Íslandsmeistaramót í hrútadómum
Starfsemin á Sauðfjársetrinu á Ströndum hefur gengið mjög vel í sumar og aðsókn verið góð. Nú er fram undan Íslandsmót í hrútadómum sem verður þann 18. ágúst og hefst keppnin sjálf kl. 14, en kjötsúpuveisla og markaðsdagur fyrr um daginn á vegum Beint frá býli.
Íslandsmeistaramótið í hrútadómum hefur verið haldið frá árinu 2003, en féll niður tvö ár í röð vegna Covid. Í ár er því keppnin haldin í 20. sinn og hlökkum við mikið til. Þennan dag kemur fólk alls staðar að af landinu, bændur og búalið, til að taka þátt eða fylgjast með, en það hafa verið á bilinu 300 og upp í 500 gestir á hrútaþuklinu undanfarin ár.
Á síðasta ári stóð Jón Stefánsson frá Broddanesi á Ströndum uppi sem sigurvegari og er núverandi Íslandsmeistari. Strandamönnum þykir alltaf nokkuð gott þegar heimafólk vinnur titilinn og munu því væntanlega reyna eins og þau geta til að halda í þann heiður. Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár en auk þess eru veglegir vinningar í báðum flokkum. Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn.
Á þessu ári er Beint frá býli dagurinn haldinn samhliða hrútaþuklinu í Sævangi frá kl. 13–16, sem er sérlega skemmtilegt. Þar munu framleiðendur verða með kynningu og sölu á sínum vörum. Gert er ráð fyrir að um 10 framleiðendur taki þátt í markaðnum og verður fjölbreytt úrval vara til sölu. Nánari upplýsingar um þann viðburð má finna á heimasíðunni beintfrabyli.is.
Náttúrubarnahátíð og skemmtiferðaskip
Sauðfjársetrið á Ströndum er sjálfseignarstofnun og viðurkennt safn sem sinnir öllum þáttum safnastarfs, en er líka mikilvæg menningarmiðstöð í héraðinu. Hér hittist heimafólk og á saman góðar stundir á margvíslegum viðburðum.
Sumarið hefur gengið vel og aðsóknin verið frábær það sem af er sumri. Gestir á Kaffi Kind, sem rekin er í tengslum við Sauðfjársetrið, hafa einnig verið margir. Náttúrubarnahátíð var haldin með pomp og prakt um miðjan júlí og gekk mjög vel en það komu rúmlega 300 manns á hátíðina. Markmið Náttúrubarnahátíðarinnar er að kenna fólki að veita náttúrunni athygli og að börn upplifi og fræðist um náttúruna í gegnum leik úti í náttúrunni. Sú nýbreytni er í sumar að við fórum að fá skemmtiferðaskip í heimsókn til okkar á setrið. Undirbúningur hefur staðið yfir í rúmt ár, við fengum eitt skip í fyrrasumar til prufu og svo hafa komið skip átta sinnum í heimsókn í sumar. Þetta eru skemmtiferðaskip í minni kantinum og eru öll frá norska skipafélaginu Hurtigruten. Þetta hefur gengið frábærlega, gestirnir koma á safnið og skoða sýningar, fá rabarbaraköku og kaffi, fara í fjallgöngu og fuglaskoðun, tína rusl í fjörunni og ýmislegt fleira. Náttúrubarnið og þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk Jónsdóttir fer svo jafnan með fyrirlestur og safnaskemmtun um íslenskar þjóðsögur og flytur farþegum pistilinn um borð í skipinu. Við vonum svo sannarlega að það verði framhald á þessum heimsóknum.
Fjórar sýningar uppi
Starfsemin er öflug og reksturinn hefur verið í jafnvægi síðustu ár. Nokkrar sýningar eru jafnan á Sauðfjársetrinu. Fastasýningin heitir Sauðfé og sveitafólk á Ströndum og er í aðalsalnum í Sævangi sem var áður félagsheimili Tungusveitunga. Auk þess eru nú uppi þrjár aðrar sýningar. Sýning um förufólk og flakk í gamla sveitasamfélaginu sem opnuð var árið 2022 og svo voru tvær nýjar sýningar opnaðar í vor. Annars vegar Ullarfléttan sem er á listasviðinu, Ásta Þórisdóttir, listakona á Hólmavík, hannaði þá sýningu. Hins vegar er málverkasýning Hólmfríðar Ólafsdóttur í Kaffi Kind. Fjórða sérsýningin er svo utandyra, við göngustíginn Sjávarslóð sem liggur frá Sauðfjársetrinu út í Orrustutangann. Þá sýningu er hægt að skoða allan sólarhringinn og allt árið en fjöldi upplýsingaskilta er við stíginn og einnig listaverk og skúlptúrar eftir listamanninn Arngrím Sigurðsson.
Verðlaun og viðburðir
Það gladdi okkur óskaplega að fá tilnefningu til íslensku safnaverðlaunanna í vor, fyrir starf í þágu samfélagsins. Þá fékk safnið líka Lóuna – menningarverðlaun Strandabyggðar núna í sumar. Sauðfjársetrið er opið daglega yfir sumartímann, frá kl. 10–18, og yfir veturinn í tengslum við viðburði og heimsóknir hópa. Setrið stendur einnig fyrir margvíslegum viðburðum, bæði fyrir heimamenn og gesti, til dæmis Þjóðtrúarkvöldvöku sem jafnan er haldin í september og sviðaveislu í október. Heimafólk kemur saman og spilar félagsvist á safninu og þar eru líka sögustundir yfir veturinn, tónleikar af og til, og síðustu ár hafa þar verið æfð og sýnd leikrit í samvinnu við Leikfélag Hólmavíkur.
Eftir að skemmtiferðaskipin fóru að koma í heimsókn á þessu ári er meirihluti gesta Sauðfjársetursins í fyrsta skipti erlendir ferðamenn, en sýningartextar eru á íslensku, ensku, þýsku og frönsku. Helstu bakhjarlar Sauðfjársetursins eru Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Safnasjóður, en sá stuðningur gerir allt þetta starf mögulegt og erum við þeim því mjög þakklát.
Verið öll hjartanlega velkomin á Sauðfjársetrið í sumar.