Orð eru til alls fyrst
Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, setur hlutina í samhengi. Hann veitir aðhald og kallar fram umræður um málefni í samfélaginu.
Þegar við fáum traustar upplýsingar framreiddar skýrt gegnum fjölmiðil eykst þekking okkar á umfjöllunarefnum. Út frá þeim upplýsingum getum við svo myndað okkur skoðun.
Blaðamannafélag Íslands stendur fyrir herferð um þessar mundir. Markmið herferðarinnar er að vekja fólk til vitundar um mikilvægi blaðamennsku fyrir samfélagið. Aukin skautun og upplýsingaóreiða gerir það að verkum að aldrei hefur verið meiri þörf fyrir vandaða blaðamennsku. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands og þar er málefnum landbúnaðar gerð góð skil. Landbúnaður er ein af grunnstoðum samfélags okkar. Umfjöllun um málefni landbúnaðar voru framan af í takmörkuðum mæli í öðrum íslenskum fjölmiðlum, í samanburði við aðrar grunnstoðir. Nefni í því samhengi heilbrigðismál, viðskipti og sjávarútveg, málefni sem öll fengu meira svigrúm en landbúnaður hér á landi. Þetta hefur breyst á allra síðustu misserum.
Staða Bændablaðsins er sterk. Það heyrir til að mynda til undantekninga að landbúnaðarmiðaður prentmiðill sé sá stærsti meðal fréttamiðla þjóða. Blaðið er mest lesni prentmiðill landsins, áfangi sem náðist í lok síðasta árs. Lestur á vefsíðu Bændablaðsins hefur þrefaldast á tveimur árum. Yngri lesendur hafa aldrei verið fleiri og má þar m.a. þakka framsetningu blaðsins á samfélagsmiðlum, hvar bændur hafa nú frá ársbyrjun fengið vettvang til að sýna hvernig búskapur virkar frá fyrstu hendi. Bændablaðið er því afskaplega dýrmætt vörumerki fyrir bændur til að ná til neytenda, því það er vettvangur sem heldur á lofti málefnum sem snertir þessa mikilvægu grunnstoð samfélagsins.
Styrkleiki Bændablaðsins snýr meðal annars að skýrum áherslum í sinni umfjöllun, efnistök sem aðrir fjölmiðlar taka óhikað upp og gera að sínu, einmitt vegna þess að blaðið er traustur miðill. Þannig eru ytri áhrif Bændablaðsins óyggjandi, þar sem umfjallanir um landbúnaðarmál hafa aukist verulega að undanförnu. En það þýðir líka að Bændablaðið er í samkeppni við aðra fjölmiðla þegar kemur að mikilvægum efnistökum, sem er vel. Við gerum okkur grein fyrir þessari ábyrgð og sjáum það sem hvatningu til að auka gæðin og stunda metnaðarfulla upplýsingagjöf sem mark er á takandi. Þetta gerum við með því að halda á lofti vandaðri, gagnrýnni blaðamennsku og vera í sterku sambandi við grunninn sem við byggjum á, fyrst og fremst gegnum bændur landsins. En auk þess nýtum við okkur góð tengsl við vísindasamfélagið, fyrirtæki í landbúnaðarframleiðslu þvert á búgreinar og stjórnsýsluna.
Blaðið stendur fyrir fjölbreyttum efnistökum sem færa lesendum óvænta þekkingu á skýran hátt. Hlutverk Bændablaðsins er að miðla upplýsandi fregnum af landbúnaði og málefnum honum tengdum á heiðarlegan hátt, gefa út faglegar upplýsingar og ekki síst að vera vettvangur skoðanaskipta milli þeirra sem láta málefnin sig varða. Ritstjórn blaðsins er óhrædd við að fjalla um umdeild málefni sem eru bændum hugleikin. Uppgangur miðla sem keyra á kjarnmiklum umfjöllunum og sterkri blaðamennsku endurspeglar að slík fjölmiðlun er eftirsóknarverð. Í upplýsingaóreiðu nútímans kunna lesendur að meta vandaðar greinar sem byggja á áreiðanlegum gögnum og heiðarlegum upplýsingum. Þannig höfum við lagt okkur fram um að rýna betur í stóru málin tengd landbúnaði með metnaðarfullum fréttaskýringum.
Tilgangurinn er að lesandi geti viðað að sér svo skýrum og innihaldsríkum upplýsingum í Bændablaðinu að hann geti myndað sér upplýsta skoðun að lestri loknum og tekið afstöðu í mikilvægum málum. Það eru þessar umræður sem eru mikilvægar fyrir framgang landbúnaðar sem grunnstoð samfélagsins. Því orð eru til alls fyrst.