Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sjókvíaeldisstöð á Vestfjörðum. Í grein sinni segir Valdimar Ingi Gunnarsson meðal annars: ,,Laxeldisfyrirtæki eru í meirihlutaeigu Norðmanna og af hverju
 eru ekki sömu reglur hér á landi og í Noregi?“
Sjókvíaeldisstöð á Vestfjörðum. Í grein sinni segir Valdimar Ingi Gunnarsson meðal annars: ,,Laxeldisfyrirtæki eru í meirihlutaeigu Norðmanna og af hverju eru ekki sömu reglur hér á landi og í Noregi?“
Lesendarýni 30. júní 2022

Lög um fiskeldi og heilbrigðis- og skipulagsmál

Höfundur: Valdimar Ingi Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur og hefur m.a. unnið við ýmis mál tengd fiskeldi í rúm þrjátíu ár

Fyrir nokkrum árum síðan bentu erlendir sérfræðingar á að Íslendingar væru í öfundsverðri stöðu að skipuleggja sitt laxeldi.

Aftur á móti voru þau vinnubrögð viðhöfð hjá starfshópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi á árinu 2017 og síðan við setningu laga um fiskeldi árið 2019 að ekkert var tekið á heil- brigðis- og skipulagsmálum, sem er hvorki til hagsbóta fyrir Íslendinga eða íslenska náttúru.

Valdimar Ingi Gunnarsson
Dreifing á ISA veirunni

Undanfarið hefur komið fram í fjölmiðlum að það hafi myndast meinvirkt afbrigði af ISA veirunni við stökkbreytingu og smitað eldislax í sjókvíum hjá Fiskeldi Austfjarða í Reyðarfirði og hafi síðan flust með búnaði í Berufjörð.
Það sem virðist hafa gerst er að sýktur eldislax var fluttur með brunnbát frá Reyðarfirði yfir í Berufjörð til slátrunar. Í sömu höfn voru síðan bátar sem þjónustuðu sjókvíar í Berufirði sem líklega hafa borið smitið með sér í eldislax í sjókvíum í firðinum.

Samgangur virðist því hafa verið það mikill að veiran barst auðveldlega á milli eldissvæða.

Þegar þessi grein er skrifuð er ekki vitað til að smit hafi einnig borist í eldislax í Fáskrúðsfirði, og þá þannig að ISA veiran sé komin í öll eldissvæði á Austfjörðum.

Lærum ekki af mistökum annarra

Hér hefur Fiskeldi Austfjarða líklega orðið fyrir milljarða tjóni. Íslendingar eru að gera sömu mistök og gerð voru í Færeyjum og Síle þar sem átti sér stað algjört hrun í framleiðslu á eldislaxi vegna ISA veirunnar um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar.

Af hverju getum við ekkert lært af öðrum við uppbyggingu laxeldis á Íslandi? Svarið er eflaust að Fiskeldi Austfjarða með Guðmund Gíslason sem stjórnarformann og Kjartan Ólafsson, stjórnarformann Arnarlax, voru leiðandi aðilar í starfshópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun fyrir fiskeldi.

Ekkert var fjallað um heilbrigðismál í stefnumótunarskýrslunni. Það sem í raun gerðist var að umhverfismálunum var ýtt til hliðar til að halda kostnaði í lágmarki og í staðinn var öll áhersla lögð á að gera það mögulegt að fara með fyrirtækin á erlendan hlutabréfamarkað og ná þannig miklum fjárhagslegum ávinningi.

Skipulagsmál og heilbrigðismál

Undirritaður vann umhverfismat fyrir íslenskt fyrirtæki og var frummatsskýrslu skilað inn á árinu 2016. Þar voru tillögur gerðar um mótvægisaðgerðir til að lágmarka líkur á að smit bærist á milli svæða:

  • Skilgreining svæða: Skilgreind verði framleiðslusvæði þar sem samgangur á búnaði og eldisfiski verði ekki á milli svæða.
  • Flutningur seiða: Flutningur á seiðum verði framkvæmdur í lokuðum brunnbátum.
  • Flutningur sláturfisks: Laxfiskar úr sjókvíum til slátrunar verði ekki fluttir á milli framleiðslusvæða.

Sérfræðingar frá Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun lásu yfir frummatsskýrslu en tóku ekki undir þessar tillögur. Í áliti Skipulags- stofnunar er ekkert minnst á heilbrigðis- og skipulagsmál, þrátt fyrir að lagt væri til það sem best þekkist erlendis á þeim tíma.

