Og golan kyssir kinn
Höfundur: Gunnar Kr. Eiríksson stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands
Tíðarfar síðasta vetur fór mildum höndum um landsmenn og hefur orðið til þess að gróður á vormánuðum var mjög fljótur til og grasspretta ein sú besta sem elstu menn muna. Væntanlega mun sláttur hefjast af fullum krafti innan skamms og sýnist bændum það vera ávísun á að slá verði þau tún þrisvar í sumar.
Þessu fagna þeir sem eiga allt undir því hvað landið gefur af sér. Ekki er gott að átta sig á hvort þetta sé það sem við munum eiga von á næstu árin.
Mikill annatími
Nú er uppskerutími hestamennskunnar í hámarki, kynbótasýningar um allt land, íþróttakeppni, gæðingakeppni og þar með úrtökur fyrir Heimsmeistaramótið sem fer fram í Hollandi í ágúst. Þetta er mikill annatími hjá sýnendum og keppendum. Að baki hverju hrossi eru eigendur, einn eða fleiri, sem sumir setja vonarstjörnurnar sínar í hendurnar á atvinnumönnum og bíða spenntir eftir útkomunni. Þetta er tími gleði og vonbrigða því auðvitað vilja allir skora hátt. En oftast má finna hlutverk fyrir þennan fjölhæfa gæðing sem íslenski hesturinn er, þó svo hann standi ekki efstur á kynbótabrautinni, né sé á leið á landsmót eða heimsmeistaramót.
Þarf að viðhalda áhuga ungs fólks
Til að framtíð hestsins sé björt þarf að viðhalda áhuga ungs fólks á honum því þeirra er að halda fána hans á lofti. Það er margt sem keppir um áhuga unga fólksins og það er okkar sem eldri erum að stuðla að því að sem flestir fái að kynnast þessari dásamlegu skepnu. Ekki fæðast allir inn í hestafjölskyldur en langar engu að síður að komast á hestbak eða einfaldlega kemba og eignast góðan vin.
Margir eru hræddir við að leyfa hinum og þessum að fara á bak því alltaf getur komið fyrir óhapp og nú á tímum eru allir bótaskyldir. Engu að síður langar flesta sem eiga hross að leyfa öðrum að njóta, ekki síst þeim sem aldrei hafa tök á að komast á hestbak. Sú upplifun að teyma undir ungum knapa í fyrsta skipti er oft einstök, finna hvernig óttinn breytist í traust á skepnuna sem oft og tíðum gerir sér grein fyrir verðmætunum sem hún er með á bakinu. Gagnkvæm væntumþykja er fljót að myndast hjá ungum knapa og hesti.
Nú er sá tími sem hrossaræktendum finnst hvað skemmtilegastur, það er þegar taka þarf ákvörðun um hvaða hesta hryssurnar eiga að fara undir. Margir eru búnir að liggja yfir stóðhestabókum og blöðum í allan vetur, aðrir bíða eftir kynbótasýningunum til að sjá nýjar stjörnur. Þetta er oft sýnd veiði en ekki gefin því stjörnurnar rísa og falla milli ára og erfitt að henda reiður á ef eingöngu á að fara eftir tölum.
Mörgum finnst nauðsynlegt að sjá hestana en þá mundi viðkomandi lítið gera annað og það er ekki í boði á þessum árstíma. Ábyrgð dómara er mikil og ekki öfundsverð. Sem betur fer hentar ekki öllum hryssum það sama og ekki öllum ræktendum, því þá yrði hjörðin frekar einsleit og það viljum við ekki. Samt má gagnrýna það hve oft er einblínt á sömu hestana, oft þá sem einhverra hluta vegna fá mikla umfjöllun. Þá virðast aðrir falla í skuggann og er þá verið að tala um tugi hesta sem fá mjög góða dóma. Það er engri ræktun til framdráttar að allt kvenkynið fari undir sama karlinn.
Gríðarlegar framfarir
Allt er lýtur að íslenskri hestamennsku hefur tekið gífurlegum framförum. Uppeldi, umhirða, frumtamning, áframhaldandi tamning og þjálfun, sýningar, umgjörð sýninga, framkoma og klæðnaður knapa, allt til fyrirmyndar ef á heildina er litið, en að sama skapi er umgjörðin öll orðin óþarflega dýr og talað um hestamennskuna sem dýrt sport.
Vel hirtur og fóðraður hestur með knapa sem er vel til fara og situr vel er stórkostleg sjón og hrífur alla, líka þá sem ekkert vit hafa á hrossum. En ef sá sem ætlar að koma sér upp öllum herlegheitunum og sér hnakkinn á 300 þúsund, beislið á 20 þúsund, reiðúlpuna á 40 þúsund, reiðbuxurnar á 30 þúsund og svona mætti lengi telja (og þetta eru miðlungsverðin ) er nema von að hann reyni að fá gæðinginn á 250 þúsund? Því í þéttbýlinu er tekið eftir þér ef þú mætir í afgangs vinnuúlpu og Nokia stígvélum í hesthúsið. En þarna er sem betur fer ekki við hestamennina sjálfa að sakast, það er einfaldlega allt sem tengist sporti dýrt.
Sumarið er tíminn sagði einhver og er það orð að sönnu, reiðtúr um íslenska náttúru gerir alla menn betri því þar nýtur íslenski gæðingurinn sín best.