Kirkjuráð Hrútavinafélagsins Örvars í Hveragerðiskirkju
Meðal kirkjugesta í guðsþjónustu í Hveragerðiskirkju sunnudaginn 14. júlí síðastliðinn var Kirkjuráð Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi.
Var samverustundin í guðsþjónustunni hluti af 25 ára afmælishaldi félagsins. Björn Ingi Bjarnason á Eyrabakka er í Kirkjuráðinu og segir hann að Kirkjuráðið hafi sótt messur í nær öllum kirkjum á Suðurlandi á starfstíma ráðsins.
Björn segir að félag fyrrum þjónandi presta og maka hafi stýrt fallegri og innihaldsríkri guðsþjónustu. „Séra Friðrik Hjartar prédikaði og séra Kristján Valur Ingólfsson þjónaði fyrir altari. Ester Ólafsdóttir lék á orgelið í messunni. Að lokinni guðsþjónustu var kirkjukaffi í safnaðarheimilinu þar sem séra Gylfi Jónsson lék á píanó undir fjöldasöng kirkjugesta.
Í lok kirkjukaffisins ávarpaði Kirkjuráðið hina fyrrum þjónandi presta og þakkaði þær mörgu ánægjulegu samverustundir í kirkjum á Suðurlandi sem fært hafa tilverunni fyllingu,“ segir Björn.