Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Upphafsmenn Hollvinasamtaka Magna II. Axel Orri Sigurðsson, Friðrik Friðriksson og Böðvar Eggertsson.
Upphafsmenn Hollvinasamtaka Magna II. Axel Orri Sigurðsson, Friðrik Friðriksson og Böðvar Eggertsson.
Mynd / Jón Kr. Friðgeirsson
Líf og starf 3. maí 2023

Fyrsta íslenska stálskipið

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Í lok árs 1953 hófst smíði á nýjum dráttarbát fyrir Reykjavíkurhöfn í Stálsmiðjunni í Reykjavík. Með því hófst nýr kafli í íslenskri iðnaðarsögu, en fram að því hafði ekkert stálskip verið smíðað hérlendis.

Magni II var í fullri notkun frá 1955 til 1987, þegar vélin skemmdist. Hollvinasamtök hafa tekið uppgerð skipsins að sér.

„Okkur ber að varðveita þetta skip, sem er fyrsta stálskip smíðað á Íslandi,“ segir Axel Orri Sigurðsson, formaður Hollvinasamtaka Magna II, sem vinna nú í sjálfboðavinnu að því að reisa skipið til fyrri dýrðar. Hann hefur sökkt sér í sögu þessa skips og fræddi Bændablaðið um málið. Á sjötta áratugnum var ljóst að þörf væri á öflugum dráttarbát í Reykjavíkurhöfn, þar sem skip sem hingað komu voru sífellt stækkandi.

Þá var í notkun gufuknúinn dráttarbátur, sem var keyptur átta ára gamall frá Hamborg árið 1928, og bar nafnið Magni.

Hjálmar R. Bárðarson, fyrsti skipaverkfræðingur Íslendinga, var einn helsti hvatamaðurinn að smíði nýs Magna. Hann var jafnframt þekktur sem mikilvirkur ljósmyndari og gaf út bækur, eins og Fuglar Íslands; og Ísland – svipur lands og þjóðar; og Fyrsta stálskip smíðað á Íslandi. Sú síðastnefnda fjallar um Magna II.

Fjölnotaskip

Hjálmar hannaði Magna II sem fjölnotaskip og var hann því útbúinn bómu, til að geta þjónustað baujur. Jafnframt var hann með stóra vatnstanka til að flytja neysluvatn í skip og útbúinn öflugum slökkvidælum. Enn fremur var skrokkurinn á Magna II úr þykku stáli og nýttist hann sem ísbrjótur. Aðstaðan til að smíða skip hérlendis var fábrotin og segir Axel Orri að Hjálmar hafi hannað vél til að beygja stálplötur. Eini kraninn sem Stálsmiðjan hafði aðgang að til að koma 22 tonna þungum mótornum fyrir var þungalyftibóma í flutningaskipinu Tröllafossi.

Magni II var fullsmíðaður árið 1955. Stálsmiðja Reykjavíkur hóf þegar framleiðslu á öðru skipi, sem var varðskipið Albert og var smíði hans lokið árið 1956. Sama teikning var notuð við smíði brúarinnar á báðum þessum skipum.

Dráttarbáturinn Magni II í Reykjavíkurhöfn. Unnið er að uppgerð skipsins í sjálfboðastarfi hollvinasamtaka.

Bræddi úr sér

Vélin í Magna II var 1.000 hestafla, átta strokka dísilmótor frá Deutz. Hún gekk á föstum snúningum og var hraða skipsins stjórnað með að breyta halla skiptiskrúfunnar. Togkraftur Magna var tólf tonn. Til samanburðar er öflugasti dráttarbáturinn hjá Faxaflóahöfnum í dag með 85 tonna togkraft. Þessi tala segir þó ekki allt, því með tólf tonna togkrafti er hægt að draga skip sem er hundruð tonna.

Eitt af helstu verkefnum Magna var að fylgja Gullfossi inn og út úr höfninni. Hann var þó ekki einungis notaður í Reykjavík, heldur fór hann í fjölmörg verkefni í Faxaflóanum og víðar. Þegar Magni var í siglingu árið 1987 varð áhöfninni á þau mistök að gleyma að opna fyrir kælinguna á smurolíunni, sem varð til þess að vélin bræddi úr sér.

Fljótlega varð ljóst að ekki væri hægt að gera við mótorinn og þar með var Magna II lagt.

