Sérstaða Íslands – hreinleiki
Höfundur: Líneik Anna Sævarsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir.
Bann við innflutningi hrás kjöts og sóttvarnir landsins snúast um sérstöðu Íslands til framtíðar. Framtíðarhagsmunir íslensks samfélags eru undir (lýðheilsa og búfjárstofnar), þeir hagsmunir eru miklu stærri, en hagsmunir einstakra stétta í nútíðinni. Samningar og lög eru mannanna verk sem hægt er að breyta, en ef sérstaða landsins tapast verður hún ekki auðveldlega endurheimt.
Nú hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birt drög að frumvarpi til að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins, um innflutningstakmarkanir á fersku kjöti til landsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimildum til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum eggjum. Frumvarpið hefur hvorki verið lagt fyrir ríkisstjórn eða stjórnarflokka. Það er enn í vinnslu hjá ráðuneyti en opnað hefur verið á samráð um frumvarpið í gegnum samráðsgátt stjórnvalda.
Samhliða hafa stjórnvöld nú kynnt aðgerðaáætlun sína sem ætlað er að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Mótvægisaðgerðirnar eru allar þýðingarmiklar og eiga fullan rétt á sér óháð breytingum á lögum. Eigi þessar aðgerðir hins vegar að skila árangri verður að gefast lengri tíma en nokkrir mánuðir til að innleiða þær. Aðgerðirnar verða að komast hratt í fulla virkni og það áður en frekari breytingar verða á innflutningstakmörkunum.
Ekki gefast upp
Með samþykkt á óbreyttu frumvarpi værum við sem sjálfstæð þjóð að gefast upp fyrir reglum sem settar voru án þess að næg þekking á mögulegum áhrifum væri til staðar. Lykilatriði er að fram fari ítarlegt áhættumat, sem taki bæði á áhrifum breytinganna á Íslandi og þýðingu hreinleika Íslands fyrir lýðheilsu á heimsvísu.
Með því að leyfa innflutning á hráu kjöti án þess tímafrests sem leiðir af frystiskyldunni værum við að gera vafasama tilraun með lýðheilsu þjóðarinnar. Þar fyrir utan væri tilraun með búfjárstofna en við vitum aldrei hvernig erfðauðlindin sem í þeim liggur getur komið að notum. Þeir sem tala fyrir óheftum innflutningi á kjöti benda á að það geti skilað sér í lægra matvöruverði. Hagsmunir neytenda snúast um fleira en verð á matinn og hvað sé í matinn, það skiptir alltaf mestu hvað er í matnum.
Okkur ber skylda til að halda uppi vörnum fyrir sérstöðu okkar sem felst m.a. í tiltölulega mjög lítilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði og lágri tíðni sýklalyfjaónæmra baktería í fólki. Heimurinn allur þarf að verjast þeirri ógn sem blasir við vegna vaxandi sýklalyfjaónæmis. Það hefur verið sýnt fram á ótrúlega mikla fylgni milli neyslu matvæla þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði er mikil og tíðni sýklalyfjaónæmra baktería í fólki. Þessir hagsmunir eru mannkyninu dýrmætir, ekki síður en hreinleiki lofts og vatns.
Hagsmunir í húfi
Þetta er stórt pólitískt mál og miklir hagsmunir í húfi. Því þurfa íslenskir ráðamenn að stíga fast til jarðar og eiga samtöl við þá sem stýra Evrópusambandinu. Dómur EFTA er unninn út frá gildandi lögum og reglum og niðurstaðan fengin frá þeim sem vinna samkvæmt þeim. Ef ná þarf fram breytingum þurfa stjórnmálamenn að ræða við þá sem hafa áhrif á endurskoðun laga og reglna en ekki eingöngu þá sem framfylgja þeim.
Stjórnvöld verða að óska eftir lengra svigrúmi til innleiðingar, aðlögun og raunverulegar varnir taka tíma. Samtímis gæfist tækifæri til að gera ítarlegt áhættumat á afleiðingum breyttra innflutningsreglna fyrir Ísland og Evrópu sem heild. Þá gætu skapast forsendur til að endurskoða reglur með heildarhagsmuni í huga. Fyrir þessu þurfa stjórnmálamenn að beita sér með samtali við aðra stjórnmálamenn. Það getur ekki verið vilji Evrópusambandsbúa að við Íslendingar verðum gerð að tilraunadýrum í þessum efnum.
Sérstaða okkar er ekki okkar einkamál, hún hefur þýðingu á heimsvísu.
Halla Signý Kristjánsdóttir
Líneik Anna Sævarsdóttir
þingmenn Framsóknarflokksins