Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Þetta er Vörðuásinn sem var gróðurlaus, grýttur, brattur og þurr melur sem ekki hefði verið mögulegt fyrir okkur að rækta nema með lúpínu. Við beitum hann á haustin og það eru oftast 30–50 kindur þarna hvert sinn sem við rekum heim að haustinu.
Þetta er Vörðuásinn sem var gróðurlaus, grýttur, brattur og þurr melur sem ekki hefði verið mögulegt fyrir okkur að rækta nema með lúpínu. Við beitum hann á haustin og það eru oftast 30–50 kindur þarna hvert sinn sem við rekum heim að haustinu.
Lesendarýni 8. september 2016

Lúpínan - besti vinur bóndans

Höfundur: Gunnar Einarsson Daðastöðum
Við landnám var Ísland kjarri vaxið milli fjalls og fjöru. Við þurfum ekkert að efast um að koma okkar hingað í þetta viðkvæma umhverfi varð til þess að óblíð náttúruöflin fengu liðsauka við að eyða gróðri.
Það var ekki bara kjarrið sem hvarf og gróður sem eyddist heldur hrundi frjósemi þess landsins sem enn er gróið. 
 
Ég held að hér áður hafi bændur og ráðunautar fallið í þá gryfju mjög víða að ofmeta beitarþol. Það varð til þess að í sumum sveitum var byggt yfir fleira fé en var skynsamlegt miðað við ástand landsins. Fé fækkaði síðan mikið svo það hlýtur að vera undantekning og staðbundið ef það er allt of margt fé í dag. Það sem var enn verra hér áður er að við vanmátum möguleika landsins til að skila margfaldri uppskeru með því að gera við gróðurfarið og endurreisa frjósemina í það sem hún var.
 
Nú á að rýna í gömul gögn og mæla enn og aftur til að reikna út hversu stór gróðurauðlindin er í dag. Fyrrverandi landgræðslustjóri segir hreint út að mælingar á beitarþoli séu úrelt vísindi. Það kemur þannig ekkert annað út úr gömlum gögnum og nýjum mælingum en að landið er víða illa farið og hægt væri að margfalda uppskeru. 
 
Að gera landið betra en það nokkru sinni
 
Miklu líklegra til árangurs er að viðurkenna hversu gott Ísland er og setja stefnuna á að endurheimta fyrri landgæði, jafnvel gera landið betra en það nokkru sinni var. Ef við eigum gamlan ryðgaðan bíl sem við ætlum að halda gangfærum lengi enn þá verðum við að gera hræið upp. Við getum valið að gera eða gera ekki upp bíl en með Ísland er ekkert val. Ef við nálgumst verkefnið út frá þessu sjónarhorni, eltum gæðin, þarf að gera langtíma- og síðan skammtímaáætlanir um landbætur. 
 
Skógrækt hugsar 100 ár fram í tímann. Sauðfjárrækt á að gera það líka. Þannig að eftir 100 ár ætti Ísland að vera gósenland til beitar. Bæði fyrir miklu fleira fé en við höfum í dag og þar að auki gæti verið hér á landi öflugt holdanautaeldi mikið til byggt á beit eins og var hér fyrst eftir landnám. Hvert hlutfall mela er í dag á ákveðnu svæði skiptir ekki öllu máli. Melar eru jú möguleiki til að bæta landið. 
 
Nú er hjá mér allskonar land, bæði gott beitiland og líka ógrónir melar, ekki ósvipað og Íslandið okkar er mjög víða. Jörðin er um 7.000 hektarar (ha). Við höfum haft um 850 ær en höfum innan við 500 fullorðnar ær í dag. Ef landið væri allt eins og mig dreymir um að það verði, algróið með kjarri, skógi og opið land á milli, ætti sumarbeit 1.500 fjár og 150 nautgripa að vera í góðu lagi.
 
