Góð samvinna
Þau Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Guðbjört Lóa Þorgríms- dóttir tóku við búinu Ásgarði í Hvammssveit árið 2017 en Eyjólfur er uppalinn í Ásgarði og hefur verið viðriðinn búskapinn frá því hann var barn. Eyjólfur er 8. kynslóð sömu ættar sem býr á jörðinni frá árinu 1810. Lóa er alin upp á Erpsstöðum í Miðdölum og þegar þau fóru að skjóta sig saman var það alltaf stefnan að fara í búskap saman.
Býli, staðsetning og stærð jarðar? Ásgarður í Hvammssveit (táin á stígvélinu). Jörðin er um 2500 ha, mest fjalllendi en ræktað land er 44 ha.
Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýra)? Við erum sjö manns sem búum hér og hundurinn Gosi. Eyjólfur og Lóa ásamt dætrum, Eydís Helga (6 ára), Erna Diljá (5 ára) og Salbjörg Magna (7 mánaða). Foreldrar Eyjólfs búa í „ömmu og afa“ húsi á jörðinni.
Gerð bús og fjöldi búfjár? Við erum fyrst og fremst með sauðfjárbú með tæplega 400 kindur á fóðrun. Síðan erum við dugleg að fá hugmyndir og prufa alls konar með. Árið 2021 gerðum við samning um skógrækt og höfum verið að planta trjám núna á hverju ári, mismikið milli ára. 2022 prufuðum við útiræktun á grænmeti og höfum verið að bæta í núna á hverju ári, bæði tegundir og magn. Keyptum okkur útplöntunarvél í vor og stefnan er að auka framleiðsluna. Á bænum eru síðan nokkrar hænur og 20 hestar.
Hvers vegna veljið þið þessa búgrein? Hér hefur alltaf verið sauðfé auk þess sem Eyjólfur er líka forfallinn sauðfjárræktarmaður og var líklega kind í fyrra lífi! Hann man ættir kindanna margar kynslóðir aftur. Við veljum okkur að búa hér og vera með þessar búgreinar því okkur líkar það. En við ætlum líka að sníða stakk eftir vexti og aðlaga búskapinn að okkur og fjölskyldunni. Lóa vinnur í Auðarskóla í Búðardal og Eyjólfur hjá RML. Við sinnum bæði vinnu utan bús og því þurfa öll tannhjól að vinna saman svo allt gangi vel.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Hefðbundinn vinnudagur er breytilegur eftir árstíma eins og hjá flestum bændum. Þannig hefðbundinn vinnudagur tekur svolítið mið af því sem er efst á baugi á hverri árstíð samhliða störfum utan bús. En dagarnir geta sumir hverjir orðið langir.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Ætli það sé ekki bara það sama og hjá öllum öðrum – skemmtilegt þegar vel gengur og eins þegar öll fjölskyldan er saman að störfum. Aftur á móti er leiðinlegt þegar illa gengur, tæki bila og ekki hægt að gera það sem átti að gera á því augnabliki. En við erum ólík þannig að það sem Eyjólfi finnst leiðinlegt finnst Lóu skemmtilegt, s.s. grjóttínsla. Eyjólfur er aftur á móti á heimavelli að spá í gripi og búrekstrartengda þætti sem Lóu finnst minna skemmtilegt. En þannig vinnast líka verkin vel þegar hægt er að vera í sitthvoru verkefninu og afkasta að við teljum bara ágætlega.
Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Það er gaman að búa í sveit og vera í tengslum við náttúruna alla daga ársins – það er líka gaman að sjá börnin sín vaxa og dafna í því frelsi sem búseta í dreifbýli býður upp á. Eins er gaman að sjá árangur erfiðis raungerast þegar við prófuðum útiræktun í fyrsta skipti. Þannig má sjá með eigin augum að maður uppsker eins og maður sáir.
Hverjar eru áskoranirnar? Það eru alltaf einhver áskoranir eins og í öllu lífinu bara, við getum víst ekki stjórnað öllu og stundum eru það einhverjir ytri þættir eins og veðurfar og stýrivextir sem hafa áhrif á búskapinn. Einnig er tíminn mikil áskorun þar sem það eru fjölmörg verkefni sem þarf að vinna og önnur sem okkur langar að vinna. En klukkustundirnar eru víst aðeins 24 í hverjum sólarhring.
Hvernig væri hægt er gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Það eru fjölmörg tækifæri sem gætu gert búskapinn hagkvæmari – t.d. með aukinni framleiðslu. En mottóið okkar er að reyna að hafa störfin skemmtileg og viðráðanleg í stað þess að verkin verði kvöð og óyfirstígableg í framkvæmd.
Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Það eru ótal tækifæri í íslenskum landbúnaði og margt sem við getum gert vel hér á landi. Forsenda þess að það raungerist er að tekjugrunnur landbúnaðar sé réttur og rekstrarhæfi til lengri tíma tryggt. Við teljum að það verði aukning í framleiðslu á grænmeti á Íslandi og mögulega hægt að tryggja íslenskt grænmeti í búðum allt árið.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Það er þetta með „gullfiskaminnið“ – þau eru alveg nokkur eftirminnilegu atvikin og þykir okkur vænst um samverustundirnar með fjölskyldum og vinum þegar þau koma og aðstoða á háannatímum. Við höfum haft nokkra erlenda verknámsnema síðustu ár. Það er mjög eftirminnilegt þegar einn þeirra í smalamennsku stökk á eftir kind út í á því hún átti ekki að sleppa og varð gegnvotur. Daginn eftir skildi hann ekkert í því af hverju gutlaði í stígvélunum hans.
Bændurnir í Ásgarði taka yfir Instagram Bændablaðsins @baendabladid næstu tvær vikurnar.