Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Í landi Hvamms í Skorradal. Myndin var tekin skömmu fyrir síðustu jól. Sjá má vel gróinn veg og í grasinu má greina sjálfsáðar trjáplöntur, mest stafafuru.
Í landi Hvamms í Skorradal. Myndin var tekin skömmu fyrir síðustu jól. Sjá má vel gróinn veg og í grasinu má greina sjálfsáðar trjáplöntur, mest stafafuru.
Lesendarýni 27. febrúar 2019

Skógrækt er skemmtileg tómstundaiðja

Höfundur: Guðjón Jensson
Ræktun trjáa er ein af skemmti­legustu tómstundum sem unnt er að finna sér í lífinu. Einstaklega ánægjulegt er að vinna með þeim yngri og glæða áhuga þeirra fyrir lífsstarfsemi þessara mikilvægu lífvera í umhverfi okkar sem taka nokkurn tíma að dafna og þroskast.
 
Fyrir meira en hálfri öld setti eg fyrstu trjáplönturnar mínar niður. Foreldrar mínir höfðu keypt um miðjan sjöunda áratug dálitla spildu í landi Vatnsenda innan lögsagnarumdæmis Kópavogs. Mikið var ég stoltur af þessum trjáplöntum sem voru keyptar í gróðrarstöð og var plantað í þráðbeina röð meðfram girðingunni um austanverða spilduna sem var einungis 1500 fermetrar. Faðir minn fékk bóndann á Vatnsenda eða einhvern á hans vegum til að plægja upp lungann af norðanverðri spildunni og þar ræktuðum við rófur og kartöflur nokkur sumur. Þetta var mikið ævintýri fyrir mig enda var ég á þessum árum mjög áhugasamur um alla ræktun eftir að hafa verið þrjú sumur í sveit, eitt sumar vestur í Arnarfirði og önnur tvö á sama bæ austur í Hreppum. Á þeim bæ las ég nánast allt sem varðaði landbúnað og ég rakst á og drakk í mig mikilvægan fróðleik. Ótalmarga árganga af landbúnaðarritinu Frey sem og Fræðslurit Búnaðarfélagsins um hin margvíslegu efni urðu til að auka áhuga minn fyrir ræktun. Þetta var mjög skemmtilegt enda mjög mikið um nytsaman fróðleik um nánast allt frá ræktun kartaflna og val hrúta sem og góð ráð við tilhleypingar. Og þarna var töluvert um grastegundir og góð ráð við að ná góðum árangri. Og í Frey voru ótalmargar greinar um nýjungar í landbúnaði og á Suðurlandi voru á þessum árum miklar vonir bundnar við súgþurrkun. Tómstundir milli verkefna og anna voru gjörnýttar til lestrar þá rigningar gengu yfir sem ekki eru óalgengar á Suðurlandi enda þar mörg regnplássin.
 
Oft fór ég á reiðhjólinu mínu úr Hlíðunum þar sem ég bjó ásamt foreldrum og systkinum mínum, annaðhvort inn Sogaveginn eða Bústaðaveginn og þaðan um Blesugrófina og áfram Útvarpsstöðvarveginn sem lá beina stefnu á sendimöstrin efst á Vatnsendahvarfi. Nokkru neðan við það sveigði malarvegurinn skáhallt í átt að Rjúpnahæð og áfram niður í átt að Kjóavöllum. Þar voru vegamót þar sem eystri leiðin var meðfram og ofan Elliðavatns í átt að Árbæjarhverfinu en sú vestari í átt að Vífilsstöðum og Vífilsstaðavatni. Við sunnanverð þessara vegamóta var spilda foreldra minna og bar númerið 240 í landi Vatnsenda. Þetta var skammt norðan við stóra íþróttahúsið sem nú má sjá, ekki langt frá Guðmundarlundi. Því miður var öllu mokað burt, girðingum, húsum sem og gróðri enda stóð mikið til á árunum kringum aldamótin í Kópavogi og mikið byggt.
 
Innan sömu girðingar í þessari spildu var önnur jafnstór og þar var einnig mikill áhugamaður um garð- og trjárækt. En einn góðan veðurdag var kominn þangað maður í litla gráa húsið og hafði önnur áhugamál og verkefni. Þar var kominn Steinar Sigurjónsson rithöfundur og var nokkuð fyrir brennivínið enda ritaði hann í húsinu skáldsöguna „Blandað í svartan dauðann“ og er það önnur saga.
 