Til að skýra betur út frá hverju ég kemst að þessum niðurstöðum þá er best að byrja á móanum. Hér sunnan við bæinn er dalur, þar er birkiskógur, kjarr og mólendi. Inni í skóginum er mjög gott beitiland með grasi og blágresi. Utan við skóginn er krækiberjamóinn. Lyngið er þarna vegna þess að jarðvegurinn er ófrjósamur. Hann er uppskerulítill og það þarf varlega áætlað 5 ha af krækiberjamóa á móti 1 hektara af skóglendi fyrir tvílembuna. Birkið er í mikilli sókn út á móann. 
 
Þegar birkið nær sér á strik eykst frjósemi jarðvegs. Fyrst hverfur krækilyngið og bláberjalyng og gras taka við. Með tímanum og eftir því sem birkið vex verður grasið og blómjurtir ráðandi í skógarbotninum. Tegundum fækkar en uppskeran til beitar margfaldast. Birki og víðir eru hér mjög víða í sókn þannig að það blasir við að stór hluti af landinu hér um slóðir var viði vaxið og miklu frjósamara land en það er í dag. Eins og öðrum gróðri geta fylgt kjarrinu ýmis vandræði. 
 
Í dag eru til tæki sem tengja má við venjulega traktora sem tæta birki niður í spæni, jafn auðveldlega og á svipuðum hraða og eins og það tekur að tæta móa (wood mulchers). Það þarf að halda stígum opnum og það er engin ástæða til að skógurinn sé samfelldur. Móinn varð til vegna áníðslu og tekur gagngerum breytingum þegar landið batnar. 
 
Það eru til nokkrar leiðir til að breyta ógrónum melum og illa förnu gróðurlendi í frjósamt beitiland. Hvaða leið sem valin er til að gera land frjósamara mun gjörbreyta gróðurfarinu, jafnvel landslaginu. Við höfum prufað nokkrar leiðir við landgræðslu og af öðrum leiðum ólöstuðum hefur lúpínan sáð með grasfræi reynst áberandi langbest. Það kemur líka í ljós á gervitunglamyndum að það er fyrst og fremst þar sem lúpína hefur verið notuð að það sé hægt að sjá framfarir í gróðurfarinu.
 
Í grýttan jarðveg og rofabörð
 
Sem dæmi um hvernig við höfum notað lúpínuna ætla ég að taka Þjóstaðastykkið. Það er 80 ha. Þegar við byrjuðum var helmingurinn misgrýttir melar, helmingurinn móar frá velgrónum yfir í flagmóa. Móarnir voru í torfum með ótrúlega mörgum kílómetrum af rofabörðum.
 
Við girtum svæðið 1993 og létum jarðýtu ryðja niður börðunum. Landgræðslan sáði lúpínu með grasfræi og örlitlu af áburði í skárri helminginn af melunum og við sáðum með kastdreifara í grýttari helminginn og notuðum sand til að drýgja fræið. Svæðið var mikið til friðað í 5 ár. Það hefur síðan verið beitt einkum á haustin. Þó eru þarna alltaf 20–25 ær yfir mestan hluta sumars. Í dag er svæðið mikið til gróið, rofabörðin líka og melarnir sem áður voru ónýtir til beitar eru í dag úrvals beitiland og uppskeran í heild margföld miðað við það sem hún var. 
 
Uppskera í lúpínuökrum er á við áborin tún
 
Rannsóknir sýna að uppskera í lúpínuökrum er á við áborin tún (Rala 189). Kindurnar éta lúpínu en þurfa annan gróður með til að þrífast. Það er ekki síður og sums staðar miklu frekar allt grasið og annar gróður sem hefur komið með lúpínunni sem skapar beitina. Þegar líða tekur á haustið og kominn er snjór standa ærnar og naga eggjahvíturíka útsprungna belgina. Birki á afar erfitt með að fóta sig á ófrjósömum melum og ef það gerist vex það yfirleitt mjög hægt. Sú frjósemi sem kemur í melana með lúpínunni gerir öðrum íslenskum plöntum kleift að koma í kjölfarið. Einhver myndi vilja nefna kerfil sem vondan fylgifisk, en hann er betri fóðurjurt en lúpínan og verður ekki vandamál í sauðfjárhaga. 
 
