Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Til varnar frumvarpi um hálendisþjóðgarð
Mynd / Bbl
Lesendarýni 24. febrúar 2021

Til varnar frumvarpi um hálendisþjóðgarð

Höfundur: Guðjón Jensson

Í Bændablaðinu sem kom út fimmtudaginn 28. janúar sl. segir frá andstöðu Bláskógabyggðar við frumvarp um hálendisþjóðgarð. Ýmsar fullyrðingar eru settar þar fram sem verður að segja sem er að eru annaðhvort byggðar á misskilningi eða eru settar fram gegn betri vitund um staðreyndir. Byggt er á því sjónarmiði að þetta frumvarp feli í sér yfirtöku á eignarrétti og ráðstöfun hans.

Lítum aðeins betur á þetta.

Hvað felst í eignarrétti?

Eignarréttur getur verið mismunandi, annars vegar beinn eignarréttur sem felur í sér algjör yfirráð tiltekins landsvæðis eða hins vegar þegar eignarréttur er takmarkaður og hefur verið m.a. nefnd sem ítök í landi sem öðrum tilheyrir. Það kemur fram í rétti með einhver tiltekin afnot lands í huga eins og rétt til veiða, beitar, berjatínslu, skógarnytja, vatnstöku eða einhver önnur takmörkuð not sem fela í sér einhver tiltekin ítök.

Margsinnis hefur verið rætt um þennan mismun og er rétt að benda á rit dr. Gauks Jörundarsonar um þetta efni. Gaukur var lengi vel okkar helsti sérfræðingur og fræðimaður á sviði eignarréttar. Má benda á doktorsrit hans um eignarrétt og síðar kennslurit um sama efni. Sveitarstjórnir hafa fyrst og fremst haft forgöngu um ákveðin afnot lands t.d. sumarbeit hrossa og sauðfjár á afréttum. Þessi mál með eignarréttinn hafa að mestu verið útkljáð með úrskurðum Óbyggðanefndar og niðurstöðum Hæstaréttar þar sem deilum um eignarrétt hefir verið skotið til dómstóla. Eru því yfirstjórn hálendisins fyrst og fremst bundin við þennan takmarkaða eignarrétt hálendisins en felst ekki með óskoruðum eignarrétti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjóðgarðinum verði skipt í 6 hluta og eiga sveitarfélög innan hvers hluta að hafa yfirstjórn á því svæði.

Á það hefur verið bent að sveitarstjórnir verði að deila skipulagsvaldi sínu og þar með yfirráðum með öðrum sveitarstjórnum. Við þetta ber að athuga að þarna er í raun verið að bæta lýðræðisleg vinnubrögð enda er rétt að líta á hálendið meira sem eina heild fremur en að því sé skipt eftir einhverjum línum sem tilheyrir fremur eldri sjónarmiðum. Í dag ber okkur að taka tillit til annarra aðilja hvort sem eru einstaklingar, sveitarfélög eða allt samfélagið. Því miður er misbrestur á þessu, má til dæmis benda á að í nokkrum sveitarfélögum eru eigendur frístundahúsa algjörlega utan við ákvarðanatöku innan viðkomandi sveitarfélags enda þótt megintekjur þessara sömu sveitarfélaga séu fasteignagjöld af þessum sömu húsum.

Þjóðgarðshugmyndin kemur frá Bandaríkjunum

Fyrstu þjóðgarðar heims voru stofnaðir fyrir nálægt hálfri annarri öld. Yellowstone þjóðgarðurinn var stofnaður 1872 og í tímaritinu Fálkinn segir frá honum árið 1929 og lesa má hér: https://timarit.is/files/13606128.

Það verður að segja sem er að með stofnun þjóðgarða vestanhafs var tekið mjög skynsamlegt skref til að varðveita náttúru viðkomandi landsvæðis. Nú veit eg ekki hvort sveitarstjórnarfólkið í Bláskógabyggð hafi komið í bandarískan þjóðgarð og kynnt sér þessi mál. Mér þykir gagnrýni sveitarstjórnarinnar á frumvarpinu um Bláskógabyggð vera sem viðhorf eldri tíma.

Þjóðgarðsfrumvarpið 1928

Senn er öld liðin frá því að við Íslendingar fengum okkar fyrsta þjóðgarð. Nú má skoða á heimasíðu Alþingis þingskjöl og ræður frá þinginu 1928. Frumvarpið um þjóðgarð á Þingvelli má lesa á þessari slóð: https://www.althingi.is/altext/pdf/40/s/0023.pdf.

Þess má geta að framsögumaður þessa þingmáls var Jónas frá Hriflu. Áhugavert er að allur þingheimur var fylgjandi þessari hugmynd en komu með nokkrar tillögur um breytingar sem flestar voru samþykktar.

Fróðlegt er að bera saman þessi tvö frumvörp um friðun Þingvalla frá 1928 og frumvarpinu um hálendisþjóðgarðinn.

Meira af gagnrýni

Lítum á þessa setningu sem gripin er úr Vísi 4. apríl 1928:

Eg er því algerlega mótfallinn, að þetta fyrirhugaða þjóðgarðsbákn komist á, því að mín skoðun er sú, að það komi að engu haldi og að þjóðin hafi ekki efni á að koma garðinum upp og halda honum við.

Heimild: https://timarit.is/files/14435343


Hljómar þetta ekki nokkuð kunn­uglega í dag? Þessi sömu viðhorf vaða uppi í dag og eru nákvæmlega þau sömu og tíðkast nú nærri einni öld síðar. Já, sagan endurtekur sig, er haft eftir Tryggva Þórhallssyni.

Reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði

Austur á Höfn í Hornafirði hefur sveitarstjórnin tekið vel í þetta málefni en með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs urðu til nokkrir tugir starfa þar í héraðinu. Fjöldinn allur af ungu fólki hefur snúið aftur heim á æskuslóðir sínar eftir að afla sér menntunar og starfa núna við ýmis störf við þjóðgarðinn. Því er mikil von að innviðir heimabyggða verði traustari og í framtíðinni megi vænta að sífellt fleiri störf verði til. Það er beinlínis rangt að halda því fram að allt frumkvæði komi af höfuðborgarsvæðinu. Í raun hefur það enga aðkomu að stjórnun þjóðgarðsins nema að litlu leyti.

Ég leyfi mér að hvetja þær sveitarstjórnir sem fram að þessu hafa sett sig á móti frumvarpinu um hálendisþjóðgarðinn að skoða betur þetta mál. Rökin gegn þjóðgarðinum geta vart verið talin í takt við tímann.

Guðjón Jensson,
leiðsögumaður og
eldri borgari í Mosfellsbæ

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...

Kosningar
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Kosningar

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mik...

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...

Verum til vinstri – verndum náttúruna
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Verum til vinstri – verndum náttúruna

Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gæt...

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigr...

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best

Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera ...

Landbúnaður í velsældarhagkerfi
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Landbúnaður í velsældarhagkerfi

Landbúnaður í heiminum öllum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í ræ...