Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri.

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumssonar, Skín við sólu Skagafjörður, spannar mögulega ýmsar hugrenningar bænda vegna atburða undanfarinna daga:

Kenn mér andans óró stilla;
ótal sjónir ginna villa,
dilla, blinda, töfra, trylla,
truflar augað máttug sól.

Áhrif Kaupfélags Skagfirðinga á íslenskan landbúnað magnaðist enn frekar við kaup þess á stærsta kjötvinnslufyrirtæki landsins, Kjarnafæði Norðlenska, í síðustu viku. Áður höfðu viðræður við fjárfestingafélagið Kaldbak um aðkomu þess að hlutafjáraukningu í kjötvinnslufyrirtækinu átt sér stað, en þess má geta að forstjóri Kaldbaks er stjórnarformaður Haga, sem er stór rekstraraðili á smásölumarkaði. Í tölublaðinu kemur fram að gengið hafi verið að kauptilboði Kaupfélags Skagfirðinga en þau viðskipti áttu sér stuttan aðdraganda.

Stór orð hafa fallið um kaupin og sitt sýnist hverjum. Á meðan sumir fagna því að kjötafurðastöðvar nýti sér nýfengna heimild til samráðs og samruna eru aðrir tortryggnir. Finnst jafnvel bíræfið að gengið sé svo afgerandi til verka eftir umdeildan aðdraganda að lagabreytingum sem heimiluðu viðskiptin.

Það er nefnilega þetta með óvissuna. Þau sem fagna treysta því að fyrirtæki með áratuga langa reynslu í landbúnaðarstarfsemi séu best til þess fallin að ná fram þeirri hagkvæmni sem nauðsynleg er til að viðhalda kjötframleiðslu í landinu svo vel sé. Það er ekki annað að heyra á allmörgum bændum sem eiga í hlut að þeir treysti Skagfirðingum fyrir þessari ábyrgð. Þau sem eru hins vegar uggandi vilja ekki að þessir sömu aðilar hafi þetta mikla vald án skilyrða.

Hluthafar Búsældar, sem eiga 43 prósenta hlut í Kjarnafæði Norðlenska, eru nær 500 talsins. Félagið hefur verið hluthöfum þungur baggi um langt skeið, enda segir stjórnarformaður félagsins hér í tölublaðinu að rekstur sláturhúsa sé afar sveiflukenndur og óvissuþættir varðandi afkomu margir. Í hluthafahópnum eru framleiðendur í Eyjafirði, Þingeyjasveit, Múlasýslu og jafnvel suður í Skaftafellssýslu. Þónokkur fjöldi hluthafa Búsældar hafa þegar hætt búskap, og eru jafnvel í formi dánarbúa, sem ekki hafa getað fengið greitt út sinn hlut. Nú fá þessir aðilar að velja hvort þeir taki tilboði Kaupfélags Skagfirðinga í sinn hlut eða verði áfram eignaraðilar að stærstu kjötafurðasamsteypu landsins.

Eftir viðskiptin verða sex sláturhús undir eignarhaldi Kaupfélags Skagfirðinga; á Hvammstanga, Blönduósi, í Skagafirði, á Akureyri, Húsavík og Hellu. Tilgangur breyttra búvörulaga og þessa samruna er hagræðing. Hagræðing þýðir óneitanlega lokun starfsstöðva svo það er nokkuð fyrirsjáanlegt að einhver hús fá annað hlutverk.

Sumir gætu séð tækifærin í þessu. Kaupfélag Skagfirðinga hefur jú gert vel við sína og skilað samvinnufélaginu góðri afkomu svo árum skiptir með ákvörðunum sínum. Viðskiptin bera það með sér að bændur á starfssvæðinu ætli, eða þurfi, að leggja mikið traust á Kaupfélag Skagfirðinga. Nú þarf kaupfélagið, með skýrum hætti, að standa undir þessu valdi og matvælaráðherra hefur látið hafa eftir sér að það sé stjórnvalda að fylgjast grannt með að markmið lagabreytinganna nái fram að ganga og gagnist bæði bændum og neytendum. Niðurstaðan er sú að valdið og ábyrgðin er í höndum Skagfirðinga.

Kjöt og kosningar
Leiðari 22. nóvember 2024

Kjöt og kosningar

Eftir nokkra daga mun þjóðin velja þá sem sitja á Alþingi næstu fjögur ár. Kosni...

Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...