Förum okkur hægar
Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þá stefnu að fjöldaframleiða á ódýran hátt það sem er í tísku akkúrat þessa stundina.
Eins og gefur að skilja eru afleiðingar slíkrar framleiðslu ógrynni fatnaðar sem oft fara beint af saumaborðinu á haugana.
Sem mótsvar við þessu hefur framleiðsla svokallaðrar slow fashion (þá hægtísku?) verið á uppleið en sú stefna leggur áherslu á gæði, sjálfbærni og ábyrgð framleiðanda um gagnsætt ferli í stað þess að elta síbreytilega tískustrauma líðandi stundar. Framleiðendur slow fashion hvetja þannig fólk til að vera meðvitaðra um fatakaup, hugsa um gæðin sem eru í boði og taka betur ábyrgð á umhverfisáhrifum eigin neyslu.
Hugmyndafræði hægtísku stuðlar að því að neytendur kaupi færri flíkur en þá frekar þær sem eru endingargóðar og klassískar, þannig að fólk fái lengri notkun út úr hverri flík. Leitast er við að framleiða fatnað úr efnum í sem bestum gæðum og sem duga mun lengur en ella. Helst er notast við lífræn, náttúruleg eða endurunnin efni, sem eru umhverfisvænni og hafa minni áhrif á náttúruna en önnur. Einnig er lögð áhersla á stílhreina hönnun fatnaðar sem hægt er að nota þó árin líði aðeins – í stað skammtímahugmynda um tísku eins og raunin virðist vera oft í dag.
Fyrirtæki sem aðhyllast hægtísku leggja áherslu á ábyrgð
gagnvart starfsmönnum sínum og vinnuumhverfi þeirra, greiða sanngjörn laun og tryggja örugga vinnuaðstöðu þar sem ferlið er gagnsætt – hægt er að fá upplýsingar um aðbúnað o.þ.h. í stað þess að framleiða sem hraðast með ódýru vinnuafli sem er þá oft þrælað út.
Vistvæn framleiðsla og minni sóun er höfð í hávegum, en einblínt er á að lágmarka úrgang og minnka umhverfisáhrif með því að framleiða í minna magni eða samkvæmt eftirspurn, frekar en að framleiða ofgnótt af flíkum sem eðlilega seljast ekki allar.
Fyrir áhugasama neytendur eru hér nokkur dæmi um hægtískufyrirtæki sem eru þekkt fyrir að leggja áherslu á sjálfbærni, siðferðilega framleiðslu og gæði:
Margir þekkja Patagonia, eitt stærsta útivistarmerki heims, sem var stofnað árið 1973 í Bandaríkjunum. Það leggur mikla áherslu á umhverfisvernd og samfélagslega ábyrgð. Það notar endurunnin efni, hefur staðið fyrir átaki gegn ofneyslu og hvetur viðskiptavini til að nota flíkur sínar lengur með því að setja þær í viðgerð eða endurnýta.
Svo má nefna Eileen Fisher, sem er þekkt fyrir að skapa tímalausan, endingargóðan kvenfatnað úr náttúrulegum og lífrænum efnum. Fyrirtækið býður m.a. upp á þátttöku í verkefninu „Renew“ þar sem má skila inn gömlum flíkum og þær þá endurnýttar – minnkar sóun.
People Tree er annað, stofnað 1991 og þekkt fyrir að vera eitt af fyrstu fyrirtækjunum með hugsjón hægtískunnar. Fyrirtækið vinnur t.a.m. með handverksfólki um allan heim við framleiðslu varnings síns og gætir þess að tryggja sanngjörn laun og örugga vinnuaðstöðu hvar sem er.
Reformation, sem hannar kvenfatnað líkt og Eileen Fisher, notar sjálfbær efni og endurunnið hráefni í framleiðslu sinni. Fyrirtækið gefur upp umhverfisáhrif hverrar flíkur á vefsíðu sinni, svo neytendur flíkur á vefsíðu sinni, svo neytendur geti séð kolefnisfótspor og vatnsnotkun hverrar vöru.
Nudie Jeans er sænskt fyrirtæki sem framleiðir gallabuxur úr lífrænni bómull og býður upp á viðgerðarþjónustu svo viðskiptavinir geti lengt líftíma gallabuxna sinna. Á vefsíðu þeirra kemur fram að markmiðið sé að minnka sóun og skapa endingargóðar flíkur. Svo má nefna Everlane, fyrirtæki með vandaðar vörur sem er þekkt fyrir gagnsæi í framleiðsluferlinu, sanngjörn laun og gott atlæti starfsmanna. Everlane framleiðir tímalausar og endingargóðar flíkur úr hágæðaefnum og býður lítið úrval sem hvetur viðskiptavini til að kaupa færri flíkur en frekar vandaða og klassíska hönnun.
Að lokum má nefna fyrirtækið Veja Veja, sem framleiðir vistvæna strigaskó úr lífrænni bómull, náttúrulegu gúmmíi og endurunnum efnum. Fyrirtækið leggur áherslu á að nota umhverfisvæn hráefni og stendur í framleiðslu við sanngjörn vinnuskilyrði í Brasilíu.
Á heimsvísu má auðvitað finna fleiri fyrirtæki sem þessi – sem standa fyrir siðferðilegri og vist- vænni nálgun endingargóðs tísku- varnings.
Höfum það í huga að velja frekar vörur undir hugmyndafræði hægtískustefnunnar heldur en fjöldaframleiðslubrjálæði þeirrar hröðu.