Íslandsmót skákfélaga
Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og Reykjavík Open, sem fjallað verður um síðar.
Íslandsmót skákfélaga er, eins og nafnið bendir til, deildaskipt liðakeppni á milli íslenskra skákfélaga og leggja félögin oft mikið á sig til að taka þátt í mótinu og mæta með sem flest lið til keppni til að svala skákþorsta sinna félagsmanna. Öllum félögum er heimilt að mæta með eins mörg lið og þau geta og verða þau að skila inn fyrir fram styrkleikaröð sinna liða, alveg frá A-liði niður í H-lið ef því er að skipta. A-liðið er þá sterkast og H-liðið slakast. 6 skákmenn skipa hvert lið, en í úrvalsdeild eru 8 skákmenn í hverju liði og þar tefla sex bestu lið landsins tvöfalda umferð um Íslandsmeistaratitilinn.
Mótinu er skipt í tvo hluta og er fyrri hlutinn oftast tefldur í október en seinni hlutinn í mars.
Í 1.–3. deildar eru svo átta 6 manna lið sem tefla sín á milli. 4. deildin er síðan fyrir öll önnur lið og er ótakmarkaður fjöldi liða leyfður þar. Þetta er í raun mjög svipað og í boltaíþróttum. 1. og 2. sætið í deildunum gefur þátttökurétt í næstu deild fyrir ofan en neðstu tvö liðin falla niður um deild.
Í ár tekur metfjöldi liða þátt í mótinu en 58 lið taka þátt og þar af 28 í 4. deild. Langflest lið koma af höfuðborgarsvæðinu, en landsbyggðarskákfélögin gera sitt besta til að manna sem flest lið, enda skipar Íslandsmót skákfélaga mikilvægan sess í skákheiminum og margir skákmenn leggja mikið á sig til að vera með þar sem margir þeirra tefla nær eingöngu í þessu móti. 360 skákmenn tefldu í hverri umferð í keppninni í ár, auk þess sem nokkrir tugir af varamönnum tefldu líka eitthvað. Vel á fimmta hundrað skákmanna tefldu eina eða fleiri skákir á mótinu núna í október.
Íslandsmeistararnir frá því í fyrra, Skákdeild Fjölnis, eru efstir í úrvalsdeild eftir fyrri hlutann. Taflfélag Reykjavíkur er í öðru sæti og skákdeild KR í því þriðja.
Uppruni félaganna er jafnmisjafn og þau eru mörg. Sum þeirra eru skákdeildir úr stórum íþróttafélögum eins og t.d. Fjölnir, KR og Breiðablik.
Stór og rótgróin skákfélög eins og Taflfélag Reykjavíkur, Taflfélag Garðabæjar, Skákfélag Akureyrar og Taflfélag Vestmannaeyja taka að sjálfsögðu líka þátt í mótinu. Svo eru einnig mun minni og yngri félög með lið, eins og t.d. Skákgengið, Hrókar alls fagnaðar og Dímon svo eitthvað sé nefnt. Í raun geta vinahópar eða vinnustaðir sent lið til keppni hafi þeir a.m.k. 6 áhugasama skákmenn innanborðs og teflt í 4. deild, því þar byrja öll ný lið.
Undirritaður hefur tekið þátt í mótinu með sínu liði frá árinu 2007 og er það alltaf jafnskemmtilegt. Þar hittir maður vini með sama áhugamál á öllum aldri. Helsti kostur þess að vera í skákinni er sá að þú getur tekið þátt í keppni meðan þér endist aldur til og æft þig í tölvunni heima. Svo er líka skák skemmtileg.
Ef lesendur luma á skemmtilegri skák sem þeir hafa teflt, má hafa sambandi við undirritaðan á netfangið lyngbrekku@simnet.is