Bændurnir á Kaldbak og Landvernd hlutu Landgræðsluverðlaunin 2022
Bændurnir á Kaldbak á Rangárvöllum og Landvernd hlutu Landgræðsluverðlaunin 2022.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra afhenti þau á ársfundi Landgræðslunnar 27. maí.
Þau eru afhent einstaklingum, félagasamtökum og sveitarfélögum sem hafa þótt sýna góðan árangur við landgræðslu og landbætur og voru fyrst afhent 1990.Í rökstuðningnum fyrir valinu á Kaldbaksbændum er tiltekið að þau Sigríður Heiðmundsdóttir og Viðar Steinarsson hafi stundað öflugt og árangursríkt uppgræðslu- og landbótastarf á jörð sinni – og fleiri svæðum á Rangárvöllum – um áratuga skeið. Svæði sem áður voru ógróinn sandur séu nú meira og minna uppgróin og ekki marga ógróna bletti að finna á jörð þeirra í dag.
Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands hlýtur verðlaunin fyrir „afar öflugt fræðslustarf síðustu árin tengt vernd og endurheimt vistkerfa og sjálfbærri landnýtingu,“ eins og segir í rökstuðningnum. Í því sambandi eru nefnd verkefni eins og Grænfáninn, Vistheimt með skólum, Græðum Ísland (CARE), Öndum léttar, Loftslagsvernd í verki – auk fræðsluritsins Vörsluskylda búfjár sem kom út vorið 2021.
Verðlaunahafarnir fengu afhent Fjöregg landgræðslunnar, verðlaunagripi sem unnir eru úr tré í Eiklistiðju, í Miðhúsum við Egilsstaði.