Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Eigandi Icewear telur að íslenska ullin muni slá í gegn sem fylliefni í útivistarfatnaði
Mynd / HKr.
Líf og starf 22. desember 2021

Eigandi Icewear telur að íslenska ullin muni slá í gegn sem fylliefni í útivistarfatnaði

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Ágúst Þór Eiríksson, eigandi Icewear, er bjartsýnn á að nýting á íslenskri ull í útivistarfatnað eigi eftir að verða lyftistöng fyrir íslenskan sauðfjárbúskap. Hann telur að sérstakir eiginleikar íslensku ullarinnar beri af öðrum tegundum einangrunarefnis í flíkur eins og polyesters og gæsadúns.

Icewear hefur um áratuga skeið unnið mikið með íslenska ull í sínar prjónavörur og þann 1. desember setti það á markaðinn fyrstu útivistarflíkurnar með glænýju einangrunarlagi sem inniheldur íslenska ull.

Hófst með þróun Ístex á ull sem fylliefni í sængur 

Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri ullar­vinnslu­fyrirtækisins Ístex, segir að allar hugmyndir um að nýta betur þá annars flokks ull sem til fellur á Íslandi séu af hinu góða. Hann segir að Ístex hafi gert ýmiss konar tilraunir á liðnum árum í þróun á efnum til ýmissa nota og fylliefni í sængur hafi komið þar mjög vel út. 

„Það eru um 200 til 300 tonn sem falla til af slíkri ull á ári sem möguleiki væri á að búa til efni úr eins og Icewear er að nota í sinn fatnað. Þeir tóku bæði hvíta og mislita annars flokks ull í sína framleiðslu.“

Annars flokks ull er ekki á háu skilaverði til bænda svo til nokkurs er að vinna ef það tekst að auka verðmæti hennar.

„Við erum að borga bændum 80 krónur fyrir kílóið af þessari ull sem er nokkur veginn það sem við fáum fyrir hana annars staðar. Aukin eftirspurn eftir þessari ull ætti því að geta leitt til hærra verðs.“

Sigurður segir að fram til þessa hafi stór hluti af annars flokks ullinni farið í gólfteppaframleiðslu. Hugmyndin að notkun á henni í líkingu við það sem Icewear er að gera hafi komið úr þróun Ístex á fylliefni í sængur.

„Við settum sængur á markað með ullarfyllingu fyrir þremur árum og þetta einangrunarefni í flíkur er í raun  áframhaldandi þróun af því. Kosturinn við svona efni er að það hefur léttleikann en um leið innri styrk þannig að það heldur sér vel. Það lyktar ekki þótt það blotni og það er alveg óhætt að þvo það á 40 gráðu hita.“

Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri ullarvinnslufyrirtækisins Ístex. 

Icewear að gera góða hluti

Sigurður segir að Icewear sé greinilega að gera góða hluti með nýtingu á ullinni á þennan hátt. Hann segir öruggt að mikil tækifæri muni liggja í þessu í framhaldinu.

„Það er ekki spurning, og við hjá Ístex erum að reyna að koma koma því þannig að við vinnum ullina sem mest eftir að hún er þvegin og náum þannig meiri virðisauka til okkar og bænda.

Eftir hrun í ullarviðskiptum í fyrra, þá lítur þetta betur út. Hins vegar er verð enn mjög lágt, en munurinn nú og í fyrra sé að ullin er að seljast. Verðið batnaði fyrir sumar, en hefur síðan nánast staðið fast. Þá er stór hluti af þessari hækkun á ullarmörkuðum komin vegna hækkandi flutningsverðs frá Nýja-Sjálandi, Ástralíu og Suður-Ameríku. Því sé samstarfið við Icewear mikilvægt. Hér er verið að nota 100% íslenska ull fyrir aðila sem sjá tækifæri í íslenskri hágæða ull, en ekki bara hvaða ull sem er. 

