. Skilvirka og örugga orkuflutninga og fjarskipti, þar á meðal ljósleiðara. Ef skilvirknin minnkar í einum eða fleiri af þessum þáttum fer samfélagið að hökta.
Þetta eru engin ný vísindi og mannfólkið hefur vitað þetta í þúsundir ára. Allavega svo lengi sem menn uppgötvuðu að það gæti aukið velsæld og þægindi ef hægt væri að samnýta flutningatæki til að sækja nauðþurftir í búið. Byggðir voru vegir til að auðvelda flutninga.
Í kjölfar þess að tvíburarnir Romulus og Remus stofnuðu Rómaborg fyrir um 2.774 árum var augljóst að góðar samgöngur til og frá borginni voru nauðsynlegar til að hún gæti dafnað. Því greiðari sem samgöngurnar væru því betra.
Rómverjar fóru að byggja vegi eins og enginn væri morgundagurinn og ólíkt íslenskum vegum hafa sumir af þessum vegum dugað allar götur síðan. Meira að segja má enn finna slíka vegi með upphaflegu slitlagi sem dugar enn.
Á hátindi Rómaveldis voru hvorki fleiri né færri en 29 hraðbrautir út úr borginni sem borið gátu þunga herflutninga þess tíma. Þá voru 113 héruð keisaradæmisins samtengd með 372 vegum. Heildarlengd þessara vagnfæru vega var um 400.000 kílómetrar. Þar af voru yfir 80.500 kílómetrar með steinlögðu yfirborði, eða slitlagi eins og það er kallað í dag. Í Gaulverjalandi einu (þ.e. Frakklandi) voru ekki minna en 21.000 kílómetrar lagðir af vegum og 4.000 kílómetrar á Bretlandi. Þessir vegir eru víða enn til staðar, en suma er að vísu búið að malbika til að gera yfirborðið sléttara.
Þessi vitneskja um mikilvægi innviða á borð við vegi til að tryggja samgöngur hefur lifað mann fram af manni og ýtt undir framfarir í tækni á öllum sviðum. Þrátt fyrir það virðist vera risið upp eins konar trúarsamfélag hér á landi, sem afneitar því sem hefur verið á flestra vitorði í allavega 2.774 ár, að ekkert samfélag manna getur þrifist án skilvirkra innviða og samgöngukerfis.
Afleiðingar af afstöðu andstæðinga samgöngumannvirkja og bíla til þessa eru þó hjóm eitt ef ótti vísindamanna raungerist. Þeir hafa í gegnum tíðina hamrað á því að tryggja verði flóttaleiðir úr höfuðborginni ef og þegar náttúruöflin ógni lífi. Að þessu hafa fjölmargir pólitískt kjörnir fulltrúar samt gert lítið úr. Hvergi sé öruggara en einmitt í miðborginni.
Eldgos á Reykjanesi er nú veruleiki. Eldgos sem mörgum finnst krúttlegt og skemmtilegt. Vísindamenn hafa samt varað við að nú geti verið að hefjast langt tímabil óróleika á Reykjanesskaganum. Þó eldgos komi ekki upp í allra næsta nágrenni mesta þéttbýlis landsins, þá er vert að minnast þess að eiturgufur frá eldgosum geta lagst yfir þéttbýlið með litlum sem engum fyrirvara.
Til er rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið frá því í apríl 2019. Við lestur hennar er alveg ljóst að það er óvinnandi vegur að rýma höfuðborgarsvæðið með 233 þúsund manns á skömmum tíma. Stofnbrautakerfið í dag ræður einfaldlega ekki við það. Í ofanálag hefur verið bent á að þrengingar gatna í Reykjavík flæki málið enn frekar og ekki eru ýkja margir dagar síðan slökkvi- og sjúkralið lenti í vandræðum vegna þessa í miðborg Reykjavíkur.
Í þessari rýmingaráætlun er dregið upp kort af viðamiklum stofnbrautum út úr borginni sem gegna eiga lykilhlutverki í rýmingu. Gallinn er bara sá að hluti af þeim stofnbrautum hefur enn ekki verið byggður, þar á meðal Sundabraut. Hver ætlar svo að stíga fram og taka á sig ábyrgðina ef illa fer?