II
 
Þó svona færi með fyrstu tilraunina mína til trjáræktar í landi Kópavogs sem lauk á fremur dapurlegan hátt var ekkert til fyrirstöðu að vera áfram við þessa skemmtilegu tómstund þó allmörg ár liðu uns þráðurinn var tekinn upp að nýju. Í ársbyrjun 1983 flutti ég ásamt maka mínum nýgift í Mosfellsbæ. Þar höfum við búið allar götur síðan, alltaf á sama stað í fremur litlu en fallegu raðhúsi með ofurlitlum garði. Við vorum næstu áratugina mjög virk sem sjálfboðaliðar í ræktunarstarfi á vegum Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Á hverju vori tókum við þátt í að planta þúsundum trjáplantna sem nú prýða vestanvert Úlfarsfell og víðar eins og við Fossá í Hvalfirði sem skógræktarfélagið okkar átti hluta í ásamt öðrum skógræktarfélögum. Hugur okkar hjóna var ætíð bundinn mjög við að bæta landið með dálitlu vinnuframlagi okkar. Konan mín var af góðu ræktunarfólki í Þýskalandi komin og þessi sameiginlegu áhugamál voru okkur mjög mikilvæg og ánægjuleg ásamt börnunum okkar sem nú eru komin á fertugsaldur. En eftir nær tveggja áratuga sjálfboðaliðastarf ákváðum við vorið 2002 að festa kaup á spildu í landi Hvamms í Skorradal sem þá var til sölu.
 
Meðfylgjandi mynd er tekin nú skömmu fyrir síðustu jól. Sjá má vel gróinn veg og í grasinu má greina sjálfsáðar trjáplöntur, mest stafafuru.
 
Vegurinn var lagður sumarið 2002, eða fyrir rúmum 16 árum. Þá voru stafafururnar sem fjærst eru á myndinni töluvert lægri. En þeim hafði verið plantað á vegum Skógræktarinnar nokkrum áratugum áður meðfram nýgröfnum skurði sem grafinn hafði verið gegnum hallandi mýrlendi sem er í landi Hvamms við norðanvert Skorradalsvatn. Aðstæður þarna við norðanvert Skorradalsvatn er um 2ja metra þykk mýri og þar undir er ófrjór jökulruðningur. Jarðklaki nær sjaldan langt niður en fer tiltölulega snemma á vorin. Kjörnar aðstæður fyrir trjárækt enda hafa þær dafnað einstaklega vel.
 
Nokkrum árum eftir að vegurinn hafði verið lagður fór að bera á að sjálfsánar trjáplöntur festu rætur af fræjum sem féllu þar niður af stóru stafafurunum handan skurðarins. Flutningur trjáa er alltaf vandmeðfarinn og því þarf sérstaklega að huga vel að lágmarka hnjask og þá sérstaklega að rótarkerfið sé sem heillegast og verði ætíð í raka meðan á flutningi stendur. Jafnskjótt og klaki hefur farið úr jörðu hef ég grafið þessar sjálfsánu trjáplöntur á hverju vori upp með rótum og flyt í annað land þar sem nóg er rýmið. Þar hef ég haft þann háttinn á að fylla hjólbörur að hálfu af fínlegum leir úr skurðinum og legg ræturnar jafnóðum þar. Þá hafa plönturnar tækifæri til að draga í sig mikið af vatni og næringarefnum. Þegar þessu er lokið er flutningur suður undirbúinn og hef ég notast við hæfilega stórar fötur úr Múrbúðinni og læt dálítið af rökum leir með til að koma í veg fyrir að ræturnar þorni en þá er auðvitað voðinn vís.
 
Eftir flutning suður í aðra spildu þá er komið að því að planta og hef ég allt að tvo metra milli trjáplantna enda getur stafafuran orðið að stóru og vaxtarlegu tréi gangi allt að óskum. Er nú svo komið að eftir nokkur vor er þessi viðbótaraukning skógarins míns komin í nokkra hektara og vænti ég þess að þar verði smám saman verðmætur skógur.
 
