Á kafi í hrossarækt
Þau Hannes og Ástríður á Ási 2 víla ekki margt fyrir sér. Húsdýrin, sem eru allt frá naggrísum upp í hross, virðast fjölga sér óðfluga. Við gefum þeim hjónum orðið og í framhaldinu verður hægt að fylgjast með fjölskyldunni á Instagram-reikningi Bændablaðsins á næstu dögum.
Þau Hannes Brynjar Sigurgeirsson og Ástríður Magnúsdóttir hófu að rækta hross fyrir þrettán árum síðan og hrossaræktin fór ört stækkandi. „Við létum það ekkert stoppa okkur að vera landlaus og fengum að hafa hrossin hjá foreldrum Hannesar á Varmalandi í Skagafirði ásamt því að leigja landskika hingað og þangað um landið. Fyrir rúmum tveimur árum gáfumst við upp á því að vera með hrossin í fjórum hesthúsum í Hafnarfirði og ekkert beitiland fyrir þau yfir sumartímann. Við vorum svo lánsöm að detta niður á jörðina okkar, Ás 2, sem við leigðum fyrsta árið, 2022, á meðan við seldum eignirnar okkar í bænum svo við gætum keypt jörðina,“ segir Ástríður.
„Það var alltaf draumurinn að búa í sveit og ala börnin okkar upp við þau forréttindi í tengingu við náttúruna og dýrin. Svo spilaði það líka stóran þátt að stelpurnar okkar voru í leik- og grunnskólanum á Hólum í Hjaltadal á meðan Ástríður stundaði BS-nám í þjálfun og reiðkennslu við háskólann þar,“ segir Hannes. Að þeirra mati er ekki hægt að líkja saman litlum skólum úti á landi við stóru skólana í bænum. „Úti á landi verður allt svo miklu persónulegra og dásamlegt fyrir börnin að alast upp með börnum sem eru með svipuð áhugamál og það er bara töff að mæta í hestaskóm eða reiðúlpunni í skólann.“
Hvenær hófu ábúendur búskap og hvers vegna? Árið 2022 vorum við komin á kaf í hrossarækt og draumurinn var alltaf að flytja í sveit og fá sér geit og jafnvel fleiri dýr.
Býli, gerð bús, staðsetning og stærð jarðar? Jörðin Ás 2 í Ásahreppi eru rúmir 250 ha, þar er stunduð hrossarækt, fjár- og geitfjárbúskapur fer einnig ört stækkandi.
Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýr)? Hannes Brynjar og Ástríður ásamt börnunum Viktoríu Huld, 11 ára, Kötlu Dís, 8 ára og Brynjari Bjarma, 2 ára. Svo býr hér líka hestasjúk frænka, hún Snæfríður Ásta, 17 ára. Til viðbótar eigum við líka 10 hunda sem eru stór partur af okkar fjölskyldu.
Fjöldi búfjár? Við erum með um 100 hross, 40 kindur (sem fjölgar ört – ekki fyrir það hvað er mikið upp úr þeim að hafa heldur finnst okkur brasið í kringum þær mjög skemmtilegt), 5 geitur, 10 hunda, 15 hænur, 2 kalkúna, 5 kanínur og 6 naggrísi, þetta er sannkallaður dýragarður hjá okkur.
Hvers vegna veljið þið þessa búgrein? Fyrst og fremst er það brennandi áhugi okkar á hrossum og ræktun. Svo höfum við virkilega gaman af bæði kindunum og geitum en því miður þá er staðan þannig í landbúnaði að það er afar lítið upp úr þeim að hafa. Við horfum því meira á það sem áhugamál en vonandi eru bjartari tímar fram undan hvað það varðar.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Hann hefst á morgungjöf í hesthúsinu, síðan borðaður morgunmatur og börnunum komið í skólann. Hannes fer í vinnuna en við rekum einnig smíðafyrirtæki Karniss ehf. Ástríður fer í hesthúsið að temja og þjálfa. Við borðum saman hádegismat, svo er haldið áfram með það sama þar til Brynjar Bjarmi er búinn í leikskólanum. Eftir það eru unnin önnur störf sem er hægt að hafa hann með í. Stelpurnar fara oftast í hesthúsið eftir skóla og þjálfa hestana sína. Eftir kvöldmat komum við börnunum í háttinn og förum svo í járningar og önnur bústörf fram eftir kvöldi.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmtilegast er þegar folöldin fæðast og þegar við sjáum markmiðin okkar verða að veruleika, sama hver þau eru. Leiðinlegast, ætli það sé ekki þegar traktorinn er bilaður eða fastur.
Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Það eru forréttindi að vera með dýrunum, þau hafa góða nærveru, eru miklir karakterar sem okkur þykir afar vænt um.
Hverjar eru áskoranirnar? Ætli helsta áskorunin sé ekki bara að taka sér frí. Það er ekkert grín að finna einhvern til að sjá um búið ... eða bara að leyfa sér að setjast fyrir framan sjónvarpið á kvöldin þegar maður veit að maður gæti verið að vinna áfram.
Hvernig væri hægt er gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Það skiptir miklu máli að einblína á gæði hrossa fram yfir magn. Að auka tekjur með fjölbreyttari þjónustu, eins og t.d. ferðaþjónustu sem við stefnum á að gera.
Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Það verða að vera róttækar breytingar til þess að bændur geti lifað af vinnunni sinni, bændur verða að fá meira fyrir vöruna sína. Eins og staðan er í dag eru það milliliðirnir sem græða á vörum bænda. Þetta er sorgleg staða því ef það er ekkert upp úr landbúnaðinum að hafa er engin forsenda fyrir því að fólk slíti sér út í þessum störfum.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar við vorum nýflutt festi Hannes dráttarvélina í drullu og bað Ástríði að koma og draga sig upp á hinni dráttarvélinni. Hún þurfti að byrja á því að banka upp á hjá nágrannanum og fá hann til að kenna sér að kveikja á dráttarvélinni til þess að geta farið og aðstoðað Hannes.