Merk starfsemi við Bodenvatn
Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja með áhugaverða og merka sögu og nefnist hún Reichenau.
Þar var á miðöldum mjög þekkt klaustur sem stofnað var árið 724 og þar var starfandi klaustur lengur en tíu aldir, eða til ársins 1757, en þá var klaustrið leyst upp. Byggingarnar hafa varðveist mjög vel og eru í dag undir vernd UNESCO.
Pílagrímar frá Norðurlöndum gistu oft í klaustrinu í pílagrímaferðum sínum til Vatíkansins í Róm. Í þessu gamla klaustri í Reichenau við Bodenvatnið höfðu munkar snemma komið þeirri góðu venju á að skrásetja nöfn pílagríma þeirra er gistu hjá þeim. Skrá yfir þá er enn til, og á henni eru nöfn 39 íslenskra pílagríma frá 11. öld og meðal þeirra eru ellefu konur. Má lesa nöfnin í 1. bindi Fornbréfasafns, bls. 170–172. Af þessu sést hversu tíðar þessar pílagrímsferðir hafa verið jafnvel svo snemma á miðöldum, því að íslenskir pílagrímar fóru einnig ýmsar aðrar leiðir til Rómaborgar er sjá má af ferðamannahandbók pílagríma eftir Nikulás, íslenskan ábóta (látinn 1159) sem enn er til.
Í dag er þetta gamla klaustur mjög fagur staður og að sama skapi vinsæll meðal ferðafólks. Í því voru lengi vel varðveitt ekki aðeins gestabækur heldur ýmis handrit önnur sem og munir frá miðöldum. Meðal þessara muna er uppdráttur um fyrirmyndarklaustrið sem aldrei var reist. Þessi uppdráttur hefur varðveist vel á pergamentskinni og er 77,5 x 112 cm að stærð. Handrit þetta er talið vera frá fyrri hluta 9. aldar og ekki yngra en 830 eftir Krist og er þar með elsti varðveitti uppdráttur sem tengist arkitektúr í Þýskalandi. Sýnir uppdrátturinn 52 byggingar og önnur mannvirki.
Fyrir allnokkrum árum kom hópur áhugamanna og fræðimanna saman og ákváðu að byggja þetta klaustur með þennan gamla uppdrátt í huga og töldu þeir að nokkra áratugi tæki að byggja það, enda reynir mikið á þolinmæði og gott úthald. Sunnarlega í Þýskalandi, nokkru norðan við vesturenda Bodenvatn, við þorpið Messkirch var ákveðið að hefjast handa.
Í haust sem leið átti ég ásamt fjölskyldu minni leið um þetta áhugaverða byggingasvæði sem eru nokkrir hektarar að stærð og er þar nægt landrými.
Þetta starf er unnið í sjálfboðavinnu þar sem eldri iðnaðarmenn kenna þeim yngri sérsvið sitt. Þá er þeim sem eru á herskyldualdri gefinn kostur á að taka þátt í þessu starfi undir leiðsögn þeirra eldri og kemur þá þetta starf í stað herskyldu. Allir, bæði þeir sem eldri eru og þeir sem yngri eru, konur og karlar, klæðast klæðnaði eins og tíðkaðist á miðöldum og hafa handverkfæri eins og þá voru notuð. Nútíma rafmagnsvélar og önnur verkfæri sem þykja sjálfsögð í dag eru hvergi sjáanleg, enda er til þess ætlast að þessi mannvirki séu eins ekta í stíl við miðaldir og unnt er. Þarna má ganga á milli handverksfólksins og sjá gömul vinnubrögð unnin af handverksfólki sem hefur sett sig vel inn í þessa horfnu tíma. Þarna mátti sjá handverk af öllu mögulegu tagi þar sem framleidd voru byggingarefni af ýmsu tagi. Trésmiðir móta timburborð til húsagerðar, stórir trjábolir eru ýmist klofnir eða sagaðir og mótaðir eftir því sem þörf er á, hvort sem er í burðarstoðir, klæðningu utan húss sem innan eða í þök. Þakskífur úr timbri eru útbúnar sérstaklega og er það hlutverk kvenna að kljúfa og stílsniða úr vel völdum tilsniðnum timburbolum. Endingartími þak skífnanna er allt að heilli öld en þá er þakið rifið en þakskífurnar má nota allt að fjórum sinnum við endurgerð þaksins. Áhugavert er hversu mikil natni er sýnd öllum þessum verkum og snyrtimennska höfð í hávegum.
Þarna mátti líta við í fatagerð þar sem ull var unnin og þráður spunninn. Og þarna var vefstóll sem minnti nokkuð á kljásteinavefstólinn sem við þekkjum á Þjóðminjasafninu okkar. Matargerð miðast öll við daglegt fæði á miðöldum.
Við litum inn í járnsmiðju þar sem hörkuduglegir handverksmenn voru við smíðar áhalda og sitthvað annars sem þarfnast til bygginga. Og litið var inn til bakarans og matargerðarfólks en í þessu þorpi er veitingastaður þar sem unnt var að fá rétti eins og þeir voru tilreiddir á miðöldum.
Þarna var unnt að gleyma sér heilan dag og fylgjast með vinnubrögðunum og auðvitað mátti inna spurninga sem svarað var jafnóðum og fólk rétti úr sér.
Eina sem minnti okkur á nútímann var afgreiðslan þar sem aðgöngumiðar eru seldir sem og hreinlætisaðstaða. Við innganginn er unnt að sjá heimildakvikmyndir um þetta starf í sérstakri byggingu.
Þeir lesendur Bændablaðsins sem vilja kynna sér þetta betur má vísa á vefsíðuna campusgalli.de.
Skammt frá þessari merku byggingarstarfsemi eru upptök Dónár sem á upptök sín í Þýskalandi og fellur um allmörg lönd Evrópu uns þetta rómantíska fljót, sem hefur verið mörgum skáldum, rithöfundum og tónskáldum yrkisefni, fellur í Svartahaf.
Á einum stað fellur ein af efstu upptakakvíslum þess um djúpt og hrikalegt gljúfur.