Landbúnaðarróbóti
Ýmislegt áhugavert bar fyrir augum á Landbúnaðarsýningunni í Herning á Jótlandi um síðustu mánaðamót.
Þar voru til sýnis fallegir gripir og áhugaverðar tækninýjungar til að létta bændum lífið og auka uppskeru.
Það sem vakti mesta athygli blaðamanns Bændablaðsins á sýningunni var stór sjálfstýrandi landbúnaðarróbóti sem kallast Robotti og er hannaður og framleiddur af dönsku fyrirtæki sem kallast Agrointelli.
Við fyrstu sýn virtist róbótinn fremur klunnalegur enda er hann 3,1 tonn að þyngd og 2,15 metrar að hæð, tæpir fimm metrar að lengd og breidd og með bil á milli hjóla stillanlegt frá 1,66 og upp í 3,65 metra. Við nánari skoðun kom í ljós að græjan var furðu lipur og snögg í snúningum og vegna hönnunarinnar á hjólabúnaðinum gat hún snúið við svo gott sem á punktinum. Díselmótorinn sem drífur róbótinn áfram er af gerðinni Kubota.
Nýsköpun kjarninn
Ole Green, stofnandi Agrointelli og aðalhönnuður Robotti liðléttingsins, sagði í samtali við Bændablaðið að mikil vinna og nýsköpun lægi að baki tækninni sem Robotti byggði á.
„Helsti kostur róbótans er að hann er ódýr í rekstri, léttir bændum vinnu og dregur úr fjölda starfsmanna og því fjárhagslega hagkvæmur. Auk þess viðbótarbúnaðar sem við bjóðum í dag erum við meðal annars að hanna tækni sem staðsetur og mælir vöxt plantnanna og getur því gefið viðbótarskammt af áburði þar sem þess er þörf.
Í dag eru 30 slíkir róbótar í notkun í nokkrum löndum og en sá síðasti seldist til Austurríkis.“
Tvær týpur í boði
Robotti liðléttingana er hægt að fá í tveimur útgáfum, LR og 150D. Báðar týpurnar vinna í megindráttum eftir lögmáli lítilla slátturóbóta þar sem vinnusvæðið er afmarkað fyrirfram en auk þess má stjórna þeim með fjarstýringu.
Báðar gerðirnar eru gerðar til að sá, reyta illgresi og úða á ökrum. Auk þess sem hægt er að fá fyrir þær aukabúnað eins og sláttuvél, jarðtætara, sæti til fólksflutninga og ýmislegt fleira.
LR týpan er keyrð áfram af einum mótor en 150D er með tvo mótora og því öflugri og ætluð fyrir torfærara land. Afkastageta beggja er um 36 hektarar á dag.
Að sögn Ole er fyrirtækið þegar komið með umboðsaðila víða um heim og fulltrúar þess alltaf tilbúnir að tala við þá sem hafa áhuga á upplýsingum um tækið.