Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Land Rover Discovery er rúmgóður jeppi sem gerir allt vel. Ólíkt aragrúa fjölskyldujeppa, þá hefur Discovery flesta þá kosti sem torfærutæki þarf að bera.
Land Rover Discovery er rúmgóður jeppi sem gerir allt vel. Ólíkt aragrúa fjölskyldujeppa, þá hefur Discovery flesta þá kosti sem torfærutæki þarf að bera.
Mynd / ÁL
Líf og starf 4. maí 2023

Alhliða pakki

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Í rúma þrjá áratugi hefur hinn breski jeppaframleiðandi Land Rover boðið kaupendum upp á alhliða fjölskyldujeppa undir heitinu Discovery.

Bændablaðið tók til prufu nýjustu útgáfu þessa bíls sem telst til stórra lúxusjeppa og keppir við aðra Land Rover, eins og Defender eða Range Rover Sport. Einnig myndu Audi Q7, Volvo XC90 og Toyota Land Cruiser höfða til sömu kaupenda.

Frá upphafi hefur áherslan við hönnun Discovery verið að koma sem flestum farþegum þægilega fyrir í öflugum jeppa. Þegar bifreiðin er skoðuð utan frá sést hversu hátt þakið er, og hækkar þegar aftar dregur til að höfuð öftustu farþeganna komist fyrir. Þessi nýjasta útfærsla Discovery hefur verið á markaðnum frá árinu 2017, en árið 2020 fór bíllinn í andlitslyftingu (e. facelift), sem fól í sér smávægilegar breytingar á ytra byrði, en umbyltingu á tæknibúnaði innandyra.

Fríður ættarsvipur

Í samanburði við fyrri gerðir Discovery er þessi straumlínulagaður með rúnnaðar línur. Þó að hvössu hornin séu horfin heldur ættarsvipurinn sér vel og ef horft er á bílinn úr nógu mikilli fjarlægð (800 metrar ættu að duga) eða augun pírð er hægt að rugla þessum við forvera sína. Þegar nær er komið sést að hönnunin er á margan hátt svipuð þeirri og er á öðrum nýjum Land Rover bílum og myndu óvanir geta ruglast á þessum og Range Rover. Myndirnar tala sínu máli, en Discovery er forkunnarfríður – hver einasta hlið er í samræmi við aðrar og hlutföllin rétt mátuleg.

Þegar stigið er um borð tekur á móti manni vistleg innrétting sem ber merki um vandaða hönnun.

Allt yfirborð er úr mjúkum og dýrum plastefnum og sætin með fyrsta flokks leðri. Í miðju mælaborðsins er margmiðlunarskjár, sem hefur verið í Discovery frá 2020, og er sá sami og er í öðrum nýjum Land Rover jeppum.

Hugbúnaðurinn er með þeim fullkomnari sem völ er á – allt viðmótið er notendavænt og rökrétt, myndirnar eru skýrar og auðvelt að tengjast utanaðkomandi snjalltækjum. Undirritaður var búinn að tengja símann þráðlaust við Android Auto á fyrstu tveimur mínútunum eftir að hafa sest upp í bílinn og small tengingin snurðulaust í hvert skipti sem jeppinn var ræstur eftir það.

Innréttingin er fögur og mjúk viðkomu. Margmiðlunarskjárinn er rökréttur og þýður í notkun.

Vinalegur ómur af vélinni

Bifreiðin í þessum prufuakstri var með sex strokka, þriggja lítra dísilmótor. Allir nýir Discovery sem BL flytur inn eru tvinnbílar. Rafmótorinn er lítill og er hugsaður til að minnka eyðslu og styðja við vélina þegar tekið er af stað. Dísilmótorinn er afar þýður og berst lítill titringur inn í ökumannshúsið. Vélarhljóðið er prýðilega einangrað, en þó heyrist alltaf þessi vinalegi og mjúki ómur sem fylgir sex strokka dísilvélum. Hestöflin eru 250 og ef athyglin er ekki við aksturinn er ólöglegum hraða náð á örskotsstundu.

