Landbúnaðarstefna fyrir Ísland samþykkt
Fyrr í sumar var tillaga mín til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 samþykkt. Stefnumörkunin er sú fyrsta sem setur niður langtímastefnumörkun í landbúnaði á Íslandi.
Grundvallaratriði stefnunnar er að byggja á náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiðum, með sjálfbærni að leiðarljósi.
Þannig sé best stuðlað að því að landbúnaður dafni og þjóni hagsmunum íslensks samfélags sem best. Síðast var gerð tilraun með stefnumörkun að þessu tagi til langs tíma í upphafi níunda áratugar síðustu aldar en þær þingsályktanir fengu ekki afgreiðslu. Landbúnaður skiptir miklu máli í íslensku samfélagi, greinar landbúnaðar eru burðarásar í búsetu víða í dreifbýli og án landbúnaðar er tómt mál að tala um fæðuöryggi á Íslandi. En til þess að fæðuöryggi sé tryggt er nauðsynlegt að fjárhagsleg afkoma bænda sé réttlát.
Þar er verk að vinna, en afurðaverð til bænda verða að endurspegla þá eðlilegu kröfu bænda að vera þátttakendur í sama efnahagslega veruleika og aðrir landsmenn.
Traust stefnumörkun hefur yddað sýn
Þessi stefnumörkun hefur verið í undirbúningi um langa hríð. Á síðasta kjörtímabili var unnin mikilvæg undirbúningsvinna með aðkomu margra og í samráði við almenning og hagaðila. Tillagan sem ég lagði til byggði á grunni skjalsins Ræktum Ísland sem unnin var í tíð fyrri ráðherra en einnig var tekið tillit til annarrar stefnu á málefnasviðinu. En ekki síst var tekið mið af þeirri þróun sem hefur átt sér stað síðustu ár, en heimsfaraldur kórónaveiru og innráss Rússlands í Úkraínu hafa gjörbreytt ýmsum forsendum sem áður voru taldar sjálfgefnar.
Langtíma stefnumörkun skiptir einnig máli hvað varðar fyrirsjáanleika. Framleiðsluferlar eru langir í landbúnaði og þess vegna skiptir máli að ekki séu gerðar grundvallarbreytingar á þeirri stefnumörkun sem mótuð er.
Því var það ánægjulegt að meirihluti atvinnuveganefndar tók undir þau sjónarmið sem ég hef lýst í tengslum við endurskoðun búvörusamninga, að gera ekki grundvallarbreytingar á þeim.
Traust stefnumörkun varðar veginn og yddar sýnina, það eru mikil tækifæri í íslenskum landbúnaði. Trúin á þessi tækifæri fer vaxandi. Spennandi nýsköpun á sér stað, nú síðast með fregnum af myndarlegum styrkveitingum Evrópusambandsins til stuðnings áburðarframleiðslu úr laxaúrgangi. En slík verkefni geta lyft grettistaki í því stóra verkefni að gera innlendan landbúnað minna háðan innfluttum áburðarefnum.
Fleiri spennandi verkefni er fjallað um, til að mynda fyrirætlanir um að gera kúabændum kleift að velja kyn kálfa fyrirfram. Slík verkefni eru til þess fallin að draga úr framleiðslukostnaði og þar með bæta afkomu. Þá eykst framboð á gæðaefnivið til nautakjötsframleiðslu auk þess að hafa ótvírætt gildi til þess að draga úr loftslagsspori nautgriparæktar. Slík verkefni, sem færa okkur nær mörgum markmiðum samtímis, eru ótvírætt þau bestu. Óbreytt ástand, sem skilar okkur sömu niðurstöðum á næsta ári og í fyrra er ekki spennandi framtíðarsýn.
Skynsamlegar fjárfestingar í framtíðinni
Á grundvelli aðgerðaráætlunar um eflingu kornræktar, samþykkti Alþingi fjármálaáætlun sem gerir ráð fyrir 2 milljarða framlögum á tímabili áætlunarinnar til þess að efla kornrækt á Íslandi. Umbætur á grundvelli þess sem lagt er til í skýrslunni eru í vinnslu og sumar hverjar hafa þegar komið til framkvæmda. Um fimmtíu bændur fá fyrirframgreiðslu á jarðræktarstuðningi líkt og auglýst var í upphafi þessa mánaðar. Þá verða þök á stuðningi afnumin á jarðræktarstyrk til kornræktar frá næsta ári í sam- ræmi við tillögur skýrslunnar.
Þá er unnið að því að bylta öllu kynbótastarfi í nytjaplöntum með samstarfi Landbúnaðarháskólans við erlenda aðila. Afurðir þess starfs munu berast til bænda á næstu árum og skapa traustan grunn fyrir frekari landvinningum kornræktar á Íslandi.
Á næstu mánuðum verður svo unnin vinna við að útfæra hvernig þeim tillögum sem lagðar voru til í skýrslunni Bleikum ökrum verður komið til framkvæmda nú þegar að fjármögnun þeirra er tryggð. Stofnfundir nokkurra kornsamlaga hafa þegar átt sér stað og greinilegur áhugi er meðal bænda á að taka þátt í uppbyggingu þessarar búgreinar. Enda eru tækifærin ótvíræð í íslenskum landbúnaði.