Margt að sjá og bragða á
Tugþúsundir gesta heimsóttu stórsýninguna Íslenskur landbúnaður í Laugardalshöllinni um síðustu helgi. Á sýningunni gafst gestum tækifæri á að skoða alla þá fjölbreytni sem íslenskur landbúnaður hefur upp á að bjóða.
Auk þess að skoða nýjustu tæki og tól fyrir landbúnað gátu gestir smakkað á ótrúlegu úrvali gómsætra afurða frá fjölda minni og stærri framleiðenda.
Forseti Íslands og matvælaráðherra fluttu ávarp við opnun sýningarinnar og voru þau sammála um nauðsyn öflugs landbúnaðar í landinu sem undirstöðugreinar í samfélaginu og að nauðsynlegt væri að styrkja stoðir greinarinnar til að tryggja fæðuöryggi í landinu.
Ólafur M. Jóhannesson, framkvæmdastjóri sýningarinnar, sagði í samtali við Bændablaðið að fjölbreytni landbúnaðarins á Íslandi sé mikil og að sýningin hafi að hans mati endurspeglað þá miklu grósku.