Gróðurfarið í móunum er líka að breytast. Þeir eru að verða frjósamari. Það er meira gras í þeim og ýmsar íslenskar jurtir sem ekki sáust eru þarna í dag eins og til dæmis birki, loðvíðir og nokkrar tegundir blómjurta. Ef litið er á allt svæðið er gróðurfarið í dag fjölbreyttara en það var, þökk sé lúpínunni og þeirri ofgnótt beitar sem hún skapar. Við sem sauðfjárbændur gleðjumst nú að sjá tugir kinda dögum saman á sumum melanna þar sem varla nokkurn tíma stoppaði kind áður. Svo eru þeir til sem vilja ekki að lúpína sé notuð við þessar aðstæður.
 
Hefur sparað 16 milljóna króna virði af áburði
 
Við höfum ræktað mikið upp með fræi og áburði og getur það gefið ágætan árangur en ef við veltum fyrir okkur hvað mikið hefði þurft af fræi og áburði til að ná viðlíka frjósemi í þessa 40 ha og lúpínan hefur skilað þá hefði túnskammtur af áburði (400 kg/ha) í tíu ár ekki skilað jafn góðum árangri. Með dreifingu 40.000 kr x 40 ha x 10 ár = 16 milljónir sem lúpínan hefur sparað. Það liggur líka í augum uppi að lúpínuræktun er vistvæn ræktun. Áburðurinn er framleiddur með kolum og olíu, fluttur með ærnum kostnaði og mikilli olíu og síðan dreift með enn meiri kostnaði og olíu. Ef við ættum að ná frjósemi í alla okkar mela, 1600–2000 ha með fræi og áburði gæti þá reikningurinn litið svona út: 1600–2000 hax40.000kr.x10ár. = 640–800.000.000 kr. Fræ og áburður er mjög góð blanda til að rækta rofabörð og minni svæði en það verða alltaf takmörk á þeim peningum sem bændur hafa og geta fengið þannig að lúpínan ætti að vera fyrsta val ef við erum í alvöru að hugsa um að ná fram þeim beitargæðum sem Ísland getur boðið upp á. Í Rala 207 er gert mikið úr því að tegundum fækki þegar lúpínan ræktar landið. Það er til dæmis tekið dæmi af Ássandi sem fyrir lúpínuna voru 24 tegundir með mosum og öllu en aðeins 4% landsins gróið. Eftir að lúpínan hafði lokað landinu og það var 99% gróið voru tegundirnar 16. Það er þetta hugarfar að það sé vont að landið grói og verði frjósamt sem hluti náttúrufræðinga hefur sem við megum ekki gleypa sem sannindi. Þetta eru trúarbrögð sem lítil ef nokkur vísindi eru bak við. Við verðum að hugsa í lausnum sem duga á vandann. 
 
Hér er líka 20 ha melur, Klaufargerðismelurinn, sem við ræktuðum upp með lúpínu fyrir 20 árum. Það er kjarr og skógur í nokkurri fjarlægð en á milli lúpínunnar og skógarins er krækiberjamói. Þessi mói á ekki framtíðina fyrir sér. Ekki vegna þess að lúpínan sé að kaffæra hann heldur vegna þess að birkið er að taka hann yfir. Þarna verða engin krækiber þegar hin mjög svo ágenga tegund birki verður eftir nokkur ár orðin ráðandi tegund. Ef til vill ættum við að fá sjálfboðaliða til að tæta upp birkið svo landið haldist ófrjósamt til að krækiberin fái þrifist? Það er ekki líklegt að ekki verði nóg af krækiberjum á Íslandi en einhverjir verða sjálfsagt að fara á nýjar slóðir til að tína. Þar fyrir utan verður berjaflóran sífellt fjölbreyttari og meira af berjum, allskonar berjum, eftir því sem gróðurfar batnar.
 
