Hvað kostar tollvernd?
Tollvernd er margslungið og frekar óaðgengilegt fyrirbæri. Því er ekki skrítið að fólk forðist að setja sig inn í málefnið. En allir hafa beina hagsmuni af því að skilja það.
Um 12,8% heildarútgjalda íslenskra neytenda fara í kaup á matvælum. Hlutfallið er svipað á Norðurlöndum og meðaltal ESB-landanna er 14,3%. Því er matvælaverð hér á landi hlutfallslega sambærilegt við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.
Tollvernd er ekki bara mælistika á verðlag matvæla úti í búð, eins og fram kemur í þessu tölublaði Bændablaðsins. Hún er samofin stoðkerfi landsins. Hún stuðlar að fæðuöryggi þjóðar, nýtingu landsins gæða og byggð í dreifbýli.
Sverrir Falur Björnsson, hagfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands, hefur tekið saman ýmsa tölfræði um tollvernd. Honum hefur reiknast til að tollvernd á kjöt árið 2022 hafi verið 14,7 milljarða króna virði miðað við sömu forsendur og útreikninga og birtast í skýrslu atvinnuvegaráðuneytisins árið 2021 um stöðu tollverndar. Ef þeirri upphæð er deilt með öllum íbúum landsins 18 ára og eldri, gerir það tæplega 4.200 krónur á mánuði. Ef við gerum ráð fyrir að sú upphæð deilist líka á þann fjölda ferðamanna sem eru á Íslandi, fellur upphæðin niður í 3.759 krónur. Það gera um 0,9–2% af grunnframfærslu miðað við viðmið umboðsmanns skuldara. Afnám tollverndar myndi, samkvæmt því, skila sér í 1–2% bættari kjörum fyrir efnahagslega viðkvæmustu hópa þjóðarinnar.
Næstum öll lönd nýta sér tollvernd til að styðja sjálfbærni sína. Það er ekkert endilega betra á excel-skjalinu að rækta matinn heima, en það veitir ákveðið skjól að geta það. Það kallast fæðuöryggi.
Daði Már Kristófersson hagfræðingur segir í fréttaskýringunni: „Ef þú spyrð hagfræðinga þá segja þeir að óþvinguð viðskipti séu góð. Tollar draga úr viðskiptum og eru því neikvæðir því þeir skapa kostnað.“ En í framhaldi undirstrikar hann, varaformaður Viðreisnar, að það sé ekki hægt að beita einföldum hagfræðirökum á fyrirbæri eins og tollvernd. Því tollvernd þjónar ekki bara hagfræðilegu hlutverki, sem hamlandi fyrirbæri á viðskipti. „Þetta stangast nefnilega á við markmið ríkja um að vera sjálfum sér nóg um einhvern hluta af eigin matvælaþörf.“
Í nær öllum löndum er tollvernd notað sem stjórntæki til að stuðla að fæðuöryggi. Tollvernd er ekki einungis vernd fyrir íslenska bændur, heldur alla þá sem koma að framleiðsluferlunum, frá túninu að matarborðinu.
„Liggur hagur neytenda frekar í að styðja við framleiðslu í öðrum löndum og hafa fáa innflutningsaðila, frekar en að styðja við þá ótalmörgu framleiðendur og þjónustuaðila sem eru starfandi á íslenskum markaði?“ spyr Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.
Málið er nefnilega að hér á landi starfa nær 10.000 manns í landbúnaði og afleiddum störfum. Talið er að framleiðsluvirði landbúnaðar séu kringum 80.000 milljónir íslenskra króna.
Þessi atvinnuvegur stuðlar að því að hér geta landsmenn búið víðs vegar um eyjuna við framleiðslu á búvörum og tryggt okkur mat.
Ég borga 1.700 kr. í Spotify á mánuði, um 2.000 kr. í Netflix og 2.990 kr. í Storytel. Ég er alveg til í að borga 4.200 kr. á mánuði fyrir að vita að það er verið að stuðla að fæðuöryggi í landinu mínu.