Heilbrigð og jákvæð sýn á líkamann
Í tískuheiminum þetta sumarið má vart snúa sér í hálfhring án þess að verða var við stefnu er kallast Barbiecore og á rætur sínar að rekja til klæðaburðar leikfangs.
Ekki eru allir hrifnir af þeirri hugmynd að Barbara Millicent Roberts, eða plastdúkkan Barbie, sé í hávegum höfð – en þess verður þó að gæta að áður en ímynd hennar er dæmd óhæf mætti líta framhjá ytra útliti hennar og einblína frekar á sterkan karakter, áhrif, afrek og aðra jákvæða punkta.
Alveg síðan Barbie var kynnt til leiks árið 1959 hefur hún án efa borið þann titil að vera tímalaus fyrirmynd. Hún hefur sýnt börnum að þau geti orðið það sem þau vilja, án tillits til þess hvernig ytra útlit þeirra er. Barbie sjálf hefur til dæmis verið í hlutverki skordýrafræðings, læknis, prinsessu og sendiherra UNICEF – auk þess að vera geimfari áður en Neil Armstrong komst til tunglsins.
Í heimi þar sem enn er stundum litið á styrk og kvenleika sem andstæða eiginleika, sýnir Barbie fram á að allt er mögulegt. Samkvæmt framleiðanda hennar, Mattel, fagnar vörumerkið fjölbreytileikanum á sem víðtækastan hátt, er fylgjandi hjónabandi samkynhneigðra og hefur nú nýverið framleitt transdúkku.
„Við teljum það mikinn heiður að fagna verðlaunaleikkonunni og LGBTQ+ réttindabaráttumanninum Laverne Cox með dúkku,“ sagði Lisa McKnight, framkvæmdastjóri og alþjóðlegur yfirmaður Barbie &Dolls hjá Mattel í viðtali við The Guardian.
Veitir fyrirtækið einnig framlag í nafni Cox félagasamtakanna TransFamilySOS, sem hafa það hlutverk að þétta samfélag transfjölskyldna á einn eða annan hátt.
Er rétt að kenna börnum að dæma eftir útlitinu?
Áhugavert er að samfélög víðast hvar í heiminum virðast ekki eigaauðvelt með að líta framhjá óraunhæfum líkamshlutföllum Barbie. Dæma hana út frá útliti hennar, frekar en lífssýn, afrekum og yfir 200 starfsferlum. Jú, líkamshlutföll hennar eru ekki raunhæf, en Barbie er plastdúkka.
Barnaleikföng eru sjaldan nákvæm framsetning á raunveruleikanum, ef vel er að gáð. Börn vita það nema þeim sé bent á annað og því ekki jákvætt að foreldrar brengli hugsunarhátt þeirra óumbeðin. Framleiðendur hafa þó tekið rólega á móti allri gagnrýni. Barbie hefur haldið sínu striki og verið áfram hún sjálf, sem er til fyrirmyndar út af fyrir sig.
Sýn tískunnar 2022-2023
Hvað viðkemur tískuhræringum ársins er nú helst uppi á teningnum vísun í klæðaburð Barbie, sem hefur gegnum árin verið áberandi litskrúðugur öllu jöfnu, fjörugur og oft í bleikari kantinum. Slíkar áherslur má finna víða á pöllum tískunnar þessa dagana og þá undir heitinu Barbiecore – ef til vill ætlað fólki sem eru „hardcore“ aðdáendur Barbie.
Tískuveldi Valentino sem lauk haustsýningu sinni fyrir árið 2022 nú nýverið í Róm, er meðal annars undir áhrifum Barbiecore og kynnti fuchsia- bleika kjóla, buxnadress og platform hæla í stíl undir stjórn hins skapandi stjórnanda Pierpaolo Piccioli.
Pönkdrottningin og hönnuðurinn Betsey Johnson er önnur sem hefur umfaðmað Barbicore og má sjá ýmsa gleði frá henni nú í ár – en hún hefur reyndar alltaf leikið sér með rokk og ról útgáfu þess sem mætti flokkast undir fjöruga tísku Barbie.
Áhrifavaldar og ýmsar stjörnur á borð við Paris Hilton, Kim Kardashian og söngkonuna Nicki Minaj hafa þó – í gegnum árin – verið óhræddar við að klæðast alklæðnaði í anda dúkkunnar margfrægu, í bleiku frá toppi til táar. Hönnuðir eru þar ekki undanskildir, t.d. ef litið er á vorsýningu Moschino árið 2015. Þar strunsuðu módelin um tískupallana eins og klippt út úr pöntunarlista Barbiefatnaðar við mikla gleði viðstaddra. Má því segja að grunnt sé á Barbídúkkunni í fólki og skilji það hver á sinn hátt.
Barbiecore-tískan er greinilega eitthvað sem gleður hjartað, opnar fyrir þann möguleika að ekki þurfi alltaf allt að vera svart og mælir óhikað með því að taka sér Barbie til fyrirmyndar.
Hún hefur a.m.k. jákvæða sýn á sjálfa sig, full lífsgleði og tekur ekki mark á hvað öðrum finnst.