Þegar úthverfi Reykjavíkur og nágrennis voru að byggjast um og eftir 1970 lamdi suðaustanáttin svo á húsunum að minnstu sprungur mígláku og rúður í gluggum dúuðu þannið að límt var á þær teip til að þær splundruðust ekki inn á gólf. Núna eftir að trén eru komin er vond austanátt eins og stíf gola. Mannvist er allt önnur. Það er og verður allt önnur mannvist og dýravist líka hér í sveitinni með trjám og kjarri. Án trjáræktar náum við aldrei hámarksuppskeru. Meiri skógur betra land. Ef það eru einhverjir sem ættu að vera í fararbroddi í skógrækt þá eru það sauðfjárbændur.
 
Ekki er allt sem sýnist
 
Verksmiðjuframleiðsla er að verða ráðandi í framleiðslu á kjöti í heiminum. Í bókinni „Farmageddon - The true cost of cheap meat“ kemur mjög vel fram að kjöt sem framleitt er í verksmiðjum er oftast í raun miklu dýrara í framleiðslu en verðmiðinn í súpermörkuðunum segir. Þessi framleiðsla er oftar en ekki langt frá að vera sjálfbær. Það kemur að því að þjóðir heims neyðast til að breyta þessum framleiðsluaðferðum sem eru að rýra landkosti og eitra mannvist stórra hópa til að framleiða óholla vöru (bókin er til á Amazon). 
 
Sauðfjárrækt dagsins í dag á ekki bara að snúast um að framleiða kindakjöt heldur ekki síður um að bæta landið og búa það undir framtíðina. Þótt þær aðferðir sem við notum í dag eins og að sá lúpínu, planta trjám, sá fræi og áburði, notkun á moði og búfjáráburði gefi oft ágætan árangur, þá er án nokkurs vafa hægt að stórbæta árangur með rannsóknum og þróun tæknibúnaðar. Þeim peningum sem nú á að verja í að meta eymdina væri betur varið í að þróa ódýrari og skilvirkari aðferðir til að gera Ísland upp. 
 
Markvissar aðgerðir skapa töfra
 
Því er stundum haldið fram að nóg sé að friða land fyrir beit og þá breytist melar og móar í draum eigandans. Vissulega getur friðun breytt miklu og er sums staðar sjálfsögð en oft gerist lítið áratugum saman þótt land sé friðað. Þegar saman fer friðun og markvissar aðgerðir eins og að sá lúpínu og planta skógi gerast töfrar. Hvort einhverjir melar þurfi að bíða nokkra áratugi er aukaatriði ef það er í gangi áætlun sem nær til þeirra innan nokkurra áratuga. Það er mikilvægara að halda landinu í byggð til að flýta fyrir uppgræðslu. 
 
Útflutningi á kindakjöti á verði sem skilar bóndanum lægra verði en bændur t.d. í Skotlandi fá fyrir sitt kjöt, ætti að hætta strax og nota stuðninginn, sem fer í þennan útflutning, frekar í að undirbúa landið fyrir framtíðina. 
 
Gunnar Einarsson
Daðastöðum

Skylt efni: uppgræðsla | lúpína

Leshópar – Jafningjafræðsla
Lesendarýni 16. janúar 2025

Leshópar – Jafningjafræðsla

Ein yngsta grein landbúnaðar hér á landi er skógrækt. Bændur vítt og breitt um l...

Gervivísindi og fataleysi?
Lesendarýni 15. janúar 2025

Gervivísindi og fataleysi?

Lengi hef ég fylgst allnáið með þróun mála í fiskveiðum, stjórn þeirra, ráðgjöf ...

Strengdir þú nýársheit?
Lesendarýni 10. janúar 2025

Strengdir þú nýársheit?

Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um hei...

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Lesendarýni 8. janúar 2025

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám

Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildand...

Loftslagsmál og orka
Lesendarýni 7. janúar 2025

Loftslagsmál og orka

Í Bændablaðinu þ. 7. nóvember er fjallað um áform um uppbyggingu vindmyllugarðs ...

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...