Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Líf og starf 16. janúar 2018
Háskóli Íslands og Háskólafélag Suðurlands í spennandi samstarfsverkefni
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Háskóli Íslands og Háskólafélag Suðurlands eru að þróa með sér spennandi verkefni varðandi þróun fagháskólastigsins. Þar er um að ræða verkefni á sviði ferðamálafræða, tæknifræði og hagnýtra leikskólafræða.
Háskólafélagið, sem er með höfuðstöðvar sínar í Fjölheimum á Selfossi og fagnaði nýlega 10 ára afmæli sínu, er með um sextíu háskólanema sem leigja sér aðstöðu til náms í Fjölheimum og hafa þar sjálfstæðan aðgang frá morgni til miðnættis alla sjö daga vikunnar.
„Nú á haustönn lagði félagið um 600 próf fyrir nemendur úr flestum háskólum landsins auk framhaldsskóla sem bjóða upp á fjarnám.
Umfang þessarar starfsemi eykst ár frá ári, með þessu hefur skapast hér raunverulegt háskólasamfélag,“ segir Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri félagsins.
Auk Fjölheima á Selfossi er að finna á starfssvæði félagsins námsver á Hellu, Hvolsvelli, Vík og Kirkjubæjarklaustri, en á Höfn tók Þekkingarsetrið Nýheimar í haust við þessari háskólaþjónustu Háskólafélagsins á Höfn.
Sigurður segist horfa bjartur fram á næstu tíu árin í starfsemi Háskólafélagsins.
„Já, verkefnin eru næg en í nútíma samfélagi ráðast búsetugæði ekki síst af góðu aðgengi að háskólamenntun. Háskólafélagið er tæki Sunnlendinga til að vinna að þeim málum. Félagið hefur lagt áherslu á að vera samstarfsmiðað. Það er ekki stórt en hefur sýnt að það getur áorkað ýmsu í samstarfi við aðra. Við fögnum áherslum í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar í byggðamálum, menntun og nýsköpun og hlökkum til áframhaldandi samstarfs við stjórnvöld, háskóla, sveitarfélög, fyrirtæki, rannsóknarstofnanir og almenning,“ segir framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.