Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Forsíðumynd Sigurðar Más Harðarsonar úr 11. tölublaði Bændablaðsins í fyrra var valin ein af bestu fréttaljósmyndum ársins 2023 og prýðir nú sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands sem stendur yfir í Hafnarhúsinu.
Forsíðumynd Sigurðar Más Harðarsonar úr 11. tölublaði Bændablaðsins í fyrra var valin ein af bestu fréttaljósmyndum ársins 2023 og prýðir nú sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands sem stendur yfir í Hafnarhúsinu.
Mynd / smh
Leiðari 16. maí 2024

Að fletta blaðinu

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri

Nýlega bárust okkur gleðifregnir um magnaða ljósmynd. Forsíðumynd Sigurðar Más Harðarsonar úr 11. tölublaði 2023 var valin ein af bestu fréttamyndum ársins.

Ljósmyndin er átakanleg, skýr og mögnuð. Hún sýnir sauðfjárbændur í Miðfirði, þau Dagbjörtu Diljá Einþórsdóttur og Ólaf Rúnar Ólafsson á Urriðaá og Ara G. Guðmundsson og Elínu Önnu Skúladóttur á Bergsstöðum undir táknrænni birtu inni í tómu fjárhúsi eftir niðurskurð á um 1.400 fjár á bæjunum tveimur eftir að riða kom þar upp síðastliðið vor. Með sterkri myndrænni framsetningu og faglegri miðlun á eftirmálum riðuveiki lagði blaðið sitt á vogarskálarnar við að koma á framfæri nauðsyn þess að endurskoða regluverk um aðgerðir gegn riðuveiki í sauðfé. Í samráðsgátt stjórnvalda má nú finna drög að landsáætlun um riðuveikilaust Ísland en bændum sem vilja hafa áhrif á þessa stefnu er bent á að senda inn umsögn fyrir tuttugasta þessa mánaðar.

Erfið staða prentaðra fjölmiðla er meðal umræðuefnis á málstofunni Finnum lausnina á Bransadögum í dag, fimmtudaginn 16. maí. Þar heldur sérfræðingur í málefni miðlunar á prentuðu efni erindi en auk þess mun undirrituð, ásamt Páli Ketilssyni frá Víkurfréttum, sitja í pallborði og ræða stöðu ímyndar og dreifingar á prentuðu markaðsefni og dagblöðum á Íslandi.

Prentaðir fjölmiðlar eiga undir högg að sækja gagnvart stafrænni miðlun. Prentkostnaður hefur aukist, dreifing er orðin bæði erfið og dýr. Fólk sækir í auknum mæli upplýsingar í gegnum óravíddir vefsins og því eiga áþreifanlegir prentmiðlar í samkeppni um athygli við iðandi gagnvirkni. Algrím sjá til þess að viðhalda athygli lesandans með því að leggja til næsta efni, sem valið er í samræmi við það fyrra. Kanínuholurnar virðast endalausar, töfrandi og hræðilegar í senn. Stafræna umhverfið er tímaþjófur og er að valda aukinni skautun og upplýsingaóreiðu.

Prentmiðlar og línuleg dagskrá heyra undir hinn enda miðlunarlitrófsins, hvar efni er ekki sérvalið fyrir tiltekinn lesanda þótt ritstjórnarstefna og yfirlýsing fjölmiðils beri vott um þau málefni sem tekin eru fyrir. Í tilfelli Bændablaðsins er viðfangsefnið nokkuð skýrt þótt víðtækt sé. Umfjöllun um landbúnað og dreifbýli er nátengt ýmsu sem fólk, óháð búsetu og starfsstétt, getur haft áhuga á, svo sem umhverfismál, vísindi, heilsu, menningu og samfélagsmál.

Þetta tölublað er, eins og reyndar alla jafna, stútfullt af fjölbreyttu efni. Við tölum t.d. við unga sauðfjárbændur á Vatnsnesi, stórhuga framleiðanda wasabi og aspar á Fljótsdalshéraði, athafnasaman hrossaræktanda undir Eyjafjöllum og framkvæmdaglaða kornframleiðendur á Norðurlandi. Hér má einnig finna fróðleik í formi faggreina og viðtala við vísindamenn sem fjalla meðal annars um aðbúnað kúa, landnýtingu, skógrækt, belgjurtir og mjölorma. Orkumál, gallafatnaður, hugaríþróttir og forsetakosningar fá líka svigrúm.

Það sem aðskilur prentmiðil frá hinum stafræna er að með lestri áþreifanlegs blaðs getur þú, óháð klæðskerasniðnu vali algríms, viðað að þér hinni ótrúlegustu þekkingu sem þér hefði kannski ekki dottið í hug að smella á. Þannig getur lesandi sem grípur Bændablaðið til þess að leysa krossgátur og klippa út prjónauppskriftina öðlast í kaupbæti grunnþekkingu á lífrænum áburði, vindorku og tollvernd – og tekið þátt í skörpum umræðum í hvaða heita potti sem er.

Bændur, blaðið og skörungar
Leiðari 27. desember 2024

Bændur, blaðið og skörungar

Lognmolla er eitthvað sem á sér aldrei stað í landbúnaði. Atvinnugreinin er hrin...

Kjöt og kosningar
Leiðari 22. nóvember 2024

Kjöt og kosningar

Eftir nokkra daga mun þjóðin velja þá sem sitja á Alþingi næstu fjögur ár. Kosni...

Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...