Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Nagandi afkomuótti
Mynd / Bbl
Skoðun 23. maí 2022

Nagandi afkomuótti

Höfundur: Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur hjá Huglind

Öllum sem fylgjast með ástandi heimsmála og samfélagsins hlýtur að vera ljóst að flestir bændur lifa nú við sligandi afkomuótta. Gífurlegar hækkanir á nauðsyn­legum aðföngum svo sem áburði, fóðri, olíu og varahlutum eru ýmist mættar í hlaðið eða við túngarðinn. Ekkert er í hendi um hækkanir á innkomu til samræmis við hækkanir á út­gjöld­um svo augljóslega hallar á í rekstr­inum, eða eins og einn bóndi sagði við mig, þetta er allt á leið­inni í skurðinn.

Eðlilega hittir þessi óáran bændur mis harkalega. Sumir reka rótgróin og skuldlítil bú og geta þokkalega seiglast, meðan aðrir eru í þröngri stöðu. Bændur sem eru nýlega búnir að bretta upp ermarnar, til að hnoðast í gegnum þá rekstrarskafla sem fylgja kosnaðarsömum framkvæmdum til framfara og uppbyggingar, og bændur sem eru harkalega skuldsettir á fyrstu búskaparárum eða áratugum, finna afkomuóttann læðast niður sveitta hryggsúluna og kuldahrollur fylgir tilhugsuninni um heimabankann.

Þegar fólk mætir raunverulegum afkomuótta, sér einfaldlega fram á að innkoman dugar ekki fyrir kostnaði og of lítið eða ekkert verður eftir fyrir heimilisfólkið til að lifa af, getur streita, kvíði og depurð orðið ríkjandi og kulnun og depurð leggst yfir hugann. Vonleysið situr um hugann eins og hungraður rakki, það er búið að reyna allt, spara, auka afkomuna, vinna dag og nótt, bæta við aukavinnum en það breytir ekki milljónunum sem krafist er fyrir áburðinn.

Kvíða, streitu og áhyggjum fylgja líkamleg einkenni, verkir í hálsi, kjálkum, öxlum og baki, verkir frá meltingarfærum, ógleði, skjálfti, köfnunartilfinning og hjartsláttur.

Sjálfstraustið minnkar, við rífum okkur niður. Finnum fyrir einhvers konar skömm eða sektarkennd, sem við vitum samt að er ekki okkar. En hún er lúmsk þokan í huganum, reksturinn er ekki að ganga hjá mér, er jafnvel á heljarþröm, ég hlýt að hafa gert mistök, vera vitlaus, ræfill, búskussi. Nei, en já, þó við stýrum ekki þessum utanaðkomandi ástæðum þá sígur hún inn í okkur tilfinningin um að ástandið sé okkar. Þegar afkomuóttinn verður viðvarandi getur hegðun okkar, hugsun og þar með samskipti orðið neikvæð. Við tölum hlutina niður, erum nöldrandi eða fámál, hvöss eða í vörn, oft er stutt í reiði, depurð, vonleysi og einmanaleika. Ákvarðanir taka langan tíma og þeim er slegið á frest, við þegjum. Kvíðinn og áhyggjurnar flæða yfir lífið eins og dökk sósa yfir hrísgrjón, valda þreytu og orkuleysi, draga úr einbeitingu, athygli og gleði, skapa pirring, innri spennu og svefnvandamál, ekki er það gott!

Alveg eins og þið vitið þá er enginn töfrasproti til en það eru til bjargráð sem hafa gagnast fólki í svipaðri stöðu vel, virkilega gert gagn. Þið og við. Við erum öll mannleg, spendýr sem kallast menn og það sem hefur gagnast öðrum af þessari dýrategund mun líka gagnast þér vel. Jafnvel þó þú hafir ekki trú á því. Alveg eins og þú veist sem bóndi hvað gagnast vel þegar kýr er komin með súrdoða eða ær er að bera og það er bara haus. Bjargráðin sem gagnast fólki sem glímir við afkomuótta og óvissu eru til dæmis þessi hér. Veldu strax tvö, þrjú og taktu þau fasta taki fyrir þig, hugsaðu um þau í öðru hverju skrefi í dag og næstu daga og byrjaðu að nota þau, já, í alvöru!

  • Merkimiði: Settu alltaf réttan merkimiða á mál. Vandinn stafar af ytri orsökum. Stattu á því alveg jarðföstu gagnvart sjálfum þér að þetta rekstrarástand er ekki þér að kenna. Bara ekki. Þessi óáran kemur utan frá og er kastað yfir þig án þess að þú hafir nokkuð til þess unnið, ekki afsaka þig, ekki setja merkimiðann á þig. Stattu beinn og segðu hiklaust við þig og aðra: Utanaðkomandi ástæður valda því að það er tap, það segir ekkert um mig en það veldur því að það er óhjákvæmilegt að fá fyrirgreiðslu.
  • Áhyggjutími: Margar rann­sóknir sýna að fólk getur tamið sig til að hafa bara áhyggjur á vissum tíma. Ótrúlegt? Já, en satt. Veldu að venja þig á að hafa fastan rekstraráhyggjutíma einu sinni eða tvisvar í viku. Ekki víkjast undan áhyggjunum þá og ekki leyfa þeim að sósast yfir hugsanir þínar á öðrum tímum. Gerðu allt sem hægt er í vandanum, til dæmis fast á mánudögum millli klukkan tíu og tólf og fimmtudögum milli tíu og tólf. Vendu þig svo á að ræða ekki, velta þér upp vandanum nema þess á milli. Ef þið eruð saman í þessu hjón eða samstarfsfólk, semjið þá um fastan áhyggjutíma. Ekki vera sífellt að draga áhyggjurnar upp í hugann í morgungjöfinni, við hádegisverðinn, í bílnum, úti um allar koppagrundir. Setjið niður áhyggjutíma tvisvar í viku, einu sinni ef það er nóg. Vinnið þá í vandanum eins og mögulegt er og látið svo fjandann liggja þar til í næsta áhyggjutíma. Hjálpist að við að koma þessari venju, hugsunarhætti á, temjið hvert annað. Ef annað ykkar fer að tala um einhvern reikning eða fjármál þess á milli, svarið þá bara strax, þetta tölum við um á mánudaginn. Hefjið ykkur yfir peningamálin þess á milli og njótið þess að vera bændur, virkileg horfið á ykkar fallegustu gripi, tún og akra og andið djúpt og rólega.
  • Stuðningsaðilar: Spyrntu gegn því að eingangrast. Pældu í því ofan í rót, hverjir eru þínir bestu stuðningsaðilar. Hvert er þitt besta fólk? Kannski, tveir til sex, ein eða tvær fjölskyldur? Veldu að vera mikið með þessu fólki. Besta næringin fæst með þínu, besta fólki, hringdu oft, bjóddu þeim til þín, gerðu eitthvað með þeim, farðu í heimsókn til þeirra. Þú þarft á því að halda, rannsóknir sýna það, það er mikilvægt.
  • Raunveruleikahvíld: Hvíldu þig á raunveruleikanum við og við um stund með því að hverfa inn í annan heim. Gerðu í því að hverfa inn í söguna í góðri bók, horfa á bíómynd, spila tölvuleik, fara og skoða eitthvað nýtt. Það er ekki raunveruleikahvíld að horfa á fréttir eða flækjast um netið en að horfa á þætti sem segja frá lífinu á tíma víkinganna, í París eða Perú er raunveruleikahvíld. Því að það er nógu ólíkt okkar raunveruleika til að heilinn upplifi eitthvað virkilega annað. Gefðu heilanum þínum tækifæri á slíku nokkrum sinnum í viku.
  • Slökun: Leitastu við að finna þína leið til slökunar á daginn. Það er kjörið að taka upp gamla góða bændasiðinn að kasta sér eftir hádegismatinn. Eiga rólega stund í beddanum eða í góðum stól. Líta á klukkuna og gefa sér þá gjöf að slaka á í 20-30 mínútur, dagurinn verður bæði árangursríkari og betri.
  • Gott: Forðastu að hugga þig eða deyfa með skaðráðum eins og áfengi en núna er samt tíminn til að upplifa eitthvað gott, góðan mat eða tónlist til dæmis. Taktu eftir því að það gerist eitthvað gott á hverjum degi, já svei mér þá! Veistu þú getur sett það góða oftar á dagskrá ef þú ákveður það, já næstum þvingar þig til þess. Ef afkomuóttinn er mikill ertu líklega ekki, í skapi til þess, en ekki festa þig þar. Komdu þér upp úr pyttinum sem sá hugsunarháttur er. Hvað var gott í gær, í síðustu viku? Spjall við kunningja, kjöt og karrí, fjörið í krökkunum þegar þau komu heim úr skólanum, bar kýr og kom kvíga, lóur á túninu, skúffukakan á sunnudaginn? Taktu markvisst eftir því góða og endurtaktu það og settu fleira gott á dagskrá.

Kristín Linda Jónsdóttir,
sálfræðingur hjá Huglind

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...