Landbúnaður á tímum fæðuöryggis
Á tímum sem engum hafði dottið í hug að gætu raungerst er landbúnaður mikilvægari nú sem aldrei fyrr. Framleiðsla matvæla er hnökralaus eins og staðan er í dag og þurfa landsmenn ekki að hafa áhyggjur af matvælaframboði í landinu.
Unnið hefur verið eftir ýtrustu varúðarráðstöfunum svo tryggja megi framboð af íslenskum afurðum til neytenda. Afurðafyrirtæki, úrvinnslu- og dreifingarfyrirtæki hafa sett sér skýrar vinnureglur svo ekki komi til þess að framleiðsla raskist. Bændur hafa sömuleiðis sett sér strangar umgengnisreglur um bú sín svo minnka megi smithættu þar sem um frumframleiðslu er að ræða. Bændur vilja tryggja fæðuöryggi fyrir íslenska þjóð og leggja metnað sinn í það.
Birgðir eru nægar
Viðbragðsteymi Bændasamtakanna vegna COVID-19 hefur í samvinnu við Matvælastofnun fylgst með birgðahaldi á kjarnfóðri og tengdum vörum frá 7. mars síðastliðnum. Við höfum tekið stöðuna reglulega síðan og nú síðast á þriðjudag í þessari viku. Ekkert bendir til annars en að kjarnfóður, áburður og sáðkorn séu á áætlun. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur að ekki séu til nægar fóðurbirgðir í landinu. Þessar upplýsingar segja okkur að það er engin fyrirstaða í að framleiða mat fyrir land og þjóð.
Takk fyrir að velja íslenskt
Stuðningur hins almenna neytanda hér á landi felst í að velja íslenska framleiðslu og þjónustu ýmiss konar, iðnaðarvörur sem og landbúnaðarafurðir. Við tryggjum störf með því að velja íslenskt. Gríðarleg fjölbreytni er af íslenskum afurðum þar sem þær eru í boði. Hvort sem er í verslunum, á veitingastöðum, heimsendingum afurða eða blómum til að gleðja sálina. Með samstöðu þjóðarinnar munum við komast í gegnum þetta en það mun reyna á víða í okkar samfélagi.
Afleysingaþjónustu hleypt af stokkunum
Búið er að útfæra aðkomu félagsmálaráðuneytisins um afleysingaþjónustu bænda. Afleysingin gengur út á að aðstoða bændur sem veikjast af völdum kórónuveirunnar. Það er ljóst að ef veirufárið dregst á langinn þá þarf að endurskoða þjónustuna, ekki síst ef veikindi verða mikil við upphaf sauðburðar. Unnið er að viðbrögðum innan teymis Bændasamtakanna sem fundar reglulega um stöðu mála.
Hugum að eigin heilsu og virðum smitvarnir
Mikilvægt er að bændur hugi vel að eigin heilsu og hverja þeir umgangast. Sóttvörn er besta vörnin og eins og frægt er orðið þá eigum við að „hlýða Víði“. Upplýsingar frá viðbragðsteyminu má finna á vefsíðu Bændasamtakanna, bondi.is. Eins eru þar leiðbeiningar um sóttvarnir og ýmsar aðrar upplýsingar um veiruna, forvarnir, vinnumarkaðsmál og aðrir tenglar.
Allir leggjast á eitt
Aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar tekur á fjölmörgum málum sem eru almenns eðlis og nýtist öllum, hvort sem er í landbúnaði eða öðrum greinum. Ég vil fagna því sem komið er fram, þar eru atriði sem sannarlega nýtist okkar framleiðslugreinum til að fleyta okkur í gegnum þann vanda sem fram undan er. Bændasamtökin munu fylgjast vel með framvindu mála og koma með tillögur um aðgerðir ef nauðsynlegt kann að vera. Ráðamenn þjóðarinnar hafa rætt um að þetta séu fyrstu viðbrögð á þessari vegferð.
Unnið hefur verið í nánu samstarfi við ráðuneyti landbúnaðarmála og fleiri í stjórnkerfinu um atriði sem lúta að því að búvöruframleiðsla megi ganga án takmarkana. Jafnframt hefur verið lagt til að bæta í stuðning við landbúnaðinn en það mun skýrast með útfærslu á frumvarpi til fjáraukalaga. Vil ég þakka fulltrúum ríkisvaldsins fyrir jákvæða aðkomu og aðstoð í þeim atriðum sem snúa að málefnum landbúnaðarins á þessum örlagatímum.