Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Júlíus Þröstur Sigurbjartsson og Sigríður Jóhannesdóttir í Sillukoti. Þau keyptu félagið Sælusápur fyrir tveimur árum, byrjuðu í bílskúr á Þórshöfn en eru nú komin með reksturinn til Gunnarsstaða þar sem þau reka eitt af þremur sauðfjárbúum á bænum. Sauðfjárbú og framleiðsla á sápum og fleiri vörum fer vel saman og styrkir búsetuna.
Júlíus Þröstur Sigurbjartsson og Sigríður Jóhannesdóttir í Sillukoti. Þau keyptu félagið Sælusápur fyrir tveimur árum, byrjuðu í bílskúr á Þórshöfn en eru nú komin með reksturinn til Gunnarsstaða þar sem þau reka eitt af þremur sauðfjárbúum á bænum. Sauðfjárbú og framleiðsla á sápum og fleiri vörum fer vel saman og styrkir búsetuna.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 30. júlí 2021

Innréttuðu gamla vélaskemmu og framleiða þar sápur og kerti

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Það var alltaf ætlunin að flytja framleiðsluna heim í Gunnarsstaði enda mun hentugra að hafa starfsemina heima á hlaði,“ segir Sigríður Jóhannesdóttir, sem ásamt eiginmanni sínum, Júlíusi Þresti Sigurbjartssyni, rekur fyrirtækið Sillukot sem m.a. framleiðir Sælusápur. Þau hjónin keyptu Sælusápur fyrir tveimur árum, fluttu það úr Kelduhverfi og til bráðabirgða í bílskúr í eigu systur Sigríðar á Þórshöfn. 

Undanfarið ár hafa þau Sigríður og Júlíus unnið að endurbótum á gamalli vélaskemmu sem byggð var utan á fjárhúshlöðu þeirra á Gunnarsstöðum. Nýinnréttuð aðstaða hefur nú verið tekin í notkun og hlakka þau hjón til að taka á móti gestum.

Félagið framleiðir um 15 gerðir af handsápum, handgerð kerti og ýmsar aðrar handgerðar heimilisvörur. Á Gunnarsstöðum eru rekin þrjú sauðfjárbú og eru þau Sigríður og Júlíus með eitt þeirra. Hún segir að vel fari saman að reka sauðfjárbú og fyrirtækið Sælusápur, í því felist ýmis jákvæð samlegðaráhrif og styrki búsetu þeirra á heimaslóð. Sigríður og Júlíus eiga þrjár dætur sem allar vinna jafnt og þétt með foreldrum sínum við sápugerðina og búskapinn.

Sillukot framleiðir um 15 gerðir af handsápum, handgerð kerti og annan heimilisvarning. Hægt er að skoða úrvalið á Gunnarsstöðum í Þistilfirði þar sem söluaðstöðu hefur verið komið upp. 

Tóku gamla vélaskemmu í nefið

Sigríður segir að á liðnum vetri hafi verið unnið við endurbætur á vélaskemmunni, en hún er tæpir 80 fermetrar að stærð. Þau tóku þá ákvörðun að stúka annan enda hennar af, um 20 fermetra pláss, og tengdu hann hesthúsi þeirra og þar mun verða áhalda- og verkfærageymsla. Sápu- og kertagerðin hefur þá yfir að ráða um 55 fermetrum, vinnslan er í 40 fermetrum, sölugallerí hefur um 10 fermetra til umráða og annað pláss undir salerni og inngang. „Þetta var óupphituð véla- og verkfærageymsla. Við hreinsuðum allt út, skiptum um þak, einangruðum rýmið og klæddum það að innan, endurnýjuðum rafmagn og lagnir í gólfi. Það má orða það svo að við höfum tekið húsnæðið algjörlega í nefið. Fyrir vikið er aðstaðan orðin glæsileg og við himinsæl með útkomuna,“ segir Sigríður. 