Sængur- og sængurullarsalan hefur skipt okkur miklu máli. Það fóru um 50 tonn af ull í ár í sængurull og fleiri verkefni. Þessi nýting hefur því verið að vaxa mjög hratt ásamt aukningu í handprjónabandinu. Þá er verið að þróa band sérstaklega úr sængurullinni.

Ullarsala til annars en við erum sjálfir að nýta fór niður í 9% af heildartekjum í fyrra miðað við nær 25% á árunum 2011–2015.

Salan í sængur, sængurull og Lopaloft einangrun fyrir Icewear er því að auka þetta hlutfall mikið.“

– Eruð þið þá að sjá fram á skort á ull frá bændum á komandi árum?

„Varðandi framleiðslu á handprjónabandi verður vöntun á lambsull og ull í sauðalitunum. Enn fellur þó nóg til af fyrsta og annars flokks ull. Mestur vöxtur í okkar framleiðslu hefur verið í handprjónabandinu og þar gætum við farið að horfa fram á skort á fyrsta flokks ull eftir tvö ár ef áframhaldandi þróun heldur áfram. Þá þurfum við að leita til bænda að finna góða ull í öðrum flokki. Vissulega erum við nú að upplifa mjög skrítna tíma, en þessi verkefni með sængurull og afurðir af henni eru að vaxa mjög hratt sem lofar góðu. Ull er gull!“

Sigurður fagnar framtaki Icewear með að nota Lopaloft einangrun í þeirra útivistarflíkur og það sé bara snilld ef þeim tekst að skapa sér sérstöðu á markaði með nýtingu á íslensku ullinni. 

„Bylting fyrir útivistarfólk“

„Þetta er í raun nýsköpun byggð á gömlum grunni sem mun færa ullariðnaðinn inn í framtíðina, en um leið bylting fyrir útivistarfólk sem vill vistvænni kost en um leið góða virkni við mismunandi aðstæður,“ segir Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Icewear, um nýju útivistarlínu Icewear.

„Hér erum við að uppfæra nútíma útivistarfatnað með gömlum og vistvænum grunni sem íslenska ullin sannarlega er. En það sem skiptir máli er að íslenska ullin gefur góða öndun og jafnan varma með einstökum eiginleikum sínum eins og við Íslendingar þekkjum öll.“

Ullareinangrun í stað gæsadúns og polyester

Ágúst Þór Eiríksson segir að fyrir þremur árum hafi þeir uppgötvað möguleikana á því að nota íslenska ull í stað þess að nota eingöngu polyester eða gæsadún eins og gert hafi verið.

Fyrir tveimur árum hafi menn svo byrjað að þróa þetta frekar.

Hráefnið er annars flokks ull (M2) sem ekki er hægt að nota í framleiðslu á garni og lítil verðmæti hafa verið í. Telur Ágúst að með því að nýta þessa ull eins og Icewear er nú að gera megi örugglega auka verðmæti þessarar ullar fyrir bændur.

„Íslenska ullin er þvegin hjá Ístex á Blönduósi og síðan send út og unnin fyrir okkur í Þýskalandi og Belgíu. Þar er henni blandað saman við polyester og búnir til úr þessu strangar sem eru 1,5 metrar á breidd og í mismunandi þykkt. Þá eru það ýmist 100 grömm af ull í fermetra eða 200 grömm. Þykkra efnið er einkum hugsað fyrir vetrarflíkur. Strangarnir eru síðan sendir til Kína þar sem flíkurnar okkar eru saumaðar.

Þetta nýja efni kemur algjörlega í staðinn fyrir dún og polyester fyllingarnar sem við höfum verið með. Þá er þetta ekki mikið þyngra en dúnn,“ segir Ágúst. 

Ullin heldur einangrunareiginleikum þótt hún blotni 

– Hvað ef flíkur með þessu efni blotna, fer einangrunin þá ekki í kekki eins og hætta er á með dúninn?

