Nýsköpun í Vaxtarrými
Tíu nýsköpunarteymi voru valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum Vaxtarrými sem hófst 3. október og stendur yfir næstu átta vikurnar á Norðurlandi.
Áhersla er á sjálfbærni, undir þemanu „matur, orka og vatn“. Meðal verkefna sem teymin fást við eru verðmætasköpun úr snoði, vinnsla á skarfakáli og vöruþróun úr úrgangi hænsna.
Vaxtarrými er starfrækt af samstarfsverkefninu Norðanátt, sem miðar að því að efla frumkvöðlastarfsemi á Norðurlandi.
Þetta er í annað sinn sem viðskiptahraðallinn er haldinn, en í fyrra tóku átta frumkvöðlateymi þátt.
Í tilkynningu frá Norðanátt kemur fram að teymin munu á næstu vikum hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja frá öllu landinu, sitja vinnustofur og fræðslufundi auk þess að mynda sterkt tengslanet sín á milli. Sérstök áhersla verður lögð á að hvetja þátttakendur til að sækja sér fjármagn í formi styrkja – og þeim veitt aðstoð við það.