Stofnanir heimsóttar

Í byrjun ársins 2017 var ljóst í hvert stefndi, að það átti að ýta umhverfismálunum til hliðar. Undirritaður ásamt öðrum aðila ákvað því að kynna tillögur íslensks félags í umhverfismálum, m.a. er varðar heilbrigðis- og skipulagsmál, fyrir stjórnmálamönnum og sérfræðingum stofnananna á árinu 2017:

  • Hinn 18. apríl var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótt.
  • Hinn 24. apríl voru sérfræðingar Umhverfisstofnunar heimsóttir.
  • Hinn 4. maí voru sérfræðingar umhverfis- og auðlindaráðuneytis heimsóttir.
  • Hinn 8. maí voru sérfræðingar Matvælastofnunar, Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar heimsóttir.

Jafnframt voru haldnar nokkrar kynningar með stjórnmálamönnum úr öllum flokkum á Alþingi.

Athugasemdir við fiskeldisfrumvarpið

Í athugasemdum undirritaðs við fiskeldisfrumvarpið á vorþingi 2019 er bent á að ,,heilbrigðismál eru vart nefnd á nafn í frumvarpinu þó svo að það sé stærsta viðfangsefni sjókvíaeldis í nágrannalöndum.

Eins og staðan er í dag eru ekki smitþröskuldar á milli fiskeldissvæða og því engar skýrar reglur um flutning á búnaði eða lifandi fisk milli svæða sem getur borið með sér sjúkdóma.

Í frumvarpinu er ekki minnst á smitþröskulda heldur tekið sérstaklega fram í greinargerð að ekki sé ástæða til þess að setja slíka þröskulda.“ Smitþröskuldum má líkja við sauðfjárvarnargirðingar í landbúnaði. Í athugasemdunum við fiskeldisfrumvarpið var aftur ítrekað mikilvægi mótvægisaðgerða, sem kynntar voru fyrir sérfræðingum stofnana og stjórnmálamönnum á árinu 2017.

Engir smitþröskuldar

Í greinargerð með fiskeldis- frumvarpinu var fjallað sérstaklega um smitþröskulda en þar kemur fram: ,,Við undirbúning frumvarpsins komu fram sjónarmið um að nauðsynlegt gæti verið, til að fyrirbyggja smit, að heimila uppsetningu svonefndra smitþröskulda í fiskeldi milli landsvæða. Með því væru t.d. reistar takmarkanir við flutningi hrogna eða seiða milli framleiðslusvæða.

Ekki þótti rétt að leggja þetta til með frumvarpinu, að höfðu samráði við Matvælastofnun, en til þess er að líta að dýralæknir fisksjúkdóma nýtur þegar ríkra heimilda til að grípa til aðgerða, telja hann á því þörf, auk þess að fiskeldi á Íslandi hefur byggst upp landfræðilega með þeim hætti að óraunhæft er að setja fyrirmæli um þetta í löggjöfina.“

Af einhverjum ástæðum er ekki fjallað um sláturfisk sem mesta hætta er að smit berist með.

Við vinnu stefnumótunarhópsins og síðan við skrif á frumvarpinu voru mótvægisaðgerðir, hvort sem um var að ræða heilbrigðis- og skipulagsmál eða annað, ekki í hávegum höfð.

Greinargerðir til alþingismanna

Hinn 20. maí 2019 var sendur tölvupóstur til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og allir alþingismenn fengu afrit.

Þar var óskað eftir að gerð væri opinber rannsókn vegna alvarlegra annmarka á vinnubrögðum starfs- hóps sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Með tölvupóstinum fylgdu ítarlegar greinargerðir:

  • Stefnumótunarskýrslan og vinnubrögðin
  • Athugasemdir við Áhættumat erfðablöndunar og tillögur að öðrum lausnum

Í greinargerðunum var að finna ítarlegri útskýringar á tillögum um heilbrigðis- og skipulagsmál. Lög um fiskeldi voru samþykkt frá Alþingi 20. júní 2019 og hefði e.t.v. ekkert komið í veg fyrir það, enda mjög öflugir íslenskir leppar sem stóðu hagsmunavörsluna með erlenda fjárfesta að bakhjarli.

Að lokum

Ef settar hefðu verið reglur eins og best þekkjast erlendis hefði eflaust verið hægt að koma í veg fyrir að smit bærist frá Reyðarfirði yfir í Berufjörð. Í framhaldi af tjóni vegna ISA veirunnar á Austfjörðum skipaði ráðherra starfshóp vegna smitvarna og sjúkdóma í laxeldi.

Það er e.t.v. ákveðin kaldhæðni í því að fulltrúar frá sömu stofnunum verða skipaðir í starfshópinn, sem tóku ekki undir tillögur sem kynntar voru á árunum 2017–2019. Nú er spurning hvort þessir aðilar leggi í það að taka á skipulagsóreiðunni og komi þannig í veg fyrir að það sama endurtaki sig á Vestfjörðum? Laxeldisfyrirtæki eru í meirihlutaeigu Norðmanna og af hverju eru ekki sömu reglur hér á landi og í Noregi?

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...