Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Yfirlit yfir útsölustaði og úrval bjóra eins og það birtist í Morgunblaðinu þann 1. mars 1989.
Yfirlit yfir útsölustaði og úrval bjóra eins og það birtist í Morgunblaðinu þann 1. mars 1989.
Mynd / timarit.is
Líf og starf 11. nóvember 2022

Fall er fararheill – fyrstu skrefin

Höfundur: Höskuldur Sæmundsson og Stefán Pálsson.

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins var bjórsaga smábrugghúsanna erlendis rakin stuttlega og nú er ætlunin að taka aðeins fyrir upphaf smábrugghúsamenningarinnar á Íslandi. Þessi grein er hluti af greinaflokki sem mun birtast hér í Bændablaðinu.

Bjórbann var við lýði á Íslandi til 1. mars árið 1989, eins og oft er rifjað upp. Sá dagur markar upphaf bjórsins eins og við þekkjum hann í dag, en bjórsaga Íslendinga er þó öllu lengri og má rekja aftur á landnámsöld. Hún hélst í hendur við innlenda kornrækt sem var umtalsverð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Ýmsir samverkandi þættir kunna að hafa ráðið því að dró úr kornrækt, s.s. plágur og óáran sem olli mannfækkun og þar með breytingum á landbúnaðarháttum úr mannfrekari akuryrkju í húsdýrarækt sem ekki kallaði á jafn mörg handtök. Litla ísöldin, með lækkandi hitastigi urðu ræktunarskilyrði erfiðari. Þá kann vöxtur utanlandsverslunar að hafa haft sitt að segja, þar sem auðveldara hafi verið að flytja einfaldlega inn korn til ölgerðar eða jafnvel kaupa tilbúið áfengi: vín til kirkjulegra athafna, bjór og mjöð. Með tilkomu eimingarinnar og fjöldaframleiðslu brenndra drykkja véku bjórinn og mjöðurinn smátt og smátt af veisluborðum landsmanna, enda margfalt auðveldara að flytja og geyma brennivínið.

Endurreisnarskeiðið og bjórbannið

Tala má um tímabundið endurreisnarskeið bjórsins á Íslandi á seinni hluta nítjándu aldar og var hún að miklu leyti tengd tilkomu brauðgerðarhúsa. Erlendir bakarar bjuggu yfir færni til ölgerðar og raunar var hún nauðsynleg til að viðhalda gerinu fyrir baksturinn. Auk heimabruggaðs bakaraölsins buðu kaupmenn upp á danskan bjór, en dönsk brugghús voru framarlega í þeirri list að tappa bjór á flöskur og selja um öll heimsins höf. Breytt afstaða til áfengisneyslu olli líka tímabundnum vinsældum bjórsins, þar sem betri borgarar vildu frekar sötra Tuborg á mannamótum en drekka frá sér vit og rænu með dönsku ákavíti.

Við upphaf 20. aldarinnar var áfengisgerð á Íslandi bönnuð alfarið, þar með talið bruggun á áfengu öli. Bannið var að frumkvæði bindindishreyfingarinnar sem vildi með því koma í veg fyrir að í landinu yrði til áfengisiðnaður sem kynni að standa gegn lokamarkmiði Templarahreyfingarinnar um algjört áfengisbann. Slíkt var loks samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1908 en tók gildi í áföngum á næstu árum og að fullu frá 1. janúar 1915.

Þótt bannið lofaði góðu í fyrstu molnaði hratt undan því, s.s. þegar Spánarvínin svokölluðu voru leyfð með lögum árið 1922. Þar lét Alþingi undan þrýstingi Spánverja sem um þær mundir voru helsta viðskiptaþjóð okkar og keyptu saltfisk í stórum stíl. Þótt neysla á spænsku rauðvíni yrði aldrei mikil grófu Spánarvínin undan virðingu áfengisbannsins. Að auki var landabruggun útbreidd og tilraunir stjórnvalda til að uppræta hana fóru fyrir lítið. Gagnvart þeim staðreyndum var ráðist í nýja þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1933 og á grunni hennar var bann við öllu öðru áfengi en bjór numið úr gildi. Hefur sú ráðstöfun lengi vakið furðu útlendinga og er enn deilt um ástæður þessarar tilhögunar.

Bjór fyrir dáta

Þrátt fyrir bjórbannið voru enn starfræktar ölgerðir í landinu, en framleiðsla þeirra mátti ekki fara yfir 2,25% í vínandastyrk. Það hljóp á snærið hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar þegar Bretar hernámu landið vorið 1940 og gerðu fljótlega kröfu um bjór fyrir dátana sína. Lögum var breytt í skyndi og sama ár kom Polar-bjórinn á markað.

Um miðjan sjöunda áratuginn fengu áhafnir flugvéla í millilandaflugi heimild til að flytja inn bjór við komuna til landsins. Fyrirmyndin var óskráðar reglur sem gilt höfðu um sjómenn í millilandasiglingum sem fengu að gera slíkt hið sama. Auk þessa löglega bjórinnflutnings var alla tíð nokkuð um smygl á þessum forboðna vökva auk þess sem ólöglegur bjór streymdi frá herstöðinni á Miðnesheiði í stórum stíl.

Davíð keypti ölið

Það var svo loks í desember 1979 þegar Davíð Scheving Thorsteinsson var á heimleið frá Lúxemborg að hann ákvað að láta reyna á það sem hann taldi ósanngjarnt bann að öllum landsmönnum var veitt heimild til þess í ársbyrjun 1980 að koma með bjór með sér til landsins. Sem þýðir raunar að svarið við hinni aldagömlu spurningu um það hvar Davíð keypti ölið er auðsvarað: í Lúx.

Hvort mótmælaaðgerð Davíðs Scheving hafi verið þúfan sem velti hlassinu skal ósagt látið, en ljóst er að auknar ferðir Íslendinga til annarra landa urðu til að breyta viðhorfum þeirra til bjórsins. Um miðjan áttunda áratuginn höfðu skoðanakannanir sýnt lítinn áhuga landsmanna á bjór en sú staða breyttist jafnt og þétt á níunda áratugnum. Bjórvinir eignuðust meira að segja sinn einkennissöng þegar pönksveitin Fræbbblarnir sömdu smellinn Bjór!

Það var svo loks miðvikudaginn 1. mars 1989 sem bjórinn fór í almenna sölu og hafa landsmenn varla litið til baka síðan. Fyrsta daginn voru sjö tegundir í boði og er Egils Gull eini bjórinn sem enn lifir.

Fyrsti vísirinn að handverksbjóramenningu varð til árið 1995 þegar Amma Lú var opnað, en síðar var nafninu breytt í Hinn íslenska bjórkjallara. Þessi fyrirtæki voru í eigu Tomma, þá í Hard Rock, nú háttvirts 9. þingmanns Reykjavíkurkjördæmis norður. Þetta ævintýri varð skammlíft og var staðnum lokað nokkrum mánuðum eftir að hann breyttist í Bjórkjallarann, en munnlegar heimildir herma hins vegar að þarna hafi verið bruggað og afurðirnar seldar og telst staðurinn þannig vera fyrsta handverksbrugghúsið á Íslandi.

Ekki gerðist mikið í kjölfarið þar til að Kaldi kom til sögunnar, en betur verður komið að því í næstu grein. Kaldi hins vegar kom af stað ákveðinni hrinu sem verða gerð skil hér betur.

Fyrst ber að nefna Ölgerð Reykjavíkur, sem var stofnuð árið 2008. Var hugmyndin þarna að fylgja betur eftir ágætum árangri Kalda og var hinn kunni danski bruggmeistari Anders Kissmeyer ráðinn til að koma vörum fyrirtækisins af hugmyndastigi í flöskur. Kissmeyer hafði áður helst unnið sér það til frægðar að vera bruggari og gæðastjóri hjá Carlsberg verksmiðjunum til ársins 2001 en eftir það hafði hann komið að stofnun Nørrebro Bryghus veitingastaðnum sem er mörgum íslenskum bjóráhugamanninum vel kunnugur, en þar var hann yfirbruggmeistari lengi vel. Í anda þeirrar bjartsýni sem einkenndi þenslutíma góðærisins reiddu stjórnendur fyrirtækisins hátt til höggs, sögðust ætla að búa til besta lagerbjór í Evrópu og hugðu á mikla landvinninga.

Ölgerð Reykjavíkur náði þó aldrei að koma sér upp eigin bruggtækjum en tryggði sér bjórvörumerkin Gullfoss og Geysi. Gullfoss var bruggaður í Kaldaverksmiðjunni. Ekki er greinarhöfundum fyllilega ljóst hvort Geysi bjórinn komst einhvern tímann í framleiðslu en ljóst var að hugur eigendanna stóð til þess að framleiða þá bjóra. Má þó segja að fyrsta sígaunabrugghúsið á Íslandi hafi verið Ölgerð Reykjavíkur. Gullfoss var þó ekki of lengi á markaði en síðustu heimildirnar um bjórinn eru frá sumrinu 2011 en þá virðist Vínbúðin hafa tekið bjórinn úr sölu vegna lítils geymsluþols. Hvað svo sem olli því að bjórinn var tekinn úr umferð er ljóst að Gullfoss hvarf af markaði og segir ekki meir af þeim um sinn.

Sagan af Láru og El Grillo

Annar aðili sem seldi bjór undir eigin merkjum á þessum tíma var Kaffi Lára á Seyðisfirði sem bauð upp á El Grillo bjórinn eystra og í verslunum ÁTVR. El Grillo dettur enn stundum inn í Vínbúðina og á sá bjór sem seldur er undir því vörumerki í seinni tíð lítið skylt við upphafið. Sagan á bak við bjórinn var sú að Lára gamla vitjaði eiganda kaffihússins í draumi og færði honum uppskriftina að El Grillo bjórnum, í höfuðið á olíuskipi bandamanna sem sökkt var í firðinum 1944 og hvílir enn á hafsbotni. Ölgerðin Egill Skallagrímsson framleiddi hins vegar bjórinn og segir sagan að þar hafi verið um að ræða Egils Premium bjórinn í öðrum umbúðum. Ekki skal fullyrt um það hér en erfitt er að telja El Grillo til sígaunabrugghússbjóra, enda ekki seldur beinlínis í nafni eins brugghúss, líkt og var með Gullfoss.

Loks ber að segja frá brugghúsinu Miði í Stykkishólmi, sem bruggaði bjóra undir nafninu Jökull. Var Brugghúsið stofnað árið 2007 en hóf framleiðslu 2007. Brugghúsinu var lokað árið 2011 og loks selt í Borgarfjörðinn þar sem það starfaði til skamms tíma undir merkjum Steðja, líkt og síðar verður rakið. Jökull átti ýmsar útgáfur og af þessum fjórum brugghúsum sem fjallað hefur verið um hér, að Bjórkjallaranum meðtöldum, er það brugghúsið sem náði mestum árangri og mestri útbreiðslu. Jökulsbjórinn og Skriðjökull fóru þar fremstir í flokki en einnig var bruggaður þorra- og páskabjór.

Þegar þessi saga er lesin má sjá að upphaf handverksmenningarinnar gekk ekki stóráfallalaust fyrir sig, en þó má segja að þarna hafi bæði Kaldi sem og Ölvísholt verið komin til sögunnar, en það er umfjöllunarefni næstu greinar, í næsta tölublaði Bændablaðsins.

Skylt efni: handverksbrugghús | bjór

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...