Áveitur – þakkir til heimildarmanna
Vorið 2019 birti Bændablaðið stutta grein mína, Minjar um áveitur?, þar sem ég spurðist fyrir um þær og þá fyrst og fremst áveitur utan hinna vel þekktu svæða þeirra, t.d. í Árnessýslu.
Og það gerðist sem oftar að lesendur Bændablaðsins brugðust vel við. Á fimmta tug heimildarmanna bentu á og/eða sögðu frá áveituminjum. Sumar þeirra hafa komist inn á fornminjaskrár; aðrar ekki. Nokkrir svarendur sendu ljósmyndir. Einnig bárust frásagnir af síðustu notkunarárum áveitna, ýmist byggðar á eigin upplifun heimildarmanns eða sögnum eldri kynslóðar. Skal þá ekki látið ónefnt að enn eru dæmi um áveitur í notkun. Sumar frásagnanna voru afar ítarlegar. Ég legg ekki í að mismuna heimildarmönnum með því að nefna suma en ekki aðra; freistast þó til þess að upplýsa að í hópi þriggja rækilegustu greinargerðanna voru tvær þingeyskar og ein rangæsk.
Svör og ábendingar bárust frá heimildarmönnum víða um land.
Svör heimildarmannanna sýna að áveitur á einu eða öðru formi hafa verið algengar í sveitum landsins nokkuð fram á tuttugustu öld. Eðlilega hefur almenn athygli beinst að hinum stóru áveitum, svo sem um Skeið og Flóa, framkvæmdum sem á þeirra tíð voru með þeim stærstu á landsvísu. En það má líka minnast þeirra mörgu og smáu sem aðeins áttu að hvetja grasvöxt á örfáum dagsláttum, jafnvel bara einni. Ræktunarfrömuðir hvöttu til áveitna á engjaræktunartímanum – fram á fyrsta fjórðung síðustu aldar. Margar minjanna eru því frá þeim tíma en einnig greindu heimildarmenn frá áveitum sem taldar eru vera mun eldri.
Við ritun áveitukaflans í bókinni Yrkja vildi eg jörð, sem út kom í fyrra, studdist ég við svör þeirra sem sendu mér fróðleik. Margt var þar þó ónefnt en svörin verða geymd. Ef til vill get ég gert efninu rækilegri skil síðar.
En að lokum það tvennt sem ég hafði í huga með þessari grein: Að minna á minjar um áveitur sem enn kunna að sjást og eiga þekkta sögu – að hlúð sé að þeim svo sem fært er og tiltækur fróðleikur um þær skráður. Og svo hitt, að þakka öllum heimildarmönnum mínum kærlega fyrir liðsemdina. Leynist enn frekari fróðleikur þigg ég hann með þökkum.
Bjarni Guðmundsson, Hvanneyri