„Nei, hún gerir það ekki, þar sem ullin hrindir frá sér vatni. Ef þetta blotnar þá tapar flíkin ekki heldur einangrunareiginleikum sínum. Ástæðan er hversu einstök íslenska ullin er með sitt tog og þel og hversu loftkennd hún verður. Þetta gefur mikið einangrunargildi. Þessa eiginleika hefur íslenska sauðféð þróað með sér í glímunni við rysjótta veðurfarið sem hér er.“

Ágúst Þór segir að þetta sé í fyrsta skipti sem íslenska ullin er notuð á þennan hátt. Möguleikarnir séu mjög miklir, en nú falli til um 400 tonn af annars flokks ull. Í fyrstu umferð keypti Icewear fjóra 40 feta gáma af þessari ull, eða um nálægt 20 tonnum.

„Síðan við byrjuðum að kynna þetta hefur áhuginn verið mjög mikill og ég er bjartsýnn á að eftirspurnin eigi eftir að vaxa í veldisvexti í framhaldinu. Ég er sannfærður um að fólk sem prófar þetta einu sinni muni ekki velja neitt annað í framhaldinu.“

– Þú vilt þá meina að þið séuð að marka ykkur sérstöðu á markaðnum með nýtingu á íslensku ullinni?

„Já, alveg örugglega. Icewear var stofnað árið 1972 og verður 50 ára á næsta ári. Fyrirtækið byrjaði sem saumastofa fyrir Álafoss og Hildu, þannig að á næsta ári má segja að Icewear og íslenska ullin eigi gullbrúðkaup.

Nú eru örfáir dagar síðan við settum þetta á markað og ég er algjörlega sannfærður um að flíkur með þessu efni munu slá í gegn. Við erum búin að framleiða úr þessu efni úlpur, vettlinga, húfur og galla fyrir börn. Miðað við reynslu þeirra sem hafa prófað þessar flíkur þá mun eftirspurnin vaxa mjög hratt, ekki síst vegna góðrar afspurnar.“

Upphafið að nýjum búskaparháttum

– Mun þetta þýða verðmætaaukningu til bænda fyrir sölu á annars flokks ull?

„Ég spái því að þetta verði upphafið að nýjum búskaparháttum. Að það verði mögulegt að rækta sauðfé í miklu meira mæli til ullarframleiðslu en gert hefur verið. Þótt öll ullin sem til fellur í dag í þessum flokki yrði nýtt, þá dugar hún ekki nema í eina milljón úlpur. Það er bara dropi í hafið á markaði fyrir yfirhafnir í heiminum. Lopapeysurnar og garnframleiðslan mun halda sínu, en það er mun sérhæfðari og þrengri markaður.“

 Ágúst Þór segir að það megi líkja sérstöðu íslensku ullarinnar við Beluga kavíarinn. Þegar fólk kemst á bragðið vilji það ekki sjá annað. Þegar vara fær slíka ímynd þá sé hægt að fá mun hærra verð en hægt er að fá fyrir svipaðar vörur.

„Það er því mín spá að íslenskir bændur muni í framtíðinni hafa meiri hag af framleiðslu á ull en kjöti. Þá spornar frekari nýting á íslenskri ull líka gegn plastmengun, en polyester er vinsælasta einangrunarefnið í úlpum í dag. Dúnninn er vissulega vinsæll líka, en hann hefur galla. Hann fer í köggla ef hann blotnar og á það til að leka út í gegnum flíkurnar eins og menn þekkja. Bleyta hefur engin áhrif á ullarefnið. Flíkin er jafn góð þegar búið er að þurrka hana.“

Fleiri nýta ull í útivistarfatnað en enginn annar íslenska ull 

Ágúst Þór segir að vissulega séu fleiri samkeppnisaðilar í heiminum að nota ull í sína framleiðslu, en ekkert þeirra geti boðið upp á íslensku ullina með sína einstöku eiginleika. Hann telur að í því liggi ávinningurinn fyrir Íslendinga.

Skylt efni: ull | ullarvörur | íslensk ull | Icewear

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...