Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Allt á floti í Eldhrauni fimm vikum eftir Skaftárhlaup. Eftir margra mánaða úrkomuleysi voru lækir þurrir í Skaftárhreppi í júlí.
Allt á floti í Eldhrauni fimm vikum eftir Skaftárhlaup. Eftir margra mánaða úrkomuleysi voru lækir þurrir í Skaftárhreppi í júlí.
Mynd / Þórir N. Kjartansson
Lesendarýni 12. ágúst 2016

Vatnsþurrð í lækjum í Landbroti

Höfundur: Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri.
Í byrjun október 2015 rann lang­stærsta Skaftárlaup sem vitað er um og flæddi yfir afar stór svæði í Eldhrauni og olli miklu tjóni á varnargörðum og grónu landi. Samt sem áður fór að bera á vatnsskorti síðastliðið vor í lækjunum, sem koma undan Eldhrauni, aðeins nokkrum mánuðum seinna. Þessi vatnsþurrð hefur öðru hvoru verið vandamál á þessum slóðum í að minnsta kosti heila öld – en hvað veldur? 
 
Úrkoma og áveitur
 
Úrkoma síðastliðið vor og snemmsumars var sú minnsta sem mælst hefur á Kirkjubæjarklaustri. Frá því sagði Einar Sveinbjörnsson í útvarpsfréttum 12. júlí. Þornuðu þá lækir víða í Skaftafellssýslu, ekki bara þeir sem undan Eldhrauninu koma. Í öðru lagi hafa nokkrir landeigendur að Tungulæk og Grenlæk ýtt upp ótal veitumannvirkjum í Eldhrauni til að freista þess að veita vatni úr Skaftá og beina því að Tungulæk og Grenlæk. Heimildir um þessar framkvæmdir eru yfirleitt ekki til. Sumt var gert í skjóli myrkurs og margir garðar eru komnir á kaf í sand. 
 
Hraunið þéttist stöðugt
 
Þessar framkvæmdir hafa haft mikil áhrif á grunnvatnsrennsli í hrauninu og leitt til þess að hraunið þéttist stöðugt og valda því að Skaftárhlaupin fara æ víðar og sunnar um Eldhraunið og eyða gróðri. Niðurrennsli Skaftárvatns hefur færst utar (neðar) á hraunin og verður nú sneggra og skammærra en fyrr. Í raun eru niðurrennslissvæði sem eru óspillt af sandi orðin mjög takmörkuð og mjög stutt í það að Skaftá nái sér fram í þessa læki ef ekki verði gripið til aðgerða. 
 
Fróðlegt var að heyra viðtal við Hörð Davíðsson hótelbónda lýsa ástandinu í viðtali 7. október á síðasta ári þegar jökulvatnið úr Skaftárhlaupinu ógnaði lífríki lækjanna. Nú hefur þessi sami aðili tekið lögin í sínar hendur þegar hann hóf ólögmætar vatnaveitingar 8. júlí og opnaði áveiturör sem stjórnvöld höfðu þá nýlega lokað. Nokkrum dögum seinna fékk hann heimild til að rjúfa varnargarð sem umhverfisráðuneytið hafði látið byggja árið 2000. Nú flæðir þar miklu meira vatn en nokkru sinni áður. 
 
Svipað úrkomuleysi ríkti vorið 1998 þegar vatnsþurrð var í lækjum þar eystra og umhverfisráðherra skipaði Náttúruvernd ríkisins að grípa til áveituframkvæmda úr Skaftá í Skálarál með tilheyrandi aurburði og gróðurskemmdum. Veiðifélag Grenlækjar féllst á að færa áveituna til fyrra horfs sama haust, sem það ekki gerði. 
 
Rafstöðvar og lítið vatn 
 
Þrátt fyrir ofurtrú Steins Orra Erlendssonar í síðasta tölublaði Bændablaðsins um að bændur reisi ekki rafstöðvar við læki þar sem hætta er á vatnsþurrð þá er staðreyndin hins vegar sú að á sl. 100 árum hafa sérstaklega Tungulækur og Grenlækur iðulega þornað á vorin. Fyrir því eru ýmsar skráðar heimildir en nægir að nefna grein í Morgunblaðinu dagsetta 12. apríl 1956. En þar segir m.a. „Galli er það við ýmsar þessar rafstöðvar hvað þær verða aflitlar á vetrum sökum vatnsleysis“. Um Tungulækinn segir ennfremur: „Undanfarna vetur hefur lækurinn verið þurr svo vikum skiptir“. Jón Kjartansson þingmaður Vestur Skaftfellinga hafði um þetta leyti borið fram tillögu til þingsályktunar um að athugun færi fram með hvaða hætti mætti auka vatnsrennsli í læknum. Áratuga vatnamælingar Vatnamælinga og síðar Veðurstofunnar sýna náið samhengi á milli rennslis í Tungulæk og Grenlæk, enda upptök þeirra undan Eldhrauni nánast hlið við hlið. 
 
Þrýst á þingmenn til að sleppa við mat á umhverfisáhrifum
 
Í skýrslu um Tungulæk í Landbroti til Vatnadeildar raforkumálastjóra frá janúar 1958 greinir Jón Jónsson jarðfræðingur frá því að: „Það mun hafa verið einhvern tímann á árabilinu 1912-1919, að lækurinn þornaði algerlega að vorlagi“. Sigurjón Rist segir í skýrslut sinn um Tungulæk í Landbroti frá 7. júní 1956: „Auk þessa má benda á þá meginreglu, að hér á landi er altítt, að fullyrt sé af kunnugum heimamönnum, að þessi eða hinn lækurinn, sem á að virkja, verði aldrei minni en þann dag, er hin fyrsta athugun er gerð. En strax, þegar samfelldar rennslismælingar hafa verið gerðar eða rafstöð hefur tekið til starfa, kemur í ljós, að vatnsfallið er meiri breytingum háð, en fullyrt hefur verið í upphafi og þrýtur í mörgum tilfellum að öllu um stundarsakir“. 
 
Hið rétta er að bændur hafa byggt rafstöðvar og gera enn við læki sem hættir til að þorna á vorin. Svo þegar lækirnir þorna þá sækja þeir ekki um leyfi til að veita vatni til þess bærra stofnana heldur treysta á gömlu aðferðarfræðina þ. e. að leggja ofurþrýsting á þingmenn og ráðherra að bjarga málum og neyða stofnanir til að grípa til skyndiaðgerða og fara fram hjá lagaákvæðum um mat á umhverfisáhrifum. Þær aðgerðir hafa mikla gróðureyðingu í för með sér, náttúruspjöll og hættu á sandfoki. Það er enn verið að leysa einn umhverfisvanda fyrir örfáa einstaklinga með því að skapa annan vanda og náttúruspjöll er varða íbúa héraðsins og komandi kynslóðir. 
 
Heimila náttúruspjöll í Eldhrauni
 
Steinn Orri fer einnig rangt með ýmsar staðreyndir um vatnaveitingar í fyrrgreindri grein sinni um meintan vísindaskáldskap undirritaðs, sem yrði of langt að telja upp. En ástæða er til að óska hinum unga verkfræðinema frá Seglbúðum alls velfarnaðar. Um leið má minna á að verkfræðin – öðrum fræðum fremur – byggir á staðreyndum. 
 
Vonandi gefst tækifæri síðar til að greina nánar frá aðdraganda og ótrúlegri atburðarás áveituframkvæmda í Eldhrauni í sumar. Og aðkomu þingmanna og ráðherra til að knýja fram aðgerðir á skjön við flest lög umhverfismála í dag. Svo virðist nú að Eldhraunið sé náttúruperlan þar sem öll náttúruspjöll eru leyfð og þeim hampað sem framkvæma þau. 
 
Sveinn Runólfsson, 
fyrrverandi landgræðslustjóri.
Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...