Reynslusaga frá Svíþjóð
 
Stafafuran er í dag verðmætasta trjátegundin í sænskum skógum. Nytjaskógrækt miðast við að velja verðmætustu tegundirnar sem gefa bæði af sér góðan og vandaðan við. En umfram allt er stafafuran sem er tiltölulega fljótvaxin og vex hraðar en rauðgrenið sem er upprunaleg trjátegund og sú algengasta í Skandinavíu. Og vöxturinn verður að vera góður og reynslan af trjátegundinni góð. Er nú svo komið hjá Svíum að stafafura er einna mest plantaða trjátegundin t.d. hjá MoDoSkog sem er langstærsta fyrirtækið í sænskum timburiðnaði. Sem dæmi má nefna að í sænskum timburiðnaði er stafafuran orðin verðmætasta trjátegundin og hefur þokað rauðgreninu frá að vera verðmætasta trjátegundin. Rekur þetta stóra fyrirtæki starfsemi allt frá gróðrarstöðum og sögunarmyllum til pappírsframleiðslu og prentsmiðja. 
 
Við vorum nokkrir Íslendingar sem nutum boðs stjórnenda MoDoSkog til Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta að héðan kæmu allt að 8 Íslendingar, félagar í Skógræktarfélagi Íslands. Við vorum fimm sem þáðum þetta mikilvæga boð og kynntum okkur starfsemi þessa fyrirtækis vorið 1993. Við fórum víða um skóga Svíþjóðar um 300 km norður af Stokkhómi og kynntumst við sænskum timburiðnaði frá fræi til fullunninna afurða. Var ótrúlegt að sjá stórtækar vélar vinna í náttúrunni þar sem jarðvegur var undirbúinn fyrir plöntun. Í fyrsta skipti sá ég sérstaka plöntustafi sem hafa verið nefndar gysjur. Skógariðnaður er mjög mikilvægur í sænsku efnahagslífi og mættum við Íslendingar læra margt af Svíum. Við eru nánst rétt komin yfir byrjunarreit hvað skógarnytjar varða. Þessi ferð var okkur öllum mjög eftirminnileg og má lesa um þá för í Ársriti Skógræktarfélags Íslands það ár. Það má sjá á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands: www.skog.is  - Útgáfa - Skógræktarritið. Því miður er Skógræktarritið ekki enn komið á timarit.is.
 
Á Íslandi gætum við með aukinni skógrækt komið okkur upp mjög verðmætum skógum enda er Ísland í miðju barrskógabeltinu svo undarlegt sem það er og kemur líklega mörgum á óvart. En það voru landfræðilegar ástæður sem stóðu í vegi fyrir því að hingað til lands barst ekkert af fræjum barrtrjáa eftir ísöldina. Atlantshafið var einfaldlega of breitt að hvorki vindur né fuglar himinsins gátu borið hingað fræ. Það gerist fyrst og fremst eftir heimsstyrjöldina síðari að hér hefst skógrækt. Fyrstu árin var eiginlega mikilvæg tilraunastarfsemi í skógrækt en um miðja öldina var ljóst að hér eru kjöraðstæður fyrir mjög margar trjátegundir. 
 
Meira síðar.
Guðjón Jensson

Skylt efni: Skógrækt

Leshópar – Jafningjafræðsla
Lesendarýni 16. janúar 2025

Leshópar – Jafningjafræðsla

Ein yngsta grein landbúnaðar hér á landi er skógrækt. Bændur vítt og breitt um l...

Gervivísindi og fataleysi?
Lesendarýni 15. janúar 2025

Gervivísindi og fataleysi?

Lengi hef ég fylgst allnáið með þróun mála í fiskveiðum, stjórn þeirra, ráðgjöf ...

Strengdir þú nýársheit?
Lesendarýni 10. janúar 2025

Strengdir þú nýársheit?

Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um hei...

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Lesendarýni 8. janúar 2025

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám

Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildand...

Loftslagsmál og orka
Lesendarýni 7. janúar 2025

Loftslagsmál og orka

Í Bændablaðinu þ. 7. nóvember er fjallað um áform um uppbyggingu vindmyllugarðs ...

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...