Ætla að koma í gott stand

Axel Orri segir að eftir það hafi Magni II legið í reiðileysi við bryggju og ástand skipsins komið á viðkvæman stað. Faxaflóahafnir afhentu Magna II til eignar árið 2013 og árið 2017 voru Hollvinasamtök Magna stofnuð. Þau samtök hafa það að markmiði að koma skipinu í eins upprunalegt horf og hægt er, í samstarfi við Borgarsögusafnið.

Fyrstu verkin voru að þurrka skipið að innan með því að þétta leka og kynda. Einnig þurfti að losa út mikið magn af ryðdrullu og öðrum óhreinindum. Borgarsögusafnið hafði þegar fjarlægt talsvert af innanstokksmunum og varðveitt í geymslu. Aðspurður um ástand bátsins í dag segir Axel að enn sé mikið sem þurfi að gera. Árið 2018 fór Magni II í slipp þar sem hann var málaður og var skrokkurinn þykktarmældur, sem kom heilt yfir vel út. Þó segir Axel Orri nauðsynlegt að skipta út plötum á nokkrum stöðum í sjólínu fyrr en síðar. „Með tíð og tíma þarf að taka skipið í gegn frá A til Ö.“

Ný vél frá Danmörku

Hollvinasamtök Magna fundu vél í Danmörku, sem er nánast alveg eins og sú upprunalega, nema tíu árum yngri og í góðu ástandi. Þau fóru í átak til að fjármagna kaupin og flutninginn til landsins. Eftir að hafa verið í geymslu síðan 2019 er nýlega búið að koma henni í vélarrúm bátsins. Gamla vélin var útbúin túrbínu, en nýi mótorinn er að auki útbúinn skolloftskæli (e. intercooler) og er þar af leiðandi nokkuð aflmeiri.

Núna á eftir að ganga frá vélinni þannig að hún sitji rétt í vélarrúminu. Síðan þarf að yfirfara hana alla áður en hægt er að setja hana í gang. Jafnframt þarf að koma sjólögnum og rafmagnskerfi í lag áður en hægt er að sigla Magna á ný. Á Facebook-síðu hollvinasamtakanna er hægt að fylgjast með framgangi uppgerðarinnar.

Keypt var notuð vél frá Danmörku og er nýlega búið að koma henni í Magna II. Mynd / Böðvar A. Eggertsson.

Lán í óláni

Andrés Hafberg vélfræðingur vann í íhlaupum á Magna II á árunum 1983 til 1984. Hann segir að ef ekki hefði brætt úr vélinni hefði skipið líklegast verið selt fyrr en síðar og væri núna orðið að brotajárni. „Það má kannski segja að þetta hafi verið lán í óláni.“ Sjálfur hefur hann ekki tekið þátt í starfi hollvinasamtakanna, en segir þau vinna mjög lofsvert verk.

Andrés segir að í áhöfn hafi verið fjórir menn, eða skipstjóri, stýrimaður, vélstjóri og háseti. Hann segir að heilt yfir hafi verið gott að vinna á bátnum, en þó hafi Magni II verið kominn til ára sinna. Hann nefnir í því samhengi rafkerfið, sem upphaflega var með jafnstraumi, en eftir að varahlutir hættu að fást varð það að samblandi jafnstraums og riðstraums.

Selfluttu neysluvatn

Yfirleitt voru verkefnin stutt og hægt að klára á einum degi. Hins vegar kom fyrir, ef mjög hvasst var í veðri, að Magni þurfti að liggja á skipum hátt í sólarhring. Þá var dráttarbáturinn með stefnið í síðu skipsins og þrýsti að höfninni, þar sem landfestar voru gjarnan ekki nógu góðar á þessum árum og hætt var á að þær slitnuðu.

Eitt af þeim verkefnum sem Andrés tók þátt í var að ferja vatn í skemmtiferðaskipið Edduna. Við Kleppsbakka var ekki nógu öflugt vatnskerfi til þess að neysluvatnstankarnir fylltust á þeim fjórum tímum sem Eddan lá við bryggju hverju sinni. Því hafi áhöfn Magna nálgast vatn í Korngörðum, sem eru nokkur hundruð metrum frá, og sótt nálægt 150 þúsund lítrum í þremur ferðum.

Skylt efni: saga vélar

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...