Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Frá undirritun endurskoðaðs garðyrkjusamnings á dögunum.
Frá undirritun endurskoðaðs garðyrkjusamnings á dögunum.
Mynd / TB
Skoðun 20. maí 2020

Nýendurskoðaður samningur garðyrkjubænda

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is
Þann 14. maí síðastliðinn undirrituðu bændur og stjórnvöld endurskoðunarsamning garðyrkjunnar. Hann er viðbót við samning sem gerður var um starfsumhverfi garðyrkjunnar árið 2016. Helstu atriði í nýjum samningi er að viðbótarfjármunum er bætt við niðurgreiðslur á flutningi á raforku til lýsingar, aukinn stuðningur er við útiræktun grænmetis ásamt áherslum í loftslagsmálum og kolefnisbindingu. Eins og stendur í markmiðunum þá er stefnt að allt að 25% aukningu á framleiðslu garðyrkjuafurða á næstu þremur árum. Í samningnum eru mikil tækifæri fyrir ræktendur. 
 
Einnig eru veittir fjármunir til kynbóta í garðyrkju og vegur þar mest framlag til stofnútsæðisverkefnis í kartöflum. Viðbótarfjármunum er bætt inn í þróunarfé garðyrkjunnar þar sem m.a. er stutt við ráðgjafarþjónustu, nýsköpunarverkefni og markaðssetningu. Það er von okkar að garðyrkjubændur nýti þau tækifæri sem felast í nýjum samningi til framleiðsluaukningar og nýsköpunar.
 
Rammasamningur landbúnaðarins næstur á dagskrá
 
Strax í framhaldi undirritunar garðyrkju­samnings var boðað til fyrsta fundar um endurskoðun rammasamnings í landbúnaði. Þar fóru fulltrúar Bændasamtakanna yfir helstu atriði sem nauðsynlegt er að taka upp í þeim samningi. Mikilvægustu atriði í þeim viðræðum er starfsumhverfi landbúnaðar til lengri tíma á grundvelli tolla- og fríverslunarsamninga. Þar er nauðsynlegt að bændur og stjórnvöld hafi framtíðarsýn til lengri tíma um stefnu í málefnum er lúta að tollum og tollvernd. 
 
Horft verður til eflingar akuryrkju við endurskoðunina en móta þarf stefnu um aukna framleiðslu á korni, bæði til manneldis og ekki síður til kjarnfóðurframleiðslu. Inni í núverandi rammasamningi er kafli sem fjallar um nýliðun í landbúnaði ásamt skilgreindum fjármunum til hennar. Nauðsynlegt er að endurskoða reglugerðina sem snýr að þessu ákvæði ásamt því að ræða við ríkisvaldið um það hvernig við tryggjum nýliðun í stéttinni. Það þarf að gera með frekari úrræðum, hvort heldur sem er með lánafyrirgreiðslum eða öðrum hvötum sem gera ungu fólki kleift að hefja búrekstur. Eins og áður sagði þá lögðu Bændasamtökin fram á fyrsta fundi þessi meginatriði. Boðað hefur verið til annars fundar 26. maí næstkomandi þar sem við ætlum að leggja fram ákveðnar útfærslur á áðurtöldum atriðum.
 
Tollaskilgreiningar á reiki
 
Bændasamtökin eru í viðræðum við fjármálaráðuneytið um skilgreiningu á tollum á innflutningi á svokölluðum jurtaosti og hvaða innihald þurfi að vera til staðar á magni jurtafitu í þeim tegundum sem falla undir heimildir á núll prósent tolli. Aflað hefur verið upplýsinga um tollflokkun þessarar vöru hjá Evrópusambandinu í gegnum sendiskrifstofu ESB á Íslandi frá Directorate General for Taxation and Customs Union (DG TAXD) í Brussel. Þar kemur fram að tollflokkun hér á landi er ekki í samræmi við ESB-tollflokkun. Þetta mál verður að laga og höfum við bændur væntingar um að ráðuneyti fjármála vinni þetta hratt og vel.
 
Ferðaþjónustubændur sitja uppi með of mikinn fastan kostnað
 
Annað baráttumál á okkar borði er hvernig við stöndum vörð um hag ferðaþjónustubænda. Þeir sitja uppi með mikinn fastakostnað og nær engar tekjur af eignum sem byggðar hafa verið upp í tengslum við þeirra rekstur. Bændasamtökin hafa verið í viðræðum við Samtök ferðaþjónustunnar og einnig Samband íslenskra sveitarfélaga en þetta er málefni sem verður að leysa með framtíðarsýn og úrlausn sem skilar sér til lengri tíma. Þessi mál verða ekki leyst á einu rekstrarári. 
 
Enn og aftur skiptir samstaðan máli hvar sem við stöndum í rekstri. Það er því vel við hæfi að enda þennan pistil á hvatningarorðum til bænda um að skrá sig á Bændatorgið vegna félagsaðildar að Bændasamtökum Íslands.
Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...