Í framkvæmdum eins og þessum er ómetanlegt að búa í sveit eins og okkar þar sem menn fara á milli bæja og hjálpast að. Má þar nefna að þegar við skiptum um þak mætti vaskur hópur manna og hamarshöggin ómuðu í 2 daga meðan þeir skiptu um þakið. Svona samvinna gerir það að verkum að svona verk eru framkvæmanleg. Við mjög þakklát fyrir alla þá aðstoð sem við fengum til að láta þennan draum okkar verða að veruleika.“  

Hér má sjá Sigríði hræra saman hráefnum, tólg, olíu, vítissóda, ilm og jurtum til að sápan verði til, en öll sápa er hrærð saman á þennan máta, m.a. pískara og töfrasprota í potti.

Vonum að sem flestir komi í heimsókn

Í vinnslurýminu framleiðir hún sápur, margs konar kerti og varasalva.  

„Vonandi eiga fleiri vörur eftir að bætast við með tíð og tíma,“ segir hún. „Við verðum með opið í sumar en engan formlegan afgreiðslutíma, við erum nær alltaf heima við og getum þá skroppið niður eftir og opnað fyrir þá sem eiga leið um og vilja kíkja til okkar.“ Sigríður segir að það sé skemmtilegt að sýna gestum aðstöðuna, þeir koma heim á sveitabæinn þeirra og fá að sjá og upplifa það sem verið er að sýsla við daglega. Hænur eiga það til að ganga yfir hlaðið, heimalningar jarma og láta í sér heyra þegar þeir verða svangir og stöku sinnum baula kálfar utan við gluggann. „Það er óhætt að segja að það er fjör hjá okkur í Sillukoti og við vonumst eftir að fá sem flesta gesti til okkar í heimsókn í sumar.“ Sigríður segir að nafnið Sillukot megi rekja til ömmu hennar og alnöfnu sem gjarnan var kölluð Silla á Gunnarsstöðum. „Þegar ég stend í dyrunum á kotinu okkar horfi ég yfir á gamla bæinn á Gunnarsstöðum þar sem hún bjó en óneitanlega verður mér oft hugsað til hennar eftir að við hófum þessa vegferð,“ segir hún. 

Jurtir úr íslenskri náttúru í sápunum

Sælusápur komu sér upp vefverslun síðastliðið haust og segir Sigríður að hún hafi skilað talsverðu, enda var bróðurpart liðins ár lítið hægt að fara um og taka þátt í mörkuðum líkt og smáframleiðendur gera gjarnan. Vefverslunin verður starfrækt áfram, enda þægilegur verslunarmáti sem margir hafa tileinkað sér undanfarin misseri. Nú þegar hefur fyrirtækið aflað sér nokkurra viðskiptavina sem hún segir að kalla megi fastakúnna. 

„Kórónuveirufaraldurinn breytti heilmiklu fyrir okkur. Margir af okkar endursöluaðilum byggðu á sölu til ferðamanna, þannig að sala dróst verulega saman þegar þeir hurfu af landinu. En á sama tíma byggðist íslenskur markaður upp hægt og rólega,“ segir Sigríður. Hún nefnir að Sælusápur sem innihalda íslenskar og handtíndar jurtir hafi reynst þeim vel sem hafa viðkvæmar hendur sem þorna við mikla sprittnotkun og handþvott. 

Hörkuvinna fram undan við að byggja upp markað

„Best er að hafa markaðinn blandaðan, bæði Íslendinga og útlendinga,“ bætir hún við og nefnir að við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að nota vörur sem framleiddar eru á Íslandi sé þess kostur en slíkt er umhverfisvænna og styrkir búsetu í landinu. En einnig er gaman að erlendir ferðamenn geti notið þess að taka mér sér vörur framleiddar á landinu og á þann hátt tekið með sér brot af Íslandi þegar haldið er heim. Það eigi við um sápurnar sem innihaldi íslenska kindatólg og jurtir úr íslenskri náttúru. 

„Fram undan hjá okkur er hörkuvinna við að byggja upp sterkan markað, aðstaðan er komin svo nú brettum við upp ermar og hefjumst handa. Við höfum fulla trú á að framleiðsla okkar vaxi og dafni. Við ætlum svo sannarlega að nýta okkur það að styrkja búsetu okkar í sveitinni með eigin framleiðslu,“ segir Sigríður.

Sillukot sækir nafn sitt til  ömmu Sigríðar og alnöfnu sem á sinni tíð bjó á Gunnarsstöðum.

Skylt efni: Sælusápur | Sillukot

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...