Þegar ekið er á Discovery er auðvelt að líða eins og setið sé á háum hesti. Þetta er afar stór bifreið og horfir maður niður á almúgann í sínum fólksbílum og smájeppum. Stærðinni fylgja þeir kostir að nóg pláss er fyrir sjö fullorðna einstaklinga. Framsætin eru langþægilegust, þar á eftir kemur miðjusætaröðin með breið sæti og háa sætisstöðu. Aukasætin í skottinu rúma stórt fólk, en sessan er ekki mikið hærri en gólfið.

Þriðja sætaröðin dugar vel fyrir fólk að 60 ára aldri, en aðgengið er nokkuð ankannalegt.

Aðgengið að þeim er ankannalegt og ef enginn er til að hleypa manni út lenda farþegarnir í sjálfheldu, því ekki er hægt að renna miðjusætunum aftan frá (undirritaður skrifar af reynslu).

Þegar öftustu sætin eru ekki í notkun falla þau vel ofan í gólfið og eftir stendur flennistórt skott. Sé þörf á enn meira geymsluplássi er hægt að fella miðjusætaröðina niður með rafmótorum. Ólíkt fyrri gerð Discovery, þá falla sætisbökin ekki alveg niður, heldur halla þau örlítið. Rýmið sem stendur til boða er á pari við minni sendibíla.

Aftursætin eru há og mikil birta í rýminu.

Stórar felgur hastar í holum

Akstursupplifunin stendur vel undir væntingum við flestar aðstæður. Eins og áður segir eru sætin þægileg og lítið sleppur inn af vind-, veg- og vélarhljóði. Discovery er á loftpúðafjöðrun sem fjaðrar vel allar helstu ójöfnur á þjóðvegum og innanbæjar og gefur möguleika á að stilla veghæð.

Nokkur vonbrigði voru þegar ekið var á holóttum og grófum malarvegum, en þá reyndist bíllinn hastur. Skýrist það eflaust af því að bíllinn í þessum prufuakstri var á 21 tommu felgum. Upplifunin væri eflaust betri ef bíllinn væri á belgmeiri dekkjum sem fjöðruðu betur. Þar sem Discovery skarar fram úr flestum keppinautum sínum er eiginleikinn til að aka utanvegar. Að felgunum undanskildum er hann með allt sem alvöru jeppi þarf til að takast á við torfærur: Lágt drif; læstan millikassa; mikla veghæð; og Terrain Response kerfið frá Land Rover sem notar tölvutækni til að efla drifgetuna.

Stærð bílsins gefur af sér mikla kosti sem taldir hafa verið hér fyrir ofan. Helstu ókostir Discovery stafa hins vegar af því hversu fyrirferðarmikið ökutækið er. Upplifunin af akstri í þröngum íbúðagötum er eins og að troða úlfalda í gegnum nálarauga og leitin að bílastæði er torsótt. Dyrnar á bílnum eru firnastórar og ef framdyrnar eru opnar upp á gátt þarf að teygja sig býsna langt til að loka þeim. Því getur fylgt mikið átak ef vindurinn stendur úr vitlausri átt.

Inni í þessum pakka rúmast sjö manns með sóma. Stórar felgurnar fjaðra illa á grófum vegum.

Tölur

Land Rover Discovery SE R-Dynamic bíllinn í þessum prufuakstri kostar 18.490.000 krónur m.vsk. hjá BL. Í því verði eru nokkrir aukahlutir, eins og skriðstillir með aðlögun og þriðja sætaröðin. Vélin er með 250 hestöfl og 570 Nm tog. Hámarks dráttargeta er 3.500 kílógrömm.

Eigin þyngd er 2.437 kílógrömm, en heildarþyngd fer upp í 3.260 kílógrömm með farþegum og farmi. Helstu mál í millimetrum: Lengd 4.956; breidd 2.220 og hæð 1.888. Mesta veghæð er 283 millímetrar og hámarks vaðdýpt er 900 millímetrar.

Að lokum

Land Rover Discovery er alhliða pakki sem getur ógrynni hluta og gerir næstum alla geysilega vel. Indælt er að aka bílinn og fer vel um sjö farþega, eða fimm með mikinn farangur.

Jeppinn skeiðar ekki mjúklega yfir grófustu vegina, en kemst auðveldlega á áfangastað.

Skylt efni: prufuakstur

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...