Bændur búast við viðskiptastríði
Eitt helsta kosningaloforð Donalds Trump var að hækka tolla á innfluttar vörur í Bandaríkjunum.
Þegar hann var síðast við völd hafði sú stefna neikvæð áhrif á bandaríska bændur þar sem Kínverjar svöruðu í sömu mynt. Þar í landi er stærsti markaðurinn fyrir bandarískar sojabaunir og eru Kínverjar stór kaupandi af maís. The New York Times greinir frá.
Á árunum 2018 og 2019 voru tollar á bandarískt soja hækkaðir verulega í Kína og misstu bandarískir bændur stórann hluta sinna viðskipta til starfsbræðra sinna í Brasilíu og Argentínu. Bandarísk stjórnvöld brugðust við með því að greiða bændum bætur sem kostuðu ríkið nánast sömu upphæð og fékkst með tollum á kínverskar vörur.
Hagfræðingar hafa varað við að tollastefna Trumps geti aukið verðbólgu og hægt á hagvexti. Hagsmunasamtök bænda búa sig undir það versta með endurkomu Trumps, en samkvæmt þeim munu bandarískir sojabauna- og maísræktendur verða af þúsund milljarða króna viðskiptum á ári ef innflutningstollar í Kína verða hækkaðir upp í 60 prósent. Það muni hafa keðjuverkandi áhrif um allt hagkerfið.
Fulltrúar í kosningateymi Trumps hafa ýmist sagt að forsetinn tilvonandi muni grípa strax til tolla eða láta fyrst reyna á viðræður um viðskiptasamninga.