Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Málefni landbúnaðarins og fæðuöryggi eru neytendamál, lýðheilsumál og byggðamál og Íslendingar þurfa að taka afstöðu.
Málefni landbúnaðarins og fæðuöryggi eru neytendamál, lýðheilsumál og byggðamál og Íslendingar þurfa að taka afstöðu.
Mynd / Myndasafn Bbl
Lesendarýni 17. maí 2023

Verðum að taka afstöðu

Höfundur: Ingibjörg Ísakssen, þingflokks formaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „Sett verða metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla til að treysta fæðuöryggi“.

Ingibjörg Ísakssen.

Síðastliðin ár hefur áskrifendum hugmyndafræðinnar um fæðuöryggi fjölgað. Við sjáum þau áhrif sem utanaðkomandi aðstæður geta skapað, þá til dæmis
heimsfaraldur Covid og stríð í Evrópu. Atburðir sem Íslendingar hafa engin völd yfir en aðstæðurnar hafa þó áhrif hér á landi.

Það verður sífellt mikilvægara að við tryggjum það að við séum sjálfum okkur næg til framtíðar og tryggjum fæðuöryggi landsins með hollu og næringarríku fæði.

Fæðuöryggi byrjar hjá bændum

Öflugur landbúnaður er þýðingarmikill fyrir fæðuöryggi í heimi þar sem aðfangakeðjur eru ótryggar auk þess sem ýmsar aðrar ógnir steðja að. Ef við ætlum að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla þá verðum við að tryggja bændum landsins viðunandi rekstrargrundvöll og afkomu. Keðjan hefst þar. Ef starfsskilyrði bænda eru þess fallin að hrekja fólk úr stéttinni og hafa letjandi áhrif á nýliðun þá munum við væntanlega horfast í augu við talsvert brottfall.

Þrotlaus vinna bænda er ekki sjálfgefin þó svo að margir hafi tekið henni sem sjálfsögðum hlut of lengi. Mikilvægi stuðnings ríkisins til innlendrar matvælaframleiðslu er óumdeilt. Stuðningurinn er ýmist beinn eða óbeinn. Sem dæmi má nefna aukna tollvernd á innfluttum afurðum og greiðslumark lögbýla. Þar eigum við langt í land. Innflutningur matvælaafurða hefur stóraukist á síðustu árum og virðist ekki linna, en hann hefur haft lamandi áhrif á innlenda matvælaframleiðslu, sem getur ekki keppt við risavaxinn verksmiðjubúskap sem uppfyllir ekki sömu kröfur og staðla og íslensk framleiðsla stenst.

Þá til dæmis hvað varðar sýklalyfjaónæmi. Aukin tollvernd myndi bæði tryggja ríkinu auknar tekjur ásamt því að jafna aðstöðumun innlendrar og erlendrar matvælaframleiðslu.

Alvarleg staða

Við sjáum þá stöðu sem er við lýði í innlendri matvælaframleiðslu. Nú berast fregnir af því að innlend kjötframleiðsla hopi mjög skart og jafnframt að miklir rekstrarerfiðleikar séu í mörgum búgreinum. Því er spáð að innlend kjötsala dragist mikið saman á næstu árum. Framangreindur innflutningur og dvínandi rekstrargrundvöllur veldur því að framleiðsla á innlendri kjötafurð stendur ekki undir nauðsynlegri fjárfestingu. Með þessu áframhaldi munum við horfast í augu við gríðarlegan samdrátt í íslenskum landbúnaði, með tilheyrandi skorti á svína-, nauta- og lambakjöti, ef ekki verður gripið til aðgerða. Mörg býli berjast í bökkum og sumir kjósa að hætta. Kynslóðaskipti og nýliðun eru varla möguleg í núverandi rekstrar- og skuldaumhverfi.

Þetta er þeim mun sorglegra þar sem mannauðurinn er til staðar. Fullt af áhugasömu og kraftmiklu fólki vill vinna við landbúnað og viðhalda hefðinni, sögunni og hugsjóninni. Íslenskur landbúnaður er nefnilega svo mikið meira en matvælin. Hann er samofinn sögu okkar og hefðum. Gegnum landbúnaðinn miðlum við menningu og sögu landsins. Landbúnaðurinn leggur í raun til litina, lyktina og leiktjöldin á því leiksviði sem innlendir og erlendir ferðamenn sjá. Án landbúnaðarins verður dauflegt um að litast í sveitum. Að mínu viti lýsir það hnípinni þjóð sem nærir ekki þann jarðveg sem landbúnaðinum eru lífsnauðsynlegur.

Hvernig land viljum við byggja?

Málefni landbúnaðarins og fæðuöryggi eru neytendamál, lýðheilsumál og byggðamál og Íslendingar þurfa að taka afstöðu. Við þurfum að ákveða hvernig land við viljum byggja til framtíðar. Hvort við viljum viðhalda núverandi stöðu og stefna í átt að tómlegri matvælaframleiðslu, en þá er það tímaspursmál hvenær við þurfum að reiða okkur að fullu á innflutning erlendis frá. Eða viljum við byggja upp land þar sem tækifærin eru til staðar, byggðir blómstra og bændur viðhalda gæðaframleiðslu með þá sérstöðu sem við Íslendingar þekkjum svo vel?

Ef við veljum seinni afstöðuna þá þurfum við að grípa til alvöru aðgerða eins fljótt og auðið er og bæta rekstrarumhverfi bænda. Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi þann 2. maí sl. vakti ég athygli á umræddu ástandi og benti forsætisráðherra á mikilvægi þess að stofnaður verði starfshópur sem fer ítarlega yfir núverandi stöðu og leggur til aðgerðir sem myndu rétta úr kútnum og koma innlendri matvælaframleiðslu aftur í réttan farveg. Ég bind miklar vonir við að slíkur starfshópur verði stofnaður og að þeim aðgerðum, sem hann leggur til, verði fylgt af stjórnvöldum.

Þannig tökum við alvöru afstöðu og tryggjum fæðuöryggi landsins, sérstöðu Íslands og tryggjum blómlega byggð um allt land.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...