Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Af viðbrögðum og málefnum
Leiðari 3. nóvember 2022

Af viðbrögðum og málefnum

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands

Nú á haustdögum eftir uppskerutíma sumarsins þurfum við að horfa á hvar sóknarfærin liggja í frumframleiðslugreinum landbúnaðar.

Gunnar Þorgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands

Mikið hefur gengið á í heimsmálum og óróa gætir á mörkuðum sem hafa leitt af sér umtalsvert hærri rekstrarkostnað í allri frumframleiðslu. Kornverð hefur og mun hafa víðtæk áhrif á framleiðslukostnað og einnig olíuverð sem hefur komið fram, ekki einvörðungu í hækkun á flutningi heldur einnig í umbúðum og tengdum vörum. Áburðarverð á heimsmarkaði virðist hafa náð einhverju jafnvægi í dag en verðið er enn í hæstu hæðum og fyrirsjáanlegt að fyrra verði sem var fyrir stríð verður ekki náð. Nú liggur fyrir tillaga að hækkun á úrvinnslugjaldi á rúlluplasti og umbúðum almennt, en hækkunin á rúlluplastinu er fyrirhuguð úr 32 kr. pr. kg. og stefnir í 85 kr. pr. kg. Þetta er enn einn pósturinn sem hækkar framleiðslukostnað í landbúnaði sem allt telur í afkomu bænda.

Viðbrögð BÍ

Mikil vinna hefur farið fram á vegum Bændasamtakanna í verkefnum sem ætlað er að efla hringrásarhagkerfið á Íslandi atvinnugreininni til framdráttar. Eitt af þeim verkefnum er samstarf landeldisstöðva og bænda um nýtingu úrgangs frá laxeldi annars vegar og húsdýraáburði hins vegar. Þetta verkefni er í þróun og sótt hefur verið um styrk bæði í Live hringrásarsjóð Evrópusambandsins og einnig í tækniþróunarsjóð Rannís um stuðning til að láta þetta verkefni raungerast. Það eru margir sem koma að þessu verkefni með Bændasamtökunum og landeldisbændum, þar má nefna Orkideu sem er samstarfsverkefni á Suðurlandi um orkunýtingu. Það er von okkar að með þessu verkefni horfum við fram á nýtingu afurða til áburðaframleiðslu sem vonandi dregur úr þeim mikla kostnaði sem áburðarkaup eru í starfsemi bænda. Afar mikilvægt er að standa vörð gegn þessum miklu hækkunum í aðfangaverði til bænda. Mikilvægt er að kanna alla fleti á þessu verkefni sérstaklega í lagalegu tilliti og reglugerðaverki sem undir þessa starfsemi falla.
Bændasamtökin fordæma vanrækslu og illa meðferð dýra

Undanfarnar vikur hefur dýravelferð og eftirlit með dýrahaldi verið talsvert í umræðunni. Bændasamtök Íslands fordæma vanrækslu og illa meðferð á dýrum í hvaða birtingarmynd sem er, og hafa samtökin átt fund, bæði með MAST og Ríkisendurskoðun um fyrirkomulag eftirlitsins en nauðsynlegt er að samræma lagatextann sem lýtur m.a. að sveitarstjórnarstiginu um hvað heyrir til hvers friðar í þessum málum. Tryggja þarf skýrar boðleiðir innan eftirlitskerfisins og að þær virki, en einnig þarf að tryggja forgangsröðun fjármagns og eðlilegar valdheimildir svo hægt sé að stíga inn í aðstæður fyrr en ella. Allt tal um að skilyrða eigi starfsemi í búfjárrækt með starfsleyfi er með öllu ótímabært enda þurfi fyrst og fremst að skoða hvar skórinn kreppir í þessum efnum sem áður.

Þá er samtökunum talsvert umhugað um hvað gerist um áramót þegar hvorki verður heimilt að urða né senda til brennslu lífúrgang, auk þess sem starfsleyfin eru að breytast um áramót hjá urðunarstöðvum. Hvaða lausnir eru
fyrir hendi innan viðkomandi sveitarfélaga til að sinna þessum skyldum sveitarfélaganna um móttöku á úrgangi hvaða nafni sem það nefnist?

Af málefnum ráðherra

Bændasamtökin í samstarfi við búgreinadeild sauðfjárbænda hafa óskað eftir því við matvælaráðherra að viðbótarsamningur verði gerður á þessu ári um að fresta niðurtröppun greiðslumarks, en samtökin telja að þær breytingar sem verða á tilfærslu milli liða í samningnum á næstu árum færi stuðning frá svæðum sem njóta svæðisbundins stuðnings og hafa minni tækifæri til annarrar tekjuöflunar. Þessi breyting vinnur því gegn þeim lið samningsins sem markvisst var ætlað að styðja við byggð á viðkvæmustu svæðum landsins. Ráðherra hefur aftur á móti upplýst um að ekki standi til að gera viðbótarsamning á þessu ári heldur verði horft til endurskoðunar á næsta ári. Þar höfum við reynt að koma til móts við vilja bænda en niðurstaða ráðherra er afgerandi í þessu máli.

Á fundi með fjármálaráðherra í sumar var farið yfir ýmis mál er snýr að eftirliti með tollum og skráningu afurða sem fluttar eru inn til landsins og samræmingu tollskrár hér heima við þær útflutningstölur sem birtar eru á grundvelli útflutningsskýrslna frá ESB. Ráðherra setti saman starfshóp innan ráðuneytisins til að skoða hvað það væri sem gerði það að verkum að þessar tölur væru ekki í samræmi og lofaði að þessi niðurstaða yrði ljós í septembermánuði. Nú er aftur á móti kominn nóvember og engar fregnir hafa borist úr því ágæta ráðuneyti. Það eru óneitanlega okkur mikil vonbrigði þar sem tollvernd er hluti starfsumhverfis landbúnaðar á Íslandi eins og öllum ríkjum ESB.

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...

Að fletta blaðinu
Leiðari 16. maí 2024

Að fletta blaðinu

Nýlega bárust okkur gleðifregnir um magnaða ljósmynd. Forsíðumynd Sigurðar Más H...

Sérmerktar svínavörur
Leiðari 24. apríl 2024

Sérmerktar svínavörur

Neytendur eru alltaf að verða meðvitaðri og ábyrgari við vöruval. Þó að